Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                

Karl 7. Frakkakonungur

Karl 7. (22. febrúar 1403 – 22. júlí 1461), kallaður Karl sigursæli, var konungur Frakklands frá 1422 til 1461. Hann var fimmti konungur Frakklands af Valois-ætt. Karls er gjarnan minnst vegna samskipta sinna við Jóhönnu af Örk og vegna þess að á hans tíma snerist gæfan Frökkum í vil í hundrað ára stríðinu.

Karl 7.

Karl var sonur Karls 6. og Ísabellu af Bæjaralandi. Árið 1418 náði Karl, þá erfðaprins, að forðast handtöku þegar óvinir hans úr hópi Búrgúnda hertóku París. Hann flúði til Bourges og lýsti sig ríkisstjóra franska konungdæmisins þar sem faðir hans hafði misst vitið og var óhæfur til að stjórna ríkinu þar sem hann hafði orðið eftir í París þegar Jóhann óttalausi hertogi af Búrgúnd náði þar völdum. Karl erfðaprins stóð líklega fyrir því að Jóhann var myrtur þann 10. september 1419.

Með Troyes-sáttmálanum sem Karl 6. gerði árið 1420 var Karl sviptur erfðarétti sínum og hinni ensku Lancaster-ætt veitt konungsvald yfir Frakklandi. Karl 7. lýsti sig þó samt konung þegar faðir hans dó þann 21. október 1422. Ekki var nein sátt um þetta tilkall Karls og því varð hann einungis konungur í hluta af Frakklandi og var studdur í borgarastríðinu sem þá hafði brostið á af Armaníökum (Armagniac) gegn Búrgúndum sem studdu Valois-Búrgúnd-ættina á konungsstól. Karl var uppnefndur „konungurinn af Bourges“ af andstæðingum sínum. Staða hans batnaði þó til muna þegar Jóhönnu af Örk tókst í nafni Karls að hertaka Orléans og gerði Karli kleift að hljóta formlega krýningarathöfn í Reims.

Karl lét helga krýningu sína í Reims þann 17. júlí 1429 og studdi þannig lögmæti tilkalls síns til frönsku krúnunnar. Hann réðst til atlögu gegn Búrgúndum sem voru hliðhollir Englendingum en samdi jafnframt um vopnahlé við Filippus góða af Búrgúnd og skrifaði síðan með honum undir Arras-sáttmálann árið 1435. Þar með var endi bundinn á borgarastyrjöldina sem hafði geisað frá árinu 1407 milli Armaníaka og Búrgúnda. Upp frá því gat Karl einbeitt sér að stríðinu gegn Englendingum og tókst að reka þá út úr franska konungdæminu með lokasigri sínum í orrustunni við Castillon árið 1453. Þar með lauk hundrað ára stríðinu.

Karl einbeitti sér síðan að því að byggja upp vald krúnunnar með því að leggja áherslu á hlutverk konungsins sem verndara frönsku kirkjunnar. Síðustu valdaár Karls einkenndust af rígi milli hans og sonar hans, sem átti eftir að setjast á konungsstól sem Loðvík 11. Frakkakonungur.

Heimild

breyta


Fyrirrennari:
Karl 6.
Konungur Frakklands
(21. október 142222. júlí 1461)
Eftirmaður:
Loðvík 11.