Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Oddgeir Kristjánsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Oddgeir Kristjánsson (fæddur í Vestmannaeyjum þann 16. nóvember 1911, látinn 1966) var íslenskur tónlistarmaður og lagahöfundur.

Á barnsaldri hneigðist hugur Oddgeirs til tónlistar og á þrettánda ári var hann farinn að leika á trompet í lúðrasveit í Eyjum. Fyrir hvatningu góðra manna fór Oddgeir til Reykjavíkur í fiðlunám til Þórarins Guðmundssonar. Það stóð þó aðeins í einn vetur því heimskreppan skall á og lokaði leiðum. Veturinn 1944-45 var hann við tónfræðinám hjá Róbert A. Ottóssyni.

Oddgeir samdi þegar á unga aldri lög sem hafa verið vinsæl með þjóðinni, en mörg laga hans voru fyrst kynnt á Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Oddgeir fékk til liðs við sig snjalla textahöfunda, vini sína Árna úr Eyjum og Ása í Bæ auk Lofts Guðmundssonar, en einnig samdi Oddgeir lög við ljóð annrarra skálda.

Dæmi um lög eftir Oddgeir eru Vor við sæinn, Gamla gatan, Ég veit þú kemur, Ágústnótt, Ship ohoj og Sólbrúnir vangar

Um áratuga skeið var Oddgeir drifkraftur í tónlistarlífi Vestmannaeyinga. Hann var einn af forgöngumönnum um stofnun Lúðrasveitar Vestmannaeyinga og stjórnandi hennar til dauðadags. Síðustu tíu ár ævinnar var hann tónmenntakennari í Barnaskóla Vestmannaeyja.

Oddgeir og kona hans Svava Guðjónsdóttir eignuðust þrjú börn: Hrefnu, Kristján, en hann lést á níunda ári, - og Hildi. Oddgeir var aðeins 54 ára þegar hann lést.