Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Jihad

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jihad (arabíska: جهاد‎‎ jihād [dʒɪˈhaːd]) er arabískt orð sem merkir bókstaflega „strit, erfiði“. Í samhengi íslams hefur orðið mörg blæbrigði, svo sem að leitast við að bæta eigin breyskleika, eða samfélagið í heild sinni. Í sjaríalögum á orðið við vopnaða baráttu gegn þeim sem ekki trúa á íslam en íslamskir fræðimenn telja það merkja „varnarhernaður“.

Orðið jihad kemur oft fyrir í kóraninum án hernaðarmerkingar, oft í orðatiltækinu „að erfiða á vegi Guðs“ (al-jihad fi sabil Allah). Lögfróðir menn á tíma íslömsku gullaldarinnar tengdu merkingu orðsins oft við hernað. Þeir bjuggu til flóknar reglur um jihad sem fólu í sér meðal annars bann gegn því að ráðast gegn þeim sem ekki börðust. Í dag hefur orðið glatað löglegri þýðingu sinni og er frekar notað í hugmyndafræðilegum skilningi. Þótt nústarfandi íslamskir fræðimenn hafi leitast við að leggja áherslu á þau blæbrigði orðsins sem ekki tengjast hernaði hafa herskáir íslamistar snúið út úr upprunalegu merkingu orðsins eins og hún var upprunalega sett fram í kóraninum.

Tegundir og saga jihads

Til eru tvær skilgreindar tegundir af jihadi: Hið stærra jihad (arabíska: jihad al-akbar) og hið smærra jihad (arabíska: jihad al-aksar). Með hinu stærra jihadi er átt við þá baráttu sem maður háir innra með sér hvern einasta dag til þess að standast freistingar djöfulsins. Þessi tegund jihads er talin erfiðari og mikilvægari en sú smærri. Hið smærra jihad snýr að ytri aðgerðum og er skilgreint sem barátta múslima gegn trúleysingjum.[1]

Hið smærra jihad er grundvöllur að ýmsum stríðsreglum sem múslimar eiga að fylgja ef þeim stafar ógn af völdum trúleysingja. Meðal annars tala reglurnar um að gefa verði óvininum tækifæri til að snúast til íslams, ekki megi drepa konur og börn óvinarins og að ýmsum boðum og bönnum verði að fylgja í meðferð stríðsfanga. Jafnframt tekur kóraninn fram að stríðsmenn sem láta lífið undir formerkjum jihads fái umsvifalaust greiðan aðgang að himnaríki og þurfi ekki að bíða fram að heimsendi líkt og aðrir.[1]

Umdeilt er meðal íslamskra fræðimanna hvort beita má hinu smærra jihadi í sókn gegn trúleysingjum eða hvort eingöngu má vísa til þess í sjálfsvörn gegn innrásarmönnum. Vers kóransins stangast hvert á við annað hvað þetta varðar og því hafa fjölmargar mismunandi túlkanir á beitingu jihads verið lagðar fram í gegnum aldirnar. Frá 19. öld lýstu ýmsir múslimar oft yfir jihadi til þess að hvetja til andspyrnu gegn nýlenduyfirráðum vesturlanda.[1]

Síðasta skiptið sem löggildur kalífi lýsti yfir jihadi var árið 1914 þegar Mehmed 5. Tyrkjasoldán lýsti yfir heilögu stríði gegn bandamönnum í fyrri heimsstyrjöldinni.[2] Þessi yfirlýsing var pólitískt útspil sem Tyrkir vonuðust til að myndi fá múslima sem byggju innan landsvæðis bandamannaríkjanna til að rísa upp gegn nýlenduherrum sínum. Þetta rættist ekki og yfirlýsing soldánsins hafði engin marktæk áhrif á stríðið. Fæstir múslimar tóku alvarlega þá hugmynd að þátttaka í stríði milli kristinna þjóða gæti talist heilagt stríð.

Tilvísanir

  1. 1,0 1,1 1,2 „Af hverju hata þeir okkur? Jihad í nútímasögu íslam og Mið-Austurlanda“. Vísindavefurinn.
  2. Lawrence Sondhaus, World War One: The Global Revolution, (Cambridge University Press, 2011), 91.
  Þessi trúarbragðagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.