Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Endurholdgun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hjól lífsins, kínversk lágmynd frá 12. öld sem sýnir hringrás endurholdgunar

Endurholdgun eða endurfæðing (sem hefur einnig aðra merkingu í sumum kristnum söfnuðum sem andleg endurfæðing) er sú hugmynd að lífverur, og í mörgum tilfellum einungis menn, snúi aftur til lífs eftir dauðan í nýjum líkama.

Þessi hugmynd er í trúarlegum skilningi einkum trúarbrögðum af indverskum uppruna svo sem hindúisma, búddisma og jaínisma. Í þessum trúarbrögðum er endurholdgunin tengd hugmyndinni um karma, lögmál orsaka og afleiðinga. Hugmyndin þekktist einnig í grískri heimspeki og dulspeki og var þar af orfeifskum og pýþagórískum uppruna en var áberandi í platonisma. Flestir söfnuðir í abrahamísku trúarbrögðunum, gyðingdómi, kristni og íslam afneita endurholdgun. Ein grunnhugmynd þessara trúarbragða er að við kveiknun mannlegs lífs öðlist einstaklingurinn sál og að jarðlífi loknu eigi hún eilíft líf, í paradís eða hugsanlega helvíti.

Það eru þó til innan þessara trúarbragða eða tengdar þeim, greinar sem aðhyllast hugmyndina um endurholdgun, má þar nefna antroposofa innan kristni, nokkrar greinar súfista innan íslam og kabbalistar í gyðingdómi.

Á seinustu áratugum hefur trú á endurholdgun aukist mjög á Vesturlöndum meðal annars á Íslandi og er einungis að nokkru leyti tengt Nýaldarhreyfingum[1].

Endurholdgun í austrænum hugmyndheimi

[breyta | breyta frumkóða]

Öll trúarbrögð af indverskum uppruna eiga það sameiginlegt að álíta endurholdgun vera sjálfsagðan kjarna lífsins. Þau greinir hins vegar á um hvað það sé sem flyst milli tilverustiga. Aðalspurningin er hvort það sé eins konar persónukjarni (sál - atman sem hins vegar er skilgreind á mismunandi vegu í þeim trúarbrögðum sem nota það hugtak, til dæmis í hindúisma og jaínisma) eða ópersónubundin meðvitund sem endurholdgast.

Helstu hugmyndir um eðli endurholdgunar í inverskættuðum trúarbrögðum, karma, samsara, og moksha/mukti (sem nefnt er nirvana/nibbana af búddistum), eru ævafornar og með öllu óvíst hvenær þær komu fyrst fram.

Endurholdgun í hindúisma

[breyta | breyta frumkóða]
Helgiathöfn hindúa

Það er í raun á mörkunum að vera rétt að fjalla um hindúisma sem samstæða heild þar sem undir því hugtaki eru margar mismunandi greinar og kenningar. Þær hafa þó allar sameiginlegt að álíta endurholdgun vera sjálfsagðann og óumdeilanlegan hluta tilverunnar. Hringferli endurholdgana er nefnt samsara í hindúisma. Það er fjallað um eðli „dauðans eftir dauðan“ þegar í elstu Vedabókunum (það var faið að skrifa þær um 1500 f.Kr en þær eiga sér enn eldri munnlega forsögu) og hugmyndin um endurholdgun gerð að einni grunkenningu þess sem smám saman verður að hindúisma. Í því safni af elstu vedatextunum sem nefnt er Saṃhitās er tilveran sögð vera skiljanleg og möguleg að stjórna. Guðirnir höfðu gefið mönnunum hinn veraldlega heim og það var hægt að hafa áhrif á þá með bænum, sálmasöng, helgiathöfnum og með því að færa þeim fórnir. Helgiathafnir eru enn mjög mikilvægur þáttur í trúarlífi hindúa.

Í Upanishadritinum, sem skrifuð voru um 700 f.Kr., fóru Indverskir heimspekingar hins vegar að sjá tilveruna sem blekkingu (maja) og raunveruleikinn (sat) fremur séður sem óbreytanlegt einingarlögmál alheimsins sem ýmist er nefnt rita (eðli hlutana), Brahman (hin óendalegi) eða atman (sálin). Hinn veraldlegi heimur virtist skiptast upp í óendanlegri hringrás, þessi hringrás var nefnd samsara (óendanleg umbreyting eða stöðug hreyfing). Í Upanishadritinum er hugtakið samsara tengt kenningunni um karma og þar með mótaðist trú hindúa á því að lífið byggi á gerðum fyrri tilverustiga. Karma er lögmál orsaka og afleiðinga sem gerir hvern einstakling ábyrgan fyrir framtíð sinni með þeim hugsunum, orðum og gjörðum sem hann velur á hverju tilverustigi. Svo lengi sem einstaklingurinn er fastur í samsara heldur hringrás lífs og dauða áfram með þeim þjáningum og erfiðleikum sem því fylgja. Takmarkið er því að losna úr kvöðum samsara en leiðin þangað er torsótt. Upanishadritin fjalla meðal annars um hvernig leitast megi eftir því að feta þá leið og er heimspekileg undirstaða þeirra kenninga sem mynda búddisma og jaínisma.

Samkvæmt hindúismanum er maðurinn guðlegur að eðli en svo lengi sem hann öðlast ekki fullkomna meðvitund um sitt sanna eðli verður hann að flytja frá líkama í líkama. Ef einstaklingurinn hefur haft mjög slæmar hugsanir, illt umtal og slæmar gjörðir þarf hann að „brenna upp karma“ í formi jurtar eða dýrs í næsta lífi. En ef meðvitundin um hið sanna guðlega eðli vex smám saman gegnum ótaldar endurholdganir losnar einstaklingurinn úr fjötrum samsara. Meðvitundin yfirvinnur karma og endurholdgununum líkur með því að maðurinn nær því sem nefnt er moksha (einnig mukti) og er þar með frjáls frá þeim fjötrum sem hafa bundið sjálfið við fæðingu og dauða. Innan hindúismans eru fjölmargar og mismunandi skilgreiningar á því hvað taki við þegar maðurinn hafi uppnáð moksha.

Þrír meginstraumar innan hindúismans hafa hver sína leið til að losna undan þjáningu endurholdgunar: leið þekkingarinnar (Jnana jóga), leið gjörða (Karma jóga), leið Guðsástar (Bhakti jóga). Einnig er algengt að skilgreina fjórðu leiðina (meðal annars af kennimanninum Vivekananda), Raja jóga, eða „konungsjóga“, sem er aðferð jógaæfinga og hugleiðslu.

Endurholdgun í búddisma

[breyta | breyta frumkóða]
Búddamúnkar

Búddisminn tók hugtakið samsara frá hindúismanum þó svo að hugtakið sé frábrugðið á ýmsan hátt. Búddistar trúa ekki á tilveru einstaklingsbundnar sálar, þeir trúa að ópersónubundin meðvitund sé kjarni lífs og það sé þessi meðvitund sem endurholdgist í nýju formi. Það er að segja að einstaklingurinn sem slíkur endurholdgast ekki. Boddhisatva kenningin innan mahayana-búddisma eru þó undantekning frá þessari hugmynd.

Samkvæmt heimsmynd búddista eru öll fyrirbrigði, huglæg jafnt sem hlutlæg, í stöðugri breytingu. Huglæg og hlutlæg fyrirbæri verða til í margbreytilegu og flóknu orsakasamhengi, eftir lengri eða skemmri tíma taka þau að breytast þar til að þau hverfa og birtast í nýju formi. Öll huglæg og hlutlæg fyrirbæri hafa áhrif á önnur fyrirbæri í óendanlegum vef orsaka og afleiðinga. Þetta gildir fyrir öll fyrirbæri nema nirvana, nirvana hefur ekki áhrif á neitt annað og er óbreytanlegt. Vegna þess að öll fyrirbæri eru tengd í óendalegum vef orsaka og afleiðinga hefur tilveran ekkert upphaf.

Búddisminn skilgreinir lífið sem þjáningu og frá henni verður ekki komist vegna þess að allar lífverur eru fastar í hinni eilífu hringrás endurholdgunar. Hún fer frá einu tilverustigi til annars eftir því sem hún hefur unnið til með breytni sinni á hverju æviskeiði, því sem kallað er karma. Karma þýðir „að gera“ og er lögmál orsaka og afleiðinga. Með mikilli einföldun má segja að góðar gerðir uppskeri góða aðbúð og slæmar gerðir leiði til slæms aðbúnaðar. Lífverur endurfæðast á mismunandi gerfum allt eftir karma hvers og eins. Sum gervi bera með sér mikla þjáningu og mannverur geta endurfæðst sem dýr. En ekkert þessara tilverustiga er eilíft heldur undirorpið hnignun, dauða og endurfæðingu. Búddistar telja það sérlega jákvætt að endurfæðast sem mannvera því sambandið og jafnvægið milli þjáningar og hamingju í mannlífinu opna möguleika á því að skynja eðli tilverunnar, losa sig úr samsara og ná nirvana. Markmiðið er að ná stigi fullkomnunar og komast þannig undan því að fæðast á ný.

Í búddismanum er engin guð sem dæmir eða verðlaunar, karma er algjörlega ópersónulegur kraftur. Lifandi verur skap sinn eigin karma með hegðun og hugsun. Markmiðið er að ná stigi fullkomnunar og komast þannig undan því að fæðast á ný og uppná nirvāņa/nibbana.

Endurholdgun í vestrænum hugmyndheimi

[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndir um endurholdgun eða endurkomu sálarinnar í nýju gervi hafa fundist í ýmsu formi í hugmyndaheimi vesturlandamanna um aldaraðir þó svo það hafi yfirleit verið jaðarhugmyndir utan alfaravegs heimspeki og trúarlífs.

Endurholdgun í fornöld

[breyta | breyta frumkóða]

Gríski heimspekingurinn Pýþagóras (d. um 500 f.Kr.) setti fram hugmyndir um möguleika á endurkomu eftir dauðan í nýju lífi. Díogenes Laertíos, gríski heimspekingurinn sem uppi var um ár 200 e.Kr, segir frá því að Pýþagóras hafi einu sinni þekkt sál dáins vinar síns í hundi sem var barinn. Sjálfur sagði Pýþagóras að hann væri tróverska hetjan Evforbos endurholdgaður. Kenningin um endurkomu sálarinnar var einnig tekin upp af grísk-sikileyska heimspekinginum Empedóklesi (um 490-430 f.Kr.) og af Platoni (427—347 f.Kr.). Empedókles sagði: „Ég hef þegar verið piltur og stúlka, runni, fugl og ómæltur fiskur í hafinu“. Platon hélt því fram að maðurinn endurfæddist í samsvörun við það þekkingarstig sem sá látni hafði náð. Þeir sem væru mest upplýstir fæddust meðal annars sem heimspekingar og listamenn. Þeir lægstu fæddust sem kúgarar.

Kristnir gnostikerar í frumkristni töldu sálina flytja í nýjan jarðneskan líkama eftir dauðan. Í raun er litið vitað um kenningar þeirra annað en frá andstæðingum þeirra, þáverandi leiðtogum kristinna. Irenaeus (f. um 120, d. um. 200) var einn af mikilvægustu guðfræðingum í frumkristni og biskup í Lyon. Hann skrifaði gegn gnostikerunum í Contra Heresies, og afskrifað allar kenningar um endurholdgun eða endurkomu sálarinnar í jarðneska tilveru eftir dauðann og taldi þær í algjörri andstæðu við kristna trú. Þessi skoðun Irenaeusar hefur verið allsráðandi innan kristinnar kirkju frá þeim tíma. Origenes (185 – 254 e.Kr.), sem var kristinn guðfræðingur undir sterkum platonskum áhrifum varði að nokkru hugmyndir um endurkomu sálarinnar sérlega það að sálin hefði verið til áður en hún tekur sér bólfestu í jarðneskum líkama. Origenes viðurkenndi þó að kenningin um endurholdgun og endurkomu sálarinnar samrýmdist ekki Nýja testamentinu.

Nýplatonistinn Plótínos (205 - 270 e.Kr) varði kenningar um endurkomu sálarinnar. Hann áleit endurholdgun vera möguleika sálarinnar að læra góðsemi með því að fara í gegnum fleiri tilverustig. Að honum frágengnum urðu kenningar um endurholdgun fágætar í vestrænu trúarlífi og voru það einkum gnostískir hópar (og þá oft á laun) sem viðhéldu hugmyndinni. Það var ekki fyrri en í lok 19. aldar sem þessi hugmynd var endurvakinn í stærri stíl en þá í nánum tengslum við indverskar og aðrar austrænar hugmyndir um karma.

Norræn goðafræði

[breyta | breyta frumkóða]
Sváfa heldur hinum deyjandi Helga í fyrstu holdgun þeirra af þremur.

Í fornsögum norrænna manna eru frásagnir um trú á endurholdgun. Meðal annars er það að finna í Eddukvæðunum. Í Helgakviðu Hjörvarðssonar er sagt frá því að Helgi Hjörvarðsson og ástkona hans, valkyrjan Sváfa, fæddust að nýju sem Helgi Hundingabani og valkyrjan Sigrún. Ástarsaga þeirra Helga og Sigrúnar er umfjöllunarefni í Völsungakviðu og Helgakviðu Hundingsbana. Þau fæddust í þriðja sinn og voru þá nefnd Helgi Haddingjaskati og valkyrjan Kára Hálfdanardóttir, en kvæði það sem um þau fjallaði, Káruljóð, er einungis til í aðlöguðu formi í Hrómundar sögu Gripssonar.

Ekki er ósennilegt að trú á endurholdgun hafi verið algeng meðal norrænna manna til forna enda segir sá sem skráði Eddukvæð: „Þat var trúa í forneskju, at menn væri endrbornir, en þat er nú kölluð kerlingavilla“ en var kristni tekin við er kvæðið var skráð.[2]

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]