Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Chur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Chur
Skjaldarmerki Chur
Staðsetning Chur
KantónaGraubünden
Flatarmál
 • Samtals28,09 km2
Hæð yfir sjávarmáli
593 m
Mannfjöldi
 (2013)
 • Samtals34.350
Vefsíðawww.chur.ch

Chur er höfuðborg svissnesku kantónunnar Graubünden og er jafnframt stærsta borgin í kantónunni með 34 þúsund íbúa (2013). Hún myndaðist við hernám Rómverja í landinu og er því einnig elsta borgin í Sviss.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Chur liggur við Rínarfljót norðarlega í kantónunni, rétt sunnan við smáríkið Liechtenstein. Næstu borgir eru St. Gallen til norðurs (60 km), Zürich til norðvesturs (80 km) og Luzern til vesturs (90 km). Chur liggur í dalverpi milli hárra fjalla. Rínarfljótið er enn lítið á þessum stað. Rúmlega helmingur bæjarsvæðisins var þakið skógi árið 1997. Frá Chur liggja akvegir víða um Alpafjöll, til dæmis til skíðasvæðanna austur til Arosa, Davos og St. Moritz.

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Chur er svartur geithafur innan í rauðu borgarhliði. Merki þetta hefur verið notað sem stimpilmynd frá 14. öld.

Borgin hét á latnesku Curia Raetorum. Curia er dregið af orðinu kora, sem merkir ættflokkur.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Chur í kringum aldamótin 1900
  • Chur myndaðist sem bær við hernám Rómverja í landinu 15 f.Kr. og er yfirleitt talin elsta borgin í Sviss.
  • Á 4. öld, þegar kristni varð ríkistrú í Rómaveldi, var biskupsstóllinn í Chur stofnaður, sá fyrsti norðan Alpa.
  • Á 6. öld tóku frankar borgina, en eftir Verdun-samninginn árið 843 varð hún hluti af þýska ríkinu.
  • 925/926 réðust Ungverjar á borgina og skemmdist hún verulega í bardögum.
  • 949 og 954 réðust márar á borgina en þeir höfðu lagt í skæruhernað frá Íberíuskaga.
  • Í gegnum miðaldirnar var Chur eins og borgardyr fyrir Alpaskörðin til Ítalíu en frá borginni mátti komast yfir ýmis skörð til ýmissa átta.
  • Á 13. öld fékk Chur borgarmúra til varnar óvinum.
  • 1523 urðu siðaskiptin í borginni. Borgarbúar höfðu fram að þessu verið undir stjórn biskupsins en ákváðu að taka nýju trúnni til að auka frelsi sitt.
  • Seinna á 16. öld verður þýskan nokkurs konar málamiðlunarmál í Chur en íbúar höfðu fram að þessu talað ýmist þýsku eða retórómönsku. Í dag er þýskan aðaltungumálið í borginni.
  • 1820 varð Chur að höfuðborg Graubünden, sem áður hafði verið innlimuð í helvetíska lýðveldið (Sviss) 1803.
  • Í dag er þjónusta aðalatvinnugeiri borgarinnar.