Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Pergamonsafnið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Inngangur Pergamonsafnsins

Pergamonsafnið (Pergamonmuseum) er bæði stærst og yngst safnanna miklu á Museumsinsel (safnaeyjunni) í miðborg Berlínar. Það var gagngert reist til að hýsa tröllaukna fornmuni sem þýskir fornleifafræðingar sendu heim eftir ýmsa uppgrefti í vesturhluta Asíu. Pergamonsafnið er á heimsminjaskrá UNESCO.

Pergamon er heiti á fornri hafnarborg í Litlu-Asíu. Meðal þekktustu fornminja sem safnið átti að hýsa var hið tröllaukna Pergamonaltari. Við opnun safnsins árið 1930 skiptist það í þrjár álmur. Sú álma þar sem altarið var sett upp kallaðist Pergamonsafnið. En 1958 var byrjað að nota þetta heiti fyrir safnið í heild.

Saga safnsins

[breyta | breyta frumkóða]

Um aldamótin 1900 og á árunum þar á eftir barst til Berlínar mikið af fornmunum sem þýskir fornleifafræðingar fundu og grófu upp í Austurlöndum. Þessa fornmuni var erfitt að setja upp sökum stærðar. Árið 1905 lagði því þýski lista- og safnafræðingurinn Wilhelm von Bode til að reist yrði safn fyrir þessa fornmuni á safnaeyjunni í Berlín. Safnið var óvenjulega lengi í byggingu, eða frá 1910-1930. Tafir urðu sökum nóvemberbyltingarinnar 1918 og verðbólgunnar miklu í Weimar-lýðveldinu. Árið 1930 var safnið loks tekið í notkun, þótt það hafi ekki verið alveg tilbúið. Þegar loftárásir hófust í heimstyrjöldinni síðari voru margir safngripir fluttir á öruggari staði. Pergamonsafnið skemmdist talsvert í stríðinu. Auk þess tóku sovéskir hermenn talsvert af munum úr safninu og fluttu þá til Moskvu og Leningrad (Sankti Pétursborg í dag). Árið 1958 var safnið gert upp og skiluðu Sovétmenn þá mörgum af þeim safngripum sem þeir höfðu tekið. Þó eru enn margir munanna í Rússlandi eða eru týndir. 1999 var safnaeyjan með söfnunum sett á heimsminjaskrá UNESCO.

Þekktir safngripir

[breyta | breyta frumkóða]
Hið tröllaukna Pergamonaltari

Pergamonaltarið

[breyta | breyta frumkóða]

Pergamonaltarið er þekktasti safngripur Pergamonsafnsins og er nafngefandi fyrir safnið. Það er jafnframt einn allra stærsti safngripur Þýskalands. Altarið eru rúmir 35 metrar á breidd og 33 metra hátt. Það var þýski verkfræðingurinn Carl Humann sem fann altarið í rústum hinnu fornu borgar Pergamon seint á 19. öld. Það var flutt til Berlínar og sett saman úr þúsundum lítilla stykkja. Ekkert safn rúmaði hins vegar þennan tröllaukna grip og var þetta ein ástæðanna fyrir því að Pergamonsafnið var yfirhöfuð reist. Reyndar er hér ekki um eiginlegt altari að ræða, heldur um Pantheon, það er opið hof með guðastyttum frá 2. öld f.Kr.

Markaðshliðið í Míletos

[breyta | breyta frumkóða]
Markaðshliðið í Míletos

Míletos var forn grísk borg í Litlu-Asíu. Þýskir fornleifafræðingar fundu hliðið mikla í uppgreftri árið 1903 og fluttu það til Berlínar. Þar var það sett upp í Pergamonsafninu. Hliðið sjálft var reist á 2. öld f.Kr. Það er á tveimur hæðum og liggja þrjár leiðir í gegnum það. Það er 17 metra hátt og 29 metra breitt. Hins vegar skemmdist hliðið talsvert í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Sovétmenn sýndu því engan áhuga og því var það ekki flutt á brott. Árið 1954 var hliðið sett saman aftur eftir bestu getu en skemmdirnar eru augljósar. Hliðið er þó eftir sem áður hið glæsilegasta.

Istarhliðið

[breyta | breyta frumkóða]
Hluti af hinu uppsetta Istarhliði

Istarhliðið var eitt af tveimur meginhliðum gömlu borgarmúra Babýlons til forna og var reist snemma á 6. öld f.Kr. af Nebúkadnesar 2. konungi. Istar var himnagyðja Babýloníumanna. Hliðið var grafið upp af Þjóðverjanum Robert Koldeway árið 1899. Hliðið er 28 metrar breitt og 11 metra hátt. Það var skreytt með þúsundum af lituðum steinflísum. Þessar flísar voru fluttar til Berlínar, þar sem þær voru settar saman næstu árin. Þegar Pergamonsafnið var reist var jafnframt reist eftirmynd af Istarhliðinu þar og upprunalegu flísarnar festar á. Hliðið er stórglæsilegt á að líta. Borgarmúrar Babýlons ásamt hliðum þess voru eitt af sjö undrum veraldar (samkvæmt eldri listum).