Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Indónesíuher

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Indónesískir hermenn.

Indónesíuher er her Indónesíu og skiptist í landher, flota og flugher. Tæplega 400.000 manns eru í hernum. Upphaflega var herinn stofnaður sem skæruliðaher í Sjálfstæðisstríði Indónesíu 5. október árið 1945. Sumir foringjar hins nýstofnaða hers höfðu fengið herþjálfun í Konunglega hollenska Austur-Indíahernum, þar á meðal Suharto og Nasution. Eftir að sjálfstæðisstríðinu lauk 1949 fékkst herinn aðallega við að berja niður aðskilnaðarhreyfingar víðs vegar í ríkinu. Malasíuátökin brutust út 1962 vegna andstöðu Indónesíu við stofnun Malasíu. Undir stjórn Suhartos tók herinn þátt í hinum blóðugu hreinsunum 1965-1966 þar sem áætlað er að hálf milljón manna hafi verið drepin. Suharto varð starfandi forseti 1967 um leið og fyrri forseti, Sukarno, var settur í stofufangelsi. Ný skipan Suhartos hófst þegar þingið gerði hann að forseta árið 1968. Í Nýju skipaninni fékk herinn aukið pólitískt hlutverk. Fram að þessu hafði Indónesíuher notið stuðnings frá Sovétríkjunum. Eftir fall Sukarnos varð landið hlutlaust í Kalda stríðinu en færðist samt nær Vesturblokkinni. Árið 1975 gerði Indónesíuher innrás í Portúgölsku Tímor. Næstu ár var Indónesíuher einkum notaður til að berjast gegn aðskilnaðarhreyfingum þar og í Aceh-héraði. Blóðbaðið í Santa Cruz þar sem hermenn skutu 250 mótmælendur til bana á Austur-Tímor skaðaði orðspor hersins á alþjóðavettvangi og varð til þess að Bandaríkin skáru á fjárframlög til þjálfunar hermanna Indónesíu. Endalok Kalda stríðsins og fall Suhartos 1998 leiddu til umbóta hjá hernum. Lögregla Indónesíu var skilin frá hernum árið 2000. Eftir flóðbylgjuna í Indlandshafi 2004 endurreistu Bandaríkin hernaðarleg tengsl við Indónesíu að fullu.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.