Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Hrafn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hrafnar)
Hrafn
Tveir ungir hrafnar á Ströndum á Íslandi
Tveir ungir hrafnar á Ströndum á Íslandi
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Spörfuglar (Passeriformes)
Ætt: Hröfnungar (Corvidae)
Ættkvísl: Corvus
Tegund:
C. corax

Tvínefni
Corvus corax
Linnaeus, 1758
Útbreiðsla hrafnsins með rauðu
Útbreiðsla hrafnsins með rauðu
Corvus corax

Hrafn (eða krummi) (fræðiheiti: Corvus corax) er stór svartur fugl af hröfnungaætt. Hann er með sveigðan gogg. Hrafnar verða um 60 - 75 cm langir með um tvöfalt stærra vænghaf. Hrafnar þrífast í fjölbreyttu umhverfi og eru algengir um allt norðurhvel jarðar. Flestir hrafnar kjósa að gera sér hreiður í skóglendi, fjöllum eða við strendur.

Hreiður hrafnsins nefnist „laupur“ á íslensku. Hann verpir á vorin 4 – 6 eggjum. Ungarnir koma úr eggjunum eftir u.þ.b. þrjár vikur. Utan varptíma safnast hrafnar í stórum hópum saman á ákveðnum stöðum og þeir eru oftast tveir og tveir saman á ferð. Á haustin má sjá þrjá eða fleiri hrafna saman og eru þar að öllum líkindum á ferðinni foreldrar með nýfleyga unga. Hrafnar eru ákaflega tryggir maka sínum og endist hjúskapur þeirra ævilangt.

Líkt og aðrir hröfnungar getur hrafninn hermt eftir hljóðum úr umhverfi sínu, þar með töldu mannamáli.

Hrafninn er stærsti spörfuglinn á Íslandi og er einn af einkennisfuglum íslenskrar náttúru. Hann er algengur um allt land. Hann er staðfugl á Íslandi og duglegur að bjarga sér þegar hart er í ári.

Leyfðar eru veiðar allt árið um kring á hrafninum á Íslandi og áætlað að yfir 3000 hrafnar séu drepnir árlega, Gríðarlega hefur dregið úr stofninum á landinu sökum þessa og er hann kominn á válista yfir fuglategundir í útrýmingarhættu á Íslandi[1].

Hrafninn í þjóðtrú og bókmenntum

[breyta | breyta frumkóða]

Margar þjóðsögur og frásagnir af hröfnum eru kunnar, svo ekki sé minnst á fjölda vísna, ljóða og söngtexta.

Hrafninn er fugl Hrafna-Flóka og landnáms Íslands. Hann er jafnframt fugl Óðins en Huginn og Muninn voru tákn visku og spádómsgáfu.

Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir.

Sagt er að þeir sem skilji hrafnamál séu gáfaðri en aðrir. Einnig að ef hrafn hoppi hingað og þangað uppi á húsum, skipti um hljóð og krunki upp í loftið, hristi vængina og yppti fiðrinu, boði það að einhver maður sé að drukkna.

Vel þekkt er að flug hrafna boði annaðhvort feigð eða fararheill, eftir því í hvaða átt þeir fljúga yfir mann.

Það þótti ekki gott að heyra krunkið í hröfnum um nætur við bóndabæi. Það var vegna þess að þá hélt fólk að það væru draugar. Þeir voru kallaðir nátthrafnar.

Krummi er sagður bæði stríðinn og hrekkjóttur. Hann er mikill spádómsfugl og hans er víða getið í hverskyns göldrum. Hrafnsgall og heili hrafnsins þykja t.d. nauðsynleg bætiefni í marga galdra, svo sem til að gera mann ósýnilegan.

Þekkt er sú sögn frá Tower of London að meðan hrafnar lifi þar muni enginn erlendur innrásarher ná að vinna England.

Hrafninn kemur oft fyrir í bókmenntum sem boðberi válegra tíðinda. Sem dæmi má nefna kvæðið Hrafninn eftir Edgar Allan Poe, leikritið Óþelló eftir William Shakespeare og Hobbitinn eftir J. R. R. Tolkien.

  1. „3.000 hrafnar veiddir á hverju ári á Íslandi“.