Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Bereníke 2.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brjóstmynd af Bereníke 2.

Bereníke 2. (267 eða 266 f.Kr. – 221 f.Kr.) var drottning Egyptalands á tímum Ptólemajaríkisins. Hún var dóttir Magasar af Kýrenæku og Apömu 2.

Árið 249 f.Kr. giftist hún Demetríosi fagra sem tók við konungdómi af föður hennar, en hann gerðist ástmaður móður hennar svo hún lét myrða hann í svefnherbergi Apömu sama ár eða árið eftir. Þau áttu engin börn saman.

244 eða 243 f.Kr. giftist hún konungi Egyptalands, Ptólemajosi 3. Með honum átti hún sex börn; Arsinóe 3., Ptólemajos 4., Lýsimakkos (?), Alexander, Magas af Egyptalandi og Bereníku.

Sagt er að hún hafi tekið þátt í Nemeuleikunum milli 245 og 241 f.Kr. og líka Ólympíuleikunum.

Fljótlega eftir andlát eiginmanns hennar 221 f.Kr. var hún myrt að undirlagi sonar síns, Ptólemajosar 4. Dýrkun hennar var samt sem áður fyrirskipuð eftir lát hennar.

Eftir giftingu hennar og Ptólemajosar var borgin Evesperídes í Kýrenæku flutt til og nefnd Bereníke í höfuðið á henni. Nafnið varð síðan Benghazi.

Stjörnumerkið Bereníkuhaddur dregur nafn sitt af því að hún hét Afródítu hári sínu til að eiginmaður hennar kæmi heill heim úr herför til Sýrlands. Hún gaf hárið til hofs gyðjunnar í Zefýríon (nú Mersin). Þegar hárið hvarf síðar skýrði stjörnufræðingurinn Konón frá Samos það með því að hárið hefði verið numið til himna og sett meðal stjarnanna.