Leikhús fáránleikans
Leikhús fáránleikans eða absúrdleikhúsið er heiti á framúrstefnu í leiklist sem gengur út á að sýna fáránleika mannlegrar tilveru, án tilgangs og merkingar, og hvernig raunveruleg samskipti eru ómöguleg við þær aðstæður. Stefnan tengist tilteknum leikritahöfundum sem störfuðu í París á 6. og 7. áratug 20. aldar; höfundum á borð við Jean Genet, Samuel Beckett, Eugène Ionesco, Arthur Adamov og Fernando Arrabal. Gagnrýnandinn Martin Esslin notaði hugtakið fyrst yfir verk þessara höfunda í samnefndri ritgerð árið 1961 með vísun í notkun fáránleikahugtaksins hjá Albert Camus.
Einkenni á leikhúsi fáránleikans eru persónur sem eru fastar í aðstæðum sem þær ráða ekki við og skilja ekki sjálfar, endurtekningar sem virðast tilgangslausar, samræður sem einkennast af misskilningi, þar sem persónur tala í kross og notast við merkingarlitlar klisjur. Meðal þekktustu verka leikhúss fáránleikans eru Beðið eftir Godot eftir Beckett, Svalirnar eftir Genet og Sköllótta söngkonan eftir Ionesco.