Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Fulla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fulla krýpur við hlið Friggjar á mynd eftir Ludwig Pietsch (1865).

Fulla er ásynja í norrænni goðafræði. Hún er talin meðal fylgikvenna Friggjar. Hún er sögð bera eski Friggjar, en eski getur bæði þýtt „askja“ og „spjót“. Hvort tveggja hefði á þessum tíma verið gert úr eskivið.[1]

Ritaðar heimildir um Fullu

[breyta | breyta frumkóða]

Í upptalningu á ásynjum í Gylfaginningu er sagt um Fullu:

Fimmta er Fulla. Hún er enn mær og fer laushár og gullband um höfuð. Hún ber eski Friggjar og gætir skóklæða hennar og veit launráð með henni.[2]

Aftur er minnst stuttlega á Fullu í frásögn Gylfaginningar af dauða Baldurs. Þegar Hermóður hinn hvati heldur til Heljar til þess að vitja Baldurs færir Baldur honum ýmsar gjafir til að gefa goðunum í Ásgarði. Meðal gjafanna sem Baldur sendir heim er fingurgull handa Fullu.[2]

Fulla birtist í aukahlutverki í kvæðinu Grímnismálum í Sæmundareddu. Í kvæðinu gerir Frigg veðmál við eiginmann sinn, Óðin, um að fóstri hans, konungurinn Geirröður, sýni gestum sínum ekki tilhlýðilega gestrisni. Frigg sendir þá Fullu til Geirröðar á undan Óðni með skilaboð til að vara hann við komu „fjölkunnugs manns“ og segir honum hvernig hann geti borið kennsl á hann:

Frigg sendi eskimey sína Fullu til Geirröðar. Hon bað konung varast, at eigi fyrirgerði honum fjölkunnigr maðr, sá er þar var kominn í land, ok sagði þat mark á, at engi hundr var svá ólmr, at á hann mundi hlaupa.[3]

Í Skáldskaparmálum er Fulla nefnd meðal átta ásynja sem sækja veislu hjá jötninum Ægi í Hlésey. „Höfuðband Fullu“ er jafnframt ein af skáldskaparkenningunum fyrir gull sem kvæðið telur upp.

Minnst er á Fullu í annarri af tveimur særingaþulum frá 10. öld sem fundust í handriti í Merseburg í Þýskalandi árið 1841. Í særingarþulunni er Fulla (eða „Volla“) ein af þeim sem fara með galdur til að lækna hest Baldurs eftir að hann tognar á hæl þegar þeir Óðinn ríða í gegnum skóg. Í kvæðinu er Fulla sögð systir Friggjar fremur en að vera einfaldlega í þjónustu hennar.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Ásynjur“. Ásatrúarfélagið. Sótt 4. mars 2019.
  2. 2,0 2,1 Snorri Sturluson. „Gylfaginning“. Snerpa. Sótt 3. mars 2019.
  3. „Grímnismál“. Snerpa. Sótt 3. mars 2019.
  4. John Lindow (2001). Norse Mythology: A Guide to the Gods, Heroes, Rituals, and Beliefs. Oxford University Press.