Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Dísilolía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Dísilolía er eldsneytisolía, sem notuð er á dísilvélar. Hún dregur nafn sitt af þýska verkfræðingnum Rudolf Christian Karl Diesel (1858 – 1913). Hann fann upp dísilvélina þegar hann vann að því að finna upp vél með betri nýtni en gufuvélin hafði.[1] Upphaflega hannaði Diesel vélina til að ganga á koladufti, næst gerði hann tilraunir með grænmetisolíu og loks með dísilolíu sem unnin var úr hráolíu.[2]

Hægt er að skipta dísilolíu í þrjá flokka: Dísilolíu sem unnin er úr hráolíu, lífdísilolíu og Fischer-Tropsch-dísilolíu.

Dísilolía sem unnin er úr hráolíu

[breyta | breyta frumkóða]

Hægt er að vinna dísilolíu úr hráolíu með þrepaeimingu við um það bil 200 – 350 °C við 1 atm þrýsting.[3][4] Dísilolían samanstendur aðallega af kolvetniskeðjum með fjölda kolefnisatóma á bilinu 10 – 18. Auk þess inniheldur hún mismikið af brennisteini, köfnunarefni og öðrum óhreinindum eftir því hvernig hráolían, sem hún er unnin úr, er samsett.[5] Eðlismassi dísilolíu sem unnin er úr hráolíu er um 0,85 kg/l eða um 18% meiri en eðlismassi bensíns. Olían inniheldur milli 18 og 30% meiri orku á rúmmál en bensín.[6][7]

Lífdísilolía

[breyta | breyta frumkóða]

Lífdísilolíu er hægt að framleiða úr grænmetisolíu eða dýrafitu.

Lífdísilolía úr grænmetisolíu

[breyta | breyta frumkóða]

Breyta má grænmetisolíu með umesterun þannig að hægt sé að nota hana á dísilvélar. Lífdísilolía hefur örlítið minna orkuinnihald en dísilolía sem unnin er úr hráolíu. Hún inniheldur einnig minna magn af brennisteini og arómatískum efnasamböndum. Algengast er að lífdísilolía sé framleidd úr sojabaunaolíu (soybean oil) eða repjuolíu (rapeseed). Sojabaunaolía er mikilvæg í fæðuframleiðslu og er framleiðsla lífdísilolíu úr henni frekar dýr vegna þess hve eftirsótt hún er á matvælamarkaði. Lífdísilolía mengar minna og er umhverfisvænni en olía sem unnin er úr hráolíu og hægt er að nota hana á dísilvélar án þess að breyta þurfi vélunum á nokkurn hátt. Grænmetisolíur eru endurnýjanleg auðlind og er orkuinnihald þeirra svipað og dísilolíu sem unnin er úr hráolíu. Taka verður samt með í reikninginn að mikil notkun á grænmetisolíu til dísilframleiðslu getur haft áhrif á fæðuframleiðslu og jafnvel valdið hungursneyðum í þróunarlöndunum. Hægt er að nýta notaða matarolíu sem fellur til, til dísilolíuframleiðslu. Sú framleiðsla er hins vegar flóknari sökum óhreininda í olíunni.[8]

Lífdísilolía úr dýrafitu

[breyta | breyta frumkóða]

Mikið fellur til af dýrafitu í heiminum sem hægt væri að nýta til lífdísilolíuframleiðslu. Sú framleiðsla er hins vegar flóknari.[9]

Fischer-Tropsch-dísilolía

[breyta | breyta frumkóða]

Fischer-Tropsch dísilolía er framleidd úr efnasmíðagasi. Með Fischer-Tropsch-aðferðinni er hægt að framleiða olíu úr efnasmíðagasi sem samanstendur af passlega löngum kolvetniskeðjum til að hægt sé að nota hana á dísilvélar. Æskilegt er að dísilolía sé úr sem hæstu hlutfalli af beinum kolvetniskeðjum. Afurð Fischer-Tropsch aðferðarinnar er hins vegar blanda beinna kolvetniskeðja auk ýmissa annarra afurða, svo sem ekki beinna kolvetniskeðja og óhreininda. Olían þarf því að fara í gegnum ýmsar hreinsanir áður en hægt er að nota hana á dísilvélar. Dísilolía sem framleidd er á þennan hátt inniheldur minna af brennisteini og köfnunarefni en aðrar dísilolíur (fer eftir hráefni).[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Rudolf Christian Karl Diesel“ (2009).
  2. „Energy Information Administration“.
  3. „Energy Information Administration“.
  4. Moore, Stanitski og Jurs (2008).
  5. Jansson (2008).
  6. „Energy Information Administration“.
  7. Moore, Stanitski og Jurs (2008).
  8. Demirbas, Ayhan (2008).
  9. Demirbas, Ayhan (2008).
  10. Jansson (2008).