Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Majaveldið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Majaveldið var mesóamerísk siðmenning sem átti uppruna sinn í Mið-Ameríku, þar sem nú er Mexíkó, Gvatemala, Belís, vesturhluta Hondúras og El Salvador. Majar voru þekktir fyrir ritmál sitt, list, byggingarlist og uppgötvanir í stærðfræði og stjörnufræði.

Majaveldið í Mið-Ameríku.

Saga Majaveldis hefur verið skipt í þrjú tímabil; forklassíska, klassíska og síðklassíska. Forklassíska tímabilið stóð yfir frá árinu 2000 f.Kr. til 250 e.Kr. Á þessu tímabili komst siðmenning Maja á fót. Klassíska tímabilið stóð yfir frá árinu 250 til ársins 900. Majaveldið var í mestum blóma á þeim tíma. Árið 1000 hófst hnignun veldisins og stöðnun en ástæður þess eru okkur enn ókunnar. Þrátt fyrir mikla hnignun og fólksfækkun í stórum borgum, voru Majar enn uppi á síðklassíska tímabilinu sem stóð yfir frá árinu 950 til 1539. Að lokum var hver borgin á eftir annari yfirgefin og veldi Maja, sem náði yfir 1000 ára tímabil, leið undir lok.

Samfélag Maja var byggt á akuryrkju. Maísræktun var undirstaðan en Majar ræktuðu þó einnig fjölda nytjajurta, s.s. afbrigði af chilipipar og baunum, sætar kartöflur, tómata, lárperur, grasker, kakó, vanillu, tóbak, baðmull og hamp. Verslun í Majaveldi var umfangsmikil og vörur eins og eðalsteinar, málmar, sjaldgæfar fjaðrir og fleira bárust langt að. Vöruskipti voru stunduð meðal Maja en þeir notuðu gjarnan kakóbaunir sem gjaldmiðil.

Trúarbrögð

[breyta | breyta frumkóða]

Trúarbrögð Maja einkenndust af frjósemisdýrkun. Kornið, regnið, vindurinn, himininn, sólin, tunglið, fæðing og dauði voru öll tengd trúnni og trúarathafnir virðast hafa náð til allra skapaðra hluta, en Majar stunduðu m.a. mannfórnir. Víða hvar í Mið-Ameríku höfðu þjóðir tekið upp heimsmynd Maja. Himnaríki þeirra voru 13 talsins og helheimar 9. Þeir töldu heiminn hvíla á baki krókódíls en fjögur goðmögn báru hin 13 himnaríki uppi í fjórum höfuðáttum. Hvern heim töldu Majar vara í 5126 ár og heimur þeirra hafði mátt þola 4 heimsendi, en Majar þess tíma lifðu sína fimmtu endursköpun.

Letur Majanna

Erfitt hefur reynst að ráða úr letri Maja. Letur þeirra mátti finna á veggjum bygginga, á minnismerkjum og á bókum og bókarslitrum. Fyrsta rannsókn á letri Maja hófst árið 1566 af Fransiskusbiskupnum Diego de Landa (1524-1579) sem gerði ráð fyrir því að letur þeirra væri einfalt hljóðletur. Rússneski málfræðingurinn Yuri Knorosov (1922-1999) komst að þeirri niðurstöðu að letur Majanna var hvorki hreint tákn né hljóðletur, heldur blanda af hvoru tveggja. Hann uppgötvaði að letrið byggðist á atkvæðum en ekki einstökum stöfum í venjulegu stafrófi. Flestir textar Majanna eru sögulegir, segja frá fæðingu, valdatöku og stóratburðum í lífi einstakra konunga og frá stríði við borgríki í nágrenninu. Að auki eru allir leturfletirnir með dagsetningu sem gerir fræðimönnum kleift að setja atburði í sögulegt samhengi. Í dag er búið að ráða úr um 90% leturflötum Majanna.

Chichen Itza

Borgríki Majanna voru vel skipulögð. Byggingar þeirra voru allar byggðar úr steini. Við miðju borgarinnar voru trúarmiðstöðvar, gjarnan píramídar með hofum á toppi, stór torg með minningarsúlum og hallir ráðastéttarinnar. Fjær miðju voru aðrar steinbyggingar, stjörnuskoðunarturnar, boltaleikvangar og híbýli annarra stétta. Fjærst miðju voru bústaðir alþýðunnar, sem byggðir voru úr viði og hálmi. Píramídarnir voru flestir gegnheilir en þó voru nokkrir píramídar grafhýsi. Byggingar Maja hvíldu allar á sterkum steingrunni og þökin gerðu þeir með því leggja steina sífellt innar með vaxandi hæð. Innandyra voru byggingarnar gjarnan skreyttar með lágmyndum og marglituðum freskum.

Heimildaskrá

[breyta | breyta frumkóða]
  • Sigurður Hjartarson. (2011, 3. maí). Hverjir voru Mayar og hvar bjuggu þeir? Vísindavefurinn. Sótt 24. apríl 2018 af: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=56330
  • Sigurður Hjartarson. (2011, 19. maí). Hvernig var samfélag Mayanna, við hvað unnu þeir og hver var heimsmynd þeirra? Vísindavefurinn. Sótt 24. apríl 2018 af: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=59711
  • Sigurður Hjartarson. (2011, 16. maí). Hvers konar letur notuðu Mayarnir og um hvað fjalla varðveittir textar þeirra? Vísindavefurinn. Sótt 24. apríl 2018 af: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=59709
  • Sigurður Hjartarson. (2011, 18. maí). Hvers konar borgir og byggingar byggðu Mayarnir og voru þær skreyttar á einhvern hátt? Vísindavefurinn. Sótt 24. apríl 2018 af: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=59616