Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Emilio Salgari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Emilio Salgari árið 1903.

Emilio Salgari (21. ágúst 186225. apríl 1911) var ítalskur rithöfundur þekktur fyrir vinsælar ævintýrasögur frá framandi slóðum. Hann skrifaði um 80 skáldsögur, en með smásögum voru sögur hans um 200 talsins og skiptast í nokkrar sagnaraðir sem fjalla um sjóræningja, loftferðir og villta vestrið. Þær þekktustu eru sögurnar um „Malasíutígurinn“ Sandokan sem gerast á Borneó og svarta sjóræningjann (Il corsaro nero) sem gerast í Karíbahafi. Salgari, sem hafði hætt námi við sjómannaskóla í Feneyjum, ferðaðist aldrei út fyrir Adríahafið en byggði sögur sínar á kortabókum og alfræðiritum sem hann las á bókasöfnum.

Þótt sögur Salgaris næðu miklum vinsældum auðgaðist hann ekki á þeim sjálfur. Lengst af bjó hann við fátækt og safnaði skuldum. Vegna samninga við forlagið neyddist hann til að skrifa þrjár skáldsögur á ári, sem þýddi minnst þrjár blaðsíður á dag. Hann skrifaði því nær stöðugt og keðjureykti á meðan, sem kom niður á heilsu hans. Hann giftist leikkonunni Idu Peruzzi árið 1892 og átti með henni fjögur börn. Hún tók að veikjast af geðsjúkdómi 1903 sem íþyngdi efnahag fjölskyldunnar. Árið 1909 reyndi hann fyrst sjálfsmorð, en var bjargað af dóttur sinni. Árið 1911 tók hann svo eigið líf með rakhníf.

Bækur Salgaris náðu miklum vinsældum, einkum á Ítalíu, Spáni, Portúgal og í Suður-Ameríku. Meðal þeirra sem nefnt hafa Salgari sem áhrifavald eru Che Guevara, Sergio Leone, Federico Fellini, Umberto Eco, Gabriel Garcia Marquez, Jorge Luis Borges og Isabel Allende. Ýmis bókaforlög misnotuðu frægð hans og fengu aðra höfunda til að skrifa nýjar sögur inn í þau sögusvið sem Salgari hafði skapað og undir hans nafni. Þannig eru til yfir 50 bækur eignaðar Salgari en skrifaðar af öðrum. Yfir 50 kvikmyndir og sjónvarpsþættir hafa verið gerð eftir sögum hans í gegnum tíðina. Meðal þeirra þekktustu er sjónvarpsþáttaröðin Sandokan eftir Sergio Sollima frá 1976 með indverska leikaranum Kabir Bedi í titilhlutverkinu. Stórmyndin Cabiria frá 1914 byggir auk þess að stórum hluta á sögulegu skáldsögunni Cartagine in fiamme eftir Salgari.