Þingholtsstræti 29
Þingholtsstræti 29 er hús notað af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Húsið er norskt timburhús í sveitserstíl sem var reist árið 1899 og er nú friðað.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Í lok 19. aldar keyptu nafnarnir Jón Magnússon, landritari, og Jón Jensson, háyfirdómari (sem síðar varð tengdafaðir Sigurðar Nordals) sér lóðir hlið við hlið í Þingholtsstræti. Á árunum 1898 og 1899 reistu þeir sér hús yfir fjölskyldur sínar, Þingholtsstræti númer 27 og 29. Þingholtsstræti 27 skemmdist í bruna árið 1975 og var flutt yfir götuna á lóð nr. 28 tveimur árum síðar. Húsið númer 29 stendur enn á sínum stað.
Í húsinu við Þingholtsstræti 29 bjó Jón Magnússon ásamt konu sinni, Þóru Jónsdóttur listakonu og kjördóttur þeirra til ársins 1912 þegar þau fluttu í veglegt hús að Hverfisgötu 21 sem Jón hafði látið reisa.
Síðar eignaðist Pálmi Pálsson, yfirkennari við Menntaskólann í Reykjavík húsið. Kona hans var Sigríður Björnsdóttir, þau áttu einn son, Pál Pálmason. Fjölskylda Pálma bjó í húsinu allt fram á níunda áratug 20. aldar. Húsið kemur við sögu í skrifum Stephans G. Stephanssonar skálds sem kom þangað í Íslandsheimsókn sinni 1917 meðan Pálmi bjó þar. Einnig segir Halldór Laxness frá því í endurminningabókum sínum að hann hafi verið kallaður á fund Pálma í þetta hús en yfirkennaranum leist ekki á sérviskulegt málfar nemandans.
Menntamálaráðuneytið festi kaup á húsinu árið 1987 til að nota það sem aðsetur fyrir Stofnun Sigurðar Nordals. Stofnunin var þar frá því hún hóf starfsemi 1. janúar 1988 en hún varð síðar hluti af sameinaðri Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum árið 2006. Á efri hæð er íbúð sem erlendir fræðimenn, er koma til Íslands til að sinna rannsóknum, geta fengið afnot af. Húsinu hefur verið viðhaldið eins og kostur er. Árið áður en stofnunin hóf starfsemi sína, 1987, unnu Hörður Ágústsson, listmálari og Leifur Blumenstein, byggingafræðingur álitsgerð um húsið. Í henni er fróðleg samantekt um byggingarsögulegt samhengi hússins, í hvaða ástandi það var á þeim tíma og drög að verkáætlun. Húsið er nú friðlýst.
Byggingarstíll
[breyta | breyta frumkóða]Húsið við Þingholtsstræti 29 er með timburklæðningu og dæmigerðu norsku tréskrauti. Það er klætt lóðréttri klæðningu á rishæð og porti en láréttri á jarðhæð. Húsið er eitt af þeim fyrstu sem flutt voru hingað tilhöggvin frá Noregi og er líklega svokallað norskt „katalóghús“. „Í einni heimild segir þó að Johan Klev frá Mandal hafi reist húsið. Sé það rétt er þetta dæmi um það að handverkshefðin hélt velli eftir að iðnvædd framleiðsla á katalóghúsum var tekin upp.“ (Birgit Abrecht. 2000, bls. 62)
Aðeins tvö hús í Reykjavík eru nú talin algerlega úr tilsniðnu, innfluttu efni en það eru húsið við Þingholtsstræti 29 sem er í sveitserstíl og Höfði í jugendstíl. „Bæði eru frá fyrirtækinu Strömmen í Noregi.“ (Birgit Abrecht. 2000, bls. 62).
Á horninu á Skálholtsstíg að ofanverðu (nr. 29) er svo íðilfagurt timburhús og tignarleg tré í garði þess. Það hýsir nú Stofnun Sigurðar Nordals. Þetta er norskt sveitserhús, pantað til landsins eftir katalóg og kom tilhöggvið til landsins. Á því er margs konar fínn útskurður og timburverk. Einhver elstu og tilkomumestu tré bæjarins eru í garðinum og njóta þau sín vel. Þar er álmur við gaflinn, hlynur bak við og við húshornið og ennfremur ilmreynir og silfurreynir.“ (Guðjón Friðriksson. 1995). |
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Af norskum rótum, gömul timburhús á Íslandi. 2003. Ritnefnd. Hjörleifur Stefánsson, Kjell H. Halvorsen og Magnús Skúlason. (Bls. 83, 138-139). Mál og menning, Reykjavík.
- Birgit Abrecht. architectural guide to iceland. 2000. (Bls. 62). Mál og menning, Reykjavík.
- Forsætisráðherrar Íslands. Ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar í 100 ár. 2004. Ólafur Teitur Guðnason ritstýrði. Jón Magnússon, eftir Sigurð Líndal (bls. 113-114). Bókaútgáfan Hólar, Akureyri.
- Guðjón Friðriksson. 1995. Indæla Reykjavík. 6 gönguleiðir um Þingholt og sunnanvert Skólavörðuholt. (Bls. 71-72). Iðunn, Reykjavík. ISBN 9979-1-0260-8.
- Gunnlaugar Haraldsson. 1997. Lögfræðingatal 1736-1992. (Bls. 177). Iðunn, Reykjavík.
- Halldór Kiljan Laxness. 1993, 2. útg. 2. prentun (1978, 1. útg.). Sjömeistarasagan. (Bls. 51-52). Vaka-Helgafell hf., Reykjavík.
- Hrafnhildur Schram. 2005. Huldukonur í íslenskri myndlist. (Bls. 74-79). Mál og menning, Reykjavík.
- Hörður Ágústsson, Leifur Blummenstein. 1987. Húsið að Þingholtsstræti 29. Álitsgerð. Ljósrit, óútgefið. Stofnun Sigurðar Nordals.
- Páll Eggert Ólason. 1950. Íslenskar æviskrár, III. bindi. (Bls. 224). Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.
- Páll Eggert Ólason. 1951. Íslenskar æviskrár, IV. bindi. (Bls. 150). Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.
- Stephan G. Stephanson. 1948. Bréf og ritgerðir, IV. bindi. Umhleypingar. (Bls. 99-100). Ríkisprentsmiðjan Gutenberg, Reykjavík.