Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Hamid Karzai

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hamid Karzai
Hamid Karzai árið 2012.
Forseti Afganistans
Í embætti
22. desember 2001 – 29. september 2014
VaraforsetiHedayat Amin Arsala
Mohammed Fahim
Nematullah Shahrani
Karim Khalili
Abdul Qadir
Ahmad Zia Massoud
Yunus Qanuni
ForveriBurhanuddin Rabbani
EftirmaðurAshraf Ghani
Persónulegar upplýsingar
Fæddur24. desember 1957 (1957-12-24) (67 ára)
Karz, Kandahar-héraði, Afganistan
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiZeenat Karzai (g. 1999)
Börn3
HáskóliHimachal Pradesh-háskóli
StarfStjórnmálamaður

Hamid Karzai (f. 24. desember 1957) er afganskur stjórnmálamaður sem var forseti Afganistans frá 22. desember 2001 til 29. september 2014. Hann var fyrsti lýðræðislega kjörni leiðtogi landsins og jafnframt fyrsti leiðtogi landsins sem lét friðsamlega af völdum. Hann var kjörinn forseti eftir að innrás Bandaríkjanna í Afganistan batt enda á stjórn talíbana í landinu.[1]

Karzai er fæddur á aðfangadag árið 1957 og ólst upp í Kandahar og Kabúl, þar sem faðir hans var forseti þingsins. Karzai er Pastúni og kominn af Popalzai-ættbálknum, sem er með áhrifamestu ættbálkum í suðurhluta Afganistans og með þeim sem nánastir voru afganska konungveldinu.[2]

Á níunda áratuginum dvaldi Karzai löngum stundum í Bandaríkjunum, þar sem fjölskylda hans rak keðju afganskra veitingastaða í borgum eins og Chicago, San Francisco, Boston og Baltimore. Á tíma stríðs Sovétmanna í Afganistan á níunda áratugnum vann Karzai jafnframt við að fjármagna og vopna andspyrnumenn úr ættbálki sínum. Eftir að sovéski herinn var hrakinn úr landi undir lok áratugarins varð Karzai aðstoðarutanríkisráðherra Afganistans frá 1992 til 1994.[2]

Karzai þekkti marga meðlimi talíbana í Kandahar frá því á árum stríðsins gegn Sovétríkjunum og studdi í byrjun viðleitni þeirra til að koma á friði í landinu. Hann sagði skilið við talíbana árið 1994 þegar honum þótti orðið ljóst að hreyfingin væri studd af pakistönskum og arabískum öfgamönnum. Frá árinu 1997 stýrði Karzai herferð gegn talíbönum ásamt föður sínum, Abdul Ahad Karzai, frá bækistöðvum feðganna í borginni Quetta í Pakistan. Faðir Karzai var myrtur af útsendurum talíbana í júlí 1999.[2]

Þegar talíbanar voru hraktir frá völdum árið 2001 eftir innrás Bandaríkjamanna var Karzai falið að stýra bráðabirgðastjórn. Hann var meðal annars valinn í starfið þar sem hann talaði ensku reiprennandi.[2] Karzai var síðan kjörinn forseti til heils fimm ára kjörtímabils í fyrstu forsetakosningum landsins árið 2004.[1] Karzai var endurkjörinn árið 2009 en andstæðingar hans í þeim kosningum vændu hann um kosningasvik.[3] Vegna gruns um kosningamisferli stóð til að önnur umferð forsetakosninganna yrði endurtekin með eftirliti embættismanna Sameinuðu þjóðanna. Þann 29. október 2009 réðust talíbanar á hótelið þar sem eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna dvöldu og drápu um helming þeirra. Í kjölfarið var hætt við endurtekningu seinni kosningaumferðarinnar og endurkjör Karzai í kosningunum staðfest. [4]

Á seinna kjörtímabili sínu varð Karzai í auknum mæli gagnrýninn gagnvart áframhaldandi veru erlendra hermanna í Afganistan.[4] Samkvæmt lögum var forseta Afganistans aðeins heimilt að sitja tvö fimm ára kjörtímabil og Karzai bauð sig því ekki aftur fram árið 2014.[5]

Eftir að talíbanar tóku yfir Afganistan á ný árið 2021 tók Karzai þátt í skipulagsnefnd til að ganga frá valdaskiptum til nýrrar stjórnar Talíbana.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Davíð Logi Sigurðsson (18. september 2005). „Brothætt staða í Afganistan“. mbl.is. Sótt 10. maí 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Guðlaugur Bergmundsson (8. desember 2001). „Jafnvígur á jakkafötin og vefjarhött“. Dagblaðið Vísir. bls. 12.
  3. „Karzai með forystu“. mbl.is. 26. ágúst 2009. Sótt 10. maí 2019.
  4. 4,0 4,1 Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (23. ágúst 2021). „Tali­banar voru komnir til Kabúl mánuðum áður en borgin féll“. Vísir. Sótt 24. ágúst 2021.
  5. „Karzai ætlar að hætta 2014“. RÚV. 11. janúar 2013. Sótt 10. maí 2019.
  6. Róbert Jóhannsson (16. ágúst 2021). „Fyrrverandi forseti tekur að sér valdaskiptin“. RÚV. Sótt 18. ágúst 2021.


Fyrirrennari:
Burhanuddin Rabbani
Forseti Afganistans
(20012014)
Eftirmaður:
Ashraf Ghani


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.