Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                

Ingi krypplingur eða Ingi 1. Haraldsson (um 11351161) var konungur Noregs frá 1136, fyrst með Sigurði munni hálfbróður sínum til 1155 og með Eysteini hálfbróður sínum frá 1142 til 1157. Frá 1159 var Hákon herðabreiður einnig konungur í hluta ríkisins.

Ingi var sonur Haraldar gilla Noregskonungs og Ingiríðar Rögnvaldsdóttur drottingar hans og var eini skilgetni sonur konungs en það skipti reyndar ekki máli á þeim tíma hvað varðaði ríkiserfðir. Hann var ásamt Sigurði bróður sínum tekinn til konungs eftir að Sigurður slembidjákn drap föður þeirra í árslok 1136 og næstu árin áttu menn konunganna ungu í átökum við Sigurð slembidjákn og Magnús blinda, fyrrverandi konung, sem hann hafði sótt í klaustur.

Í orrustu árið 1137 hafði einn manna Inga hann með sér og hlaut hann þar sár sem talið er að valdið hafi fötlun hans, en hann átti meðal annars erfitt með að ganga óstuddur og hafði kryppu á baki og brjósti. Frá þessum tíma er til bréf sem skrifað er í nafni Inga konungs til Sigurðar munns og segir þar meðal annars: „Öllum mönnum eru kunnug vandræði þau er við höfum og svo æska, að þú heitir fimm vetra gamall en eg þrevetur.“ Þessir barnungu konungar - eða menn þeirra - unnu loks sigur á Sigurði slembidjákn og Magnúsi blinda 1139 og voru þeir báðir drepnir.

Árið 1142 kom eldri hálfbróðir þeirra, Eysteinn, til Noregs frá Bretlandseyjum þar sem hann hafði alist upp og var hann einnig tekinn til konungs með þeim. Bræðurnir ríktu saman í tiltölulegri sátt og samlyndi framan af og bar það helst til tíðinda á valdatíma þeirra þriggja að sendimaður páfa kom til Noregs og stofnaði erkibiskupsstól í Niðarósi.

Þegar Gregoríus Dagsson varð helsti ráðgjafi Inga konungs versnaði samkomulag bræðranna og stóðu þeir Sigurður og Eysteinn þá saman gegn Inga og vildu setja hann af sem konung, töldu hann ekki hæfan vegna fötlunar. Komið var á sáttafundi þeirra þriggja í Björgvin 1155 en þegar Sigurður kom þangað drápu menn Inga hann. Eftir það varð fullur fjandskapur milli Inga og Eysteins og féll Eysteinn fyrir mönnum Inga tveimur árum síðar. Stuðningsmenn Sigurðar og Eysteins flykktu sér þá um Hákon herðabreiðan, ungan son Sigurðar. Ingi féll fyrir þeim í bardaga sem háður var á ís við Ósló 1161 en skömmu áður hafði Gregoríus ráðgjafi hans verið drepinn. Annar helsti ráðgjafi Inga var Erlingur skakki og tók hann við stjórn fylgismanna hans.

Ekki er vitað til þess að Ingi hafi kvænst en Jón kuflungur, sem gerði tilkall til krúnunnar um 1185, kvaðst vera sonur hans.

Heimildir

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Inge Krokrygg“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. desember 2009.
  • „Heimskringla“.


Fyrirrennari:
Haraldur gilli
Noregskonungur
með Sigurði munni og Eysteini Haraldssyni (frá 1142-1157); með Hákoni herðabreiða (frá 1159)
(11361161)
Eftirmaður:
Hákon herðabreiður
Magnús Erlingsson