Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Júlíanska tímatalið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Júlíanska tímatalið (einnig kallað gamli stíll eða júlíska tímatalið) var kynnt til sögunnar af Júlíusi Caesar árið 46 f.Kr. og tekið í notkun 45 f.Kr. eða 709 ab urbe condita (frá stofnun borgarinnar). Með þessu tímatali var árið ákvarðað sem 365 dagar og fjórða hvert ár skyldi vera hlaupár þar sem einum degi væri bætt við.

Tímatalið var í notkun fram á 20. öld í mörgum löndum og er enn notað sem kirkjuárs dagatal af ýmsum kirkjudeildum Rétttrúnaðarkirkjunnar. Það var þó gallað að því leyti að of mörgum dögum var bætt við með hlaupárunum þannig að tímatalið skekktist með tímanum frá raunverulegum árstíðum um 11 mínútur á hverju ári. Sagt er að Caesar hafi vitað af þessu misræmi en ekki fundist það vera nógu merkilegt til að spá mikið í það.

Gregoríska tímatalið (einnig kallað nýi stíll) var kynnt til sögunnar á 16. öld til þess að lagfæra misræmið og var þá miðað við vorjafndægur. Hlaupárum var fækkað þannig að aldamótaár sem deilanleg eru með 400 teljast hlaupár, en önnur aldamótaár ekki. Þannig var 1900 ekki hlaupár, en 2000 var það. Bæði hefðu verið hlaupár í gamla stíl.

Gregoríska tímatalið var tekið upp á Íslandi árið 1700 ásamt flestum ríkjum mótmælenda í Evrópu. Var skekkjan þá orðin 11 dagar frá júlíanska tímatalinu, en hafði verið 10 dagar þegar tímatalið var fyrst tekið í notkun árið 1582 og voru þessir 11 dagar felldir niður úr árinu, þannig að 28. nóvember kom í stað 17. nóvember.

  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.