Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Cecil Rhodes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Cecil Rhodes
Forsætisráðherra Höfðanýlendunnar
Í embætti
17. júlí 1890 – 12. janúar 1896
ÞjóðhöfðingiViktoría
LandstjóriSir Henry Loch
Sir William Gordon Cameron
Sir Hercules Robinson
ForveriJohn Gordon Sprigg
EftirmaðurJohn Gordon Sprigg
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. júlí 1853
Bishop's Stortford, Hertfordshire, Englandi
Látinn26. mars 1902 (48 ára) Muizenberg, Höfðanýlendunni (nú Suður-Afríku)
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi flokkurinn
HáskóliOriel College, Oxford
StarfAthafnamaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Cecil John Rhodes (5. júlí 1853 – 26. mars 1902) var breskur stjórnmálamaður og athafnamaður. Hann var stofnandi Breska Suður-Afríkufélagsins og gegndi embætti forsætisráðherra bresku Höfðanýlendunnar í núverandi Suður-Afríku frá 1890 til 1896. Hann stofnaði jafnframt demantanámufélagið De Beers, sem enn starfar í dag. Rhodes var ötull hvatamaður breskrar heimsvaldastefnu og varð á ævi sinni sjálfur nokkurs konar táknmynd nýlendustefnu Evrópumanna.

Ýmsar nýlendur Breta í Afríku voru nefndar eftir Rhodes, meðal annars Norður-Ródesía (nú Sambía) og Suður-Ródesía (sem síðar varð sjálfstæða ríkið Ródesía og heitir nú Simbabve). Í seinni tíð hefur Rhodes mikið verið gagnrýndur sem boðberi kynþáttahyggju og herskárrar heimsvaldastefnu og aðgerðasinnar og mótmælendur hafa gjarnan krafist þess að minnisvarðar um hann séu fjarlægðir.[1]

Cecil Rhodes fæddist í sveitaþorpinu Bishop's Stortford í Hertfordshire á Englandi. Faðir hans, F. W. Rhodes, var prestur í sveitinni. Cecil var settur í almenningsskóla í sveitinni þegar hann var átta ára og lauk námi þar árið 1869. Faðir hans vonaðist til að senda Cecil til náms í Oxford-háskóla en vegna veikinda Cecils var honum ráðlagt að fara í langa sjóferð til að ná aftur heilsu sinni. Ákveðið var að senda Cecil til að búa með bróður sínum, Herbert, í bresku nýlendunni Natal í Suður-Afríku.[2]

Cecil Rhodes lagði af stað til Durban í júní árið 1870 og kom á áfangastað sautján dögum síðar. Bróðir hans vann við landbúnað í Natal en ákvað árið 1871 að freista gæfunnar og gerast námuverkamaður í demantanámunum sem þá höfðu nýlega fundist nálægt Kimberley. Bræðurnir fluttu því til bæjarins Colesberg í nýlendunni Vestur-Griqualandi til að stunda þar námugröft en áttu fyrst um sinn erfitt uppdráttar.[2] Heilsa Rhodes hafði batnað við veruna í Suður-Afríku og árið 1873 ákvað hann því að ferðast heim til Bretlands og ganga þar í Oriel-skólann í Oxford. Næstu árin ferðaðist Rhodes á milli Bretlands og Suður-Afríku og dvaldist í hálft ár í senn á hvorum staðnum. Í Bretlandi sinnti hann náminu en í Suður-Afríku fór hann að fjárfesta í demantanámum og kaupa þær upp. Hann hagnaðist brátt verulega á fjárfestingunum.[2]

Rhodes útskrifaðist úr Oriel-skólanum árið 1881. Hann varð snemma hugfanginn að mögulegri sameiningu evrópsku nýlendanna í sunnanverðri Afríku í eitt ríki og var mjög í mun að þetta ríki skyldi verða hluti af breska heimsveldinu. Rhodes vildi sjálfur koma þessu til leiðar og hafði þessar áætlanir hugfastar í auðsöfnun sinni á næstu árum. Hann stefndi að því að sameina öll námufélög á svæðinu í eitt til þess að það gæti haft alla námuframleiðsluna í höndum sér og þannig stýrt verði á demöntum á heimsmarkaðinum. Áætlanir Rhodes báru ávöxt árið 1888 þegar námufélagið De Beers var stofnað undir hans stjórn.[2]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]
Cecil Rhodes sem risinn á Ródos gnæfir yfir Afríku.

Árið 1880 sameinaðist Vestur-Griqualand Höfðanýlendunni. Rhodes var í kjölfarið kjörinn á þing Höfðanýlendunnar fyrir kjördæmið Vestur-Barkly. Eftir stríð Breta gegn innfæddum Basótum var Rhodes skipaður í nefnd til að ákvarða skaðabætur fyrir Basóta sem höfðu staðið með breskum stjórnvöldum í átökunum en liðið fjártjón af hernaðinum. Hann varð jafnframt hvatamaður að byggingu járnbrautar frá Kimberley suður á bóginn. Árið 1882 var Rhodes skipaður í nefnd til að ákvarða norðurmörk kjördæmisins Vestur-Griqualands, sem var umdeilt þar sem landamæri þess lágu að Búalýðveldinu Transvaal. Rhodes vildi auka verslun á svæðinu til að styrkja yfirráð bresku krúnunnar þar á kostnað Búa en tókst ekki að sannfæra bresk stjórnvöld um að stofna sérstakt ríkisstjóraumdæmi norðan við Vestur-Griqualand.[2]

Umskipti urðu hins vegar í stefnu breskra stjórnvalda stuttu síðar er Þjóðverjar köstuðu eign sinni á þýsku Suðvestur-Afríku. Til að sporna við auknum áhrifum Þjóðverja í álfunni og bandalagi þeirra við Búa veittu bresk stjórnvöld leyfi fyrir því að Bechuanaland (nú Botsvana) yrði lýst breskt verndarsvæði líkt og Rhodes vildi.[2] Rhodes var mjög í mun að tengja nýja breska verndarsvæðið við Höfðanýlenduna svo hægt yrði að koma á sameiningu þeirra. Hann reyndi að sannfæra Paul Kruger, forseta Transvaal-lýðveldisins, um ágæti þess að koma á auknum tengslum milli þessara ríkja og stakk meðal annars upp á byggingu járnbrautar frá Höfðaborg til Pretoríu til að auka viðskipti á milli þeirra. Kruger, sem treysti ekki Rhodes og óttaðist ágang Breta gagnvart Búalýðveldunum, féllst ekki á tillögurnar.[2] Árið 1886 fannst gull í Witwatersrand-fjallgarðinum og vegna flutninga fjölda gullgrafara til Búalýðveldanna í kjölfarið urðu stjórnvöld þar að endingu að láta undan þrýstingi Rhodes og Breta um að leyfa byggingu járnbrauta þangað frá bresku nágrannanýlendunum.[2]

Árið 1890 var Rhodes falið að mynda eigið ráðuneyti og hann varð forsætisráðherra Höfðanýlendunnar aðeins 37 ára gamall. Á stjórnartíð sinni jók hann breskt yfirráðasvæði í sunnanverðri Afríku um rúma 90.000 km² á kostnað innfæddra Afríkumanna.[3] Á stjórnartíð Rhodes heimilaði hann herforingjanum Leander Starr Jameson að gera árás á Transvaal-lýðveldið í von um að árásin myndi koma af stað uppreisn gegn stjórn Krugers í Pretoríu og að landið myndi gangast undir stjórn Breta. Árás Jamesons misheppnaðist og engin uppreisn var gerð gegn Kruger. Árásin, sem hafði ekki verið formlega heimiluð af breskum stjórnvöldum, þótti hin mesta hneisa og leiddi til þess að Rhodes neyddist til að segja af sér sem forsætisráðherra Höfðanýlendunnar.[4]

Árás Jamesons sannfærði Kruger enn frekar um að Búum stæði ógn af ágangi Breta og leiddi til þess að Búar tóku að vígbúast. Aukin spenna milli ríkjanna leiddi til seinna Búastríðsins á árunum 1899 til 1902 en Rhodes hafði engin bein afskipti af þeirri deilu.[4] Hann var staddur í Kimberley allan þann tíma sem Búar sátu um bæinn árin 1899 til 1900 og talið er að reynsla hans af umsátrinu hafi haft slæm áhrif á heilsu hans.[2] Rhodes lést árið 1902, aðeins 48 ára að aldri.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Paul Maylam, The Cult of Rhodes - Remembering an Imperialist in Africa (2005) bls. 6.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 2,8 Gísli Magnús Thompson (1. nóvember 1902). „Cecil John Rhodes“. Svava. bls. 222-238.
  3. „Napoleon Suðurafríku“. Sunnanfari. 1. júní 1902. bls. 41-43.
  4. 4,0 4,1 F. J. Bergmann (1. janúar 1903). „Cecil John Rhodes“. Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar. bls. 25-33.