Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Kurt von Schleicher

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kurt von Schleicher
Kanslari Þýskalands
Í embætti
3. desember 1932 – 28. janúar 1933
ForsetiPaul von Hindenburg
ForveriFranz von Papen
EftirmaðurAdolf Hitler
Persónulegar upplýsingar
Fæddur7. apríl 1882
Brandenburg an der Havel, Þýska keisaraveldinu
Látinn30. júní 1934 (52 ára) Babelsberg, Þýskalandi nasismans
DánarorsökMyrtur
MakiElisabeth von Schleicher
StarfHerforingi, stjórnmálamaður

Kurt Ferdinand Friedrich Hermann von Schleicher (7. apríl 1882 – 30. júní 1934)[1] var þýskur hershöfðingi og síðasti kanslari Þýskalands á árum Weimar-lýðveldisins. Schleicher var annar hermaðurinn sem varð kanslari Þýskalands, á eftir Leo von Caprivi.[2]

Kurt von Schleicher fæddist til prússneskrar hermannafjölskyldu í Brandenburg an der Havel. Faðir hans hafði barist í fransk-prússneska stríðinu árið 1870 og langafi hans hafði sömuleiðis verið hersveitarforingi sem féll í bardaga.[2] Schleicher gekk í lífvarðarhersveit þegar hann var sautján ára og eftir að hafa útskrifast úr herforingjaskóla var hann árið 1914 gerður að höfuðsmanni innan yfirstjórnar þýska hersins. Í fyrri heimsstyrjöldinni var Schleicher herstjórnarforingi við eina aðalherdeildina. Hann komst í kynni við stjórnmál á meðan á stríðinu stóð en fór að taka þátt í þeim fyrir alvöru eftir að því lauk.

Schleicher var einna fremstur meðal þýskra herforingja sem vildu komast í kringum takmarkanir sem Versalasamningurinn hafði sett á herafla Þjóðverja. Hann stóð meðal annars fyrir stofnun sjálfboðaliðahersveita til styrktar ríkisvaldinu árið 1919 og átti drjúgan þátt í því að kæfa niður byltingartilraunir íhaldsmanna og kommúnista árin 1920 og 1923.[2] Hann komst til áhrifa sem einn helsti ráðgjafi Pauls von Hindenburg forseta og tók árið 1930 þátt í því að steypa ríkisstjórn Hermanns Müller og gera Heinrich Brüning að kanslara.

Frá 1932 var Schleicher stríðsmálaráðherra í ríkisstjórn Franz von Papen og tók við af Papen sem kanslari þann 3. desember. Í útvarpsræðu sagði Schleicher að helsta markmið ríkisstjórnar sinnar væri að vinna bug á atvinnuleysi og sagðist „ekki koma með sverðið heldur með friðinn“.[3] Á stuttri kanslaratíð sinni reyndi Schleicher að semja við Gregor Strasser um útgöngu Strassers úr Nasistaflokknum í skiptum fyrir að Strasser yrði stjórnarforseti ríkisstjórnar Schleichers í Prússlandi en tókst ekki að fá sínu framgengt.[3] Schleicher hafði lengi verið fylgjandi því að fá nasista til samstarfs við aðra þjóðernissinnaða íhaldsflokka og gefa þeim hlutdeild í stjórn landsins.[3] Schleicher stakk upp á því við Hindenburg að Hindenburg leysti upp ríkisþingið og tæki sér einræðisvald en Hindenburg neitaði. Schleicher sagði af sér þann 28. janúar vegna stjórnarkreppu og hrakandi heilsu og mælti með því að Adolf Hitler yrði útnefndur í embættið í hans stað.

Sautján mánuðum eftir að Hitler komst til valda hratt hann af stað hrinu pólitískra morða á hinni svokölluðu nótt hinna löngu hnífa. Schleicher, sem enn var álitinn pólitískur áhrifamaður, var einn hinna myrtu. Vopnaðir menn á snærum nasista réðust inn á heimili hans þann 30. júní 1934 og skutu hann til bana ásamt konu hans, Elisabeth.[4][5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Kurt von Schleicher 1882-1934“. LeMO. Sótt 3. júní 2018.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Kurt von Schleicher ríkiskanslari“. Morgunblaðið. 22. janúar 1933. Sótt 26. september 2018.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Þýskaland um áramótin“. Morgunblaðið. 11. janúar 1933. Sótt 26. september 2018.
  4. „Hvers vegna var von Schleicher drepinn?“. Alþýðublaðið. 24. ágúst 1934. Sótt 3. júní 2018.
  5. „Morðið á Schleicher“. Stormur. 28. júlí 1934. Sótt 26. september 2018.


Fyrirrennari:
Franz von Papen
Kanslari Þýskalands
(3. desember 193228. janúar 1933)
Eftirmaður:
Adolf Hitler