Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Old Trafford

Hnit: 53°27′7″N 2°17′29″V / 53.45194°N 2.29139°V / 53.45194; -2.29139
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

53°27′7″N 2°17′29″V / 53.45194°N 2.29139°V / 53.45194; -2.29139


Old Trafford
Leikhús Draumanna

Staðsetning Manchester, England
Byggður1909
Opnaður 19. febrúar 1910
Eigandi Manchester United
YfirborðGras
Byggingakostnaður£90m GBP
ArkitektArchibald Leitch
Notendur
Manchester United (1910-nú)
Hámarksfjöldi
Sæti74.300
Stæði0

Old Trafford er knattspyrnuvöllur í bænum Stretford í Manchester, Englandi og heimavöllur Manchester United. Völlurinn rúmar rúmlega 74 þús manns í sæti og er því næststærsti knattspyrnuvöllur Englands (á eftir Wembley í London) hvað sætafjölda varðar.

Saga Old Trafford

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingarár

[breyta | breyta frumkóða]

Það var John Davies, sem nýorðinn var forseti knattspyrnufélagsins Manchester United, sem ákvað upp á sitt einsdæmi að láta reisa nýjan völl fyrir félagið. Áður hafði félagið haft North Road og Bank Street til afnota, en báðir vellirnir voru slitnir og lélegir. 1909 lagði Davies til peninga í sjóð og leitaði sjálfur að heppilegum stað. Í lokin sættist hann á lóð við Bridgewater-skipaskurðinn í hverfinu Old Trafford. Vandamálið var að þar áttu járnbrautarlínur að rísa, ásamt lestarstöð. Samið var um málið, en á endanum reis nýi völlurinn á reitnum, en lestarstöðin, Trafford Park, reis aðeins lengra frá. Framkvæmdir hófust strax og lauk áður en árið var á enda. Völlurinn átti að rúma 100 þús manns. Stúka fyrir sæti á einni hlið, en standpallar á hinar þrjár hliðar. Nýi völlurinn hlaut heitið Old Trafford eftir hverfinu. Hann varð þegar í stað heimavöllur Manchester United og hefur verið það síðan, að undanskildum 8 árum þegar völlurinn skemmdist í loftárásum Þjóðverja.

Frá upphafi til stríðs

[breyta | breyta frumkóða]

Jómfrúarleikur vallarins fór fram 19. febrúar 1910, en þá áttust heimamenn við Liverpool. Gestirnir unnu 4-3. 1911 fór fyrsti bikarúrslitaleikur fram á Old Trafford og áttu þeir eftir að verða fleiri þar til Wembley-leikvangurinn í London var tekinn í notkun 1923. 27. desember 1920 settu áhorfendur vallarmet fyrir leik Manchester United er 70.504 keyptu sig inn á leik heimamanna gegn Aston Villa. United tapaði leiknum 3-1. Fyrsti landsleikur vallarins var leikinn 17. apríl 1926, en þá tók enska landsliðið á móti því skoska fyrir framan 49 þús áhorfendur. Skotar unnu leikinn 1-0. 25. mars 1939 var vallarmet sett er 76.962 áhorfendur komu á völlinn til að sjá Wolves og Grimsby leika í undanúrslitum bikarkeppninnar. Met þetta stendur enn. Old Trafford fékk nýtt þak yfir eina hlið 1936 og annað 1938. Þegar heimstyrjöldin síðari hófst 1939 krafðist herinn þess að fá að nota leikvanginn fyrir hergagnageymslu. Þrátt fyrir það héldu leikir áfram á vellinum allt til jóla 1940. 22. desember varð Manchester fyrir miklum loftárásum þýskra flugvéla og við það skemmdist Old Trafford nokkuð. Eftir bráðabirgðaviðgerð gátu kappleikir haldið áfram 8. mars 1941, en aðeins þremur dögum síðar varð leikvangurinn aftur fyrir loftárasum. Að þessu sinni stórskemmdist völlurinn og þurfti yfirstjórn félagsins að flytja í nýtt húsnæði. Viðgerðir hófust ekki fyrr en eftir stríð, ekki síst sökum peningaleysis. Á tímabilinu 1941-49 lék Manchester United því heimaleiki sína á Maine Road, heimavöll Manchester City, gegn árlegu leigugjaldi.

Nútíma leikvangur

[breyta | breyta frumkóða]
Stúkuplanið á Old Trafford
Austurhliðin að utan

1949 var Old Trafford í leikfæru ástandi á ný, en var þaklaust. Fyrsti leikurinn fór fram 24. ágúst að viðstöddum 41 þús gestum, sem sáu heimalið sitt leggja Bolton Wanderers 3-0 að velli. Þak var ekki reist á völlinn fyrr en 1951 og þá aðeins á eina hlið. Hinar þrjár hliðar fengu þak skömmu síðar. Verkinu lauk 1959. Við það tækifæri voru flóðljós í fyrsta sinn sett upp. Þetta gerði Manchester United kleyft að leika Evrópuleiki á miðri viku, eftir að dimmdi, í stað að notast við helgarnar þegar deildarleikir voru á dagskrá. 1965 var norðurhliðin algjörlega endurbyggð. Hún fékk nýtt þak og sæti fyrir 20 þús manns. Þá voru einkaklefar einnig settir upp, þeir fyrstu í enskum leikvangi. Austurhliðin fékk sömu andlitslyftingu 1973. Auk þess var raftöflu bætt við, en fram að þessu hafði skortaflan verið handvirk. 1971 hófst vandamál fótboltabullanna fyrir alvöru er áhorfandi henti hnífi inn á völlinn. Í kjölfarið var varnargrindverk reist í kringum stúkurnar, þær fyrstu á enskum velli. 1973 var völlurinn stækkaður og komið fyrir svítum og veitingasal fyrir heldri gesti. Einnig voru skrifstofur félagsins fluttar úr suðausturhorninu í austurstúkuna. Við hverja breytingu minnkaði sætafjöldinn, enda hurfu sætaraðir fyrir svítur, veitingahús og annað. Fjöldinn minnkaði úr 80 þús niður í 60 þús, og aftur niður í 44 þús. Við byggingu á nýrri stúku 1992 jókst sætafjöldinn aftur í 55 þús og árið 2000 var enn nýrri stúku bætt við, þannig að sætafjöldinn fór í 58 þús. Þannig varð Old Trafford orðin að einum stærsta leikvangi Englands. 2003 var leikvangurinn í fyrsta sinn notaður fyrir úrslitaleik í Meistaradeildinni. Það ár kepptu AC Milan og Juventus, sem hinir fyrrnefndu unnu í vítaspyrnukeppni. Þegar gamli Wembley-leikvangurinn var rifinn 2001, lék enska landsliðið 27 heimaleiki á ýmsum stöðum í Englandi frá 2001-2007 þar til nýi Wembley-leikvangurinn var opnaður. Tólf þeirra fóru fram á Old Trafford. Síðasti landsleikurinn þar fór fram 7. febrúar 2007, en þá töpuðu Englendingar fyrir Spán 1-0 fyrir framan 58 þús áhorfendur (fullt hús). Síðasta stækkun vallarins fór fram 2005-2006, en þá var tveimur hornstúkum bætt við. Við það fór sætafjöldinn upp í 76 þús. 31. mars 2007 var aðsóknarmet vallarins slegið (eftir stríð) er 76.098 manns horfðu á United sigra Blackburn Rovers 4-1. Aðeins 114 sæti voru auð. 2009 voru nokkrar sætaraðir endurskipulagðar, þannig að sætunum fækkaði niður í 75.957, sem þau eru enn í dag. Vallarmet verður því ekki slegið fyrr en að sætum fjölgar á ný. Old Trafford kom við sögu á Ólympíuleikunum 2012, sem að mestu voru haldnir í London, en þar fóru fram nokkrir landsleikir í knattspyrnukeppninni, þ.e. fimm leiki í riðlakeppni, leik í fjórðungsúrslitum og leik í undanúrslitum í karlakeppni. Í kvennakeppni fóru fram einn leikur í riðlakeppni og einn leikur í undanúrslitunum. Þetta voru fyrstu kvenlandsleikirnir sem fram fóru á Old Trafford.

Aldarafmæli

[breyta | breyta frumkóða]

19. febrúar 2010 hélt Manchester United uppá aldarafmæli leikvangsins Old Trafford. Í því tilefni setti heimasíða félagsins upp 100 ógleymanleg atvik á leikvanginum á netið, 1 atvik fyrir hvern dag í 100 daga fram að afmælinu. Í lokin voru 10 bestu atvikin valin af nefnd. Ný sýning um Old Trafford var opnuð í galleríi leikvangsins. Þar var einnig sett upp módel af leikvanginum í stærðinni 1:220. Í afmælisleiknum á móti Fulham, sem var deildarleikur, fengu áhorfendur prógram eins og það leit út við fyrsta leikinn á Old Trafford 100 árum áður. Í hálfleik komu fram ættingjar þeirra sem léku fyrsta leikinn. Einnig var tímahylki jarðað með sögulegum minningum.

Alex Ferguson stúkan

[breyta | breyta frumkóða]
Alex Ferguson stúkan er stærsta stúkan á Old Trafford

Á Old Trafford eru fjórar aðalstúkur. Sú sem er í norðri var nefnd Alex Ferguson stúkan 2011 til heiðurs hinum fræga þjálfara Manchester United til margra ára. Hann hafði þá verið þjálfari liðsins í 25 ár, lengur en nokkur annar þjálfari liðsins. Stúkan er þrílyft og tekur 26 þús manns í sæti. Hún er því stærsta stúkan á leikvanginum. Þar eru líka svítur og einkaklefar. Undir stúkunni er kaffitería og sögusafn. Safnið sjálft var sett á laggirnar 1986 í suðausturhorni leikvangsins og var þá fyrsta sinnar tegundar á knattspyrnuvelli. Það flutti í Alex Ferguson stúkuna 1998 og var það brasilíski snillingurinn Pelé sem opnaði hana við hátíðlegt tækifæri. Safnið er mjög vinsælt. 2009 sóttu 300 þús manns það heim. Hluti af safninu er sýningargluggi með bikurum og öðrum verðlaunagripum, og eru þeir ófáir. Á torginu fyrir utan stúkuna er stytta af Sir Alex sem sett var upp 2012.

Suðurstúkan

[breyta | breyta frumkóða]
Munich Tunnel

Gegnt Alex Ferguson stúkunni er suðurstúkan. Hún var áður fyrr aðalstúka leikvangsins. Stúkan er bara einlyft, en þar eru samt sem áður aðsetur fjölmiðlamanna, ásamt stúdíóklefum. Þar er einnig MUTV með aðsetur, sjónvarpsstöð Manchester United. Stúkan hýsir fjölmargar svítur fyrir mikilvæga gesti. Neðst undir stúkunni er starfsfólk viðhalds með aðsetur. Þar í kjallaranum eru einnig göng til búningsklefa liðanna, bæði heimaliðs og gestaliðs. Það er einnig hægt að aka inn í þau að utan, s.s. með aðföng, mikilvæga gesti, o.fl. 2008 var nafn ganganna breytt í Munich Tunnel (Münchengöngin) til minningar um flugslysið í München 1958 þegar stór hluti liðs Manchester United lést.

Vesturstúkan

[breyta | breyta frumkóða]

Vesturstúkan heitir öðru nafni Stretford End. Þar hittast heitustu United áhangendur á leiki og þar lætur hæst í stuðningsmönnum. Stúkan er tvílyft og tekur 20 þús manns í sæti. Hún var ekki fullkláruð fyrr en 2000. Undir stúkunni er stytta af Denis Law, fyrrum leikmanni og snillingi liðsins.

Austurstúkan

[breyta | breyta frumkóða]
Heilaga þrenningin er stytta af George Best, Denis Law og Bobby Charlton

Austurstúkan kallast einnig Scoreboard End (Tímatöfluhornið), þar sem upphaflega tímataflan og skorið var staðsett. Stúkan tekur 12 þús manns í sæti. Þar er einnig aðstaða fyrir fatlaða og þar sitja aðallega áhangendur gestaliðsins, ásamt því að sitja í Alex Ferguson stúkunni. Bak við glervegg sem snýr að bílastæði eru aðalstöðvar Manchester United. Þar eru skrifstofur stjórnenda liðsins, útgáfublað Manchester United og ýmislegt fleira. Þar er einnig minjagripaverslun með vörur fyrir aðdáendur. Verslunin hefur mátt þola marga flutninga uns henni var fundinn staður undir austurstúkunni árið 2000. Á göngutorgi fyrir utan stúkuna er stytta af George Best, Denis Law og Bobby Charlton. Hún var sett upp 2008 og kallast Holy Trinity (Heilaga þrenningin).

Völlurinn sjálfur er 105x68 m að lengd og breidd, ásamt nokkrum aukametrum við endanna. Miðja vallarins er örlítið hærri en hliðarnar svo að rigningarvatn geti runnið undan. Fyrir neðan grasið eru 37 km af vatnsrörum til hitunar. Grasið er vökvað reglulega og slegið þrisvar í viku á sumrin, en aðeins einu sinni í viku á veturna.

Aðrir viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]

Á Old Trafford er ekki eingöngu spiluð knattspyrna. Þar hefur rúgbý verið leikið alveg síðan 1924, bæði deildarleikir og fjöldi landsleikja. Framtíðaráætlanir gera ráð fyrir að rúgbý verði áfram leikið þar. Áður fyrr var völlurinn einnig notaður fyrir hafnabolta og krikket. Auk íþrótta hafa tónleikar verið haldnir á Old Trafford. Frægir tónlistarmenn sem hafa troðið þar upp eru m.a. Bon Jovi, Genesis, Bruce Springsteen, Status Quo, Rod Stewart, Simply Red o.fl. Þar fyrir utan er leikvangurinn gjarnan notaður af einkaaðilum, s.s. fyrir brúðkaup, risaveislur og ráðstefnur.