Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Sigurður slembidjákn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurður slembidjákn (f. um 1100, d. 1139) var Norðmaður á 12. öld sem gerði tilkall til konungstignar og kvaðst vera sonur Magnúsar berfætts og því hálfbróðir konunganna Sigurðar Jórsalafara, Haraldar gilla og Ólafs Magnússonar.

Sigurður ólst upp hjá Aðalbrikt, presti einhvers staðar í Suður-Noregi, í þeirri trú að hann væri sonur hans, en móðir hans var Þóra Saxadóttir. Þegar hann fullorðnaðist sagði hún honum að hann væri í raun sonur Magnúsar konungs. Hann fór svo vestur um haf, til Skotlands og Orkneyja, kvæntist þar konu af auðugri ætt og gekk í þjónustu Skotakonungs. Einnig er sagt að hann hafi farið í pílagrímsferð til Rómar og Jerúsalem og fór svo í kaupferðir til ýmissa landa, þar á meðal Íslands.

Haustið 1136 kom Sigurður til Björgvinjar, gaf sig fram við Harald gilla og kvaðst vera bróðir hans. Haraldur svaraði með því að kæra Sigurð fyrir að hafa átt þátt í drápi vinar síns, Þorkels fóstra, og komst Sigurður undan við illan leik. Aðfaranótt 14. desember gerði hann svo Haraldi konungi aðför þar sem hann gisti hjá Þóru Guttormsdóttur frillu sinni og drap hann. Sigurður slembidjákn gerði svo tilkall til konungstignar en hann og menn hans voru þá dæmdir útlægir og hraktir frá Björgvin. Honum tókst þó að fá sig kjörinn til konungs á nokkrum fylkisþingum en annars staðar voru tveir barnungir synir Haraldar, Sigurður munnur og Ingi krypplingur, kjörnir konungar. Sigurður sótti þá Magnús blinda, sem verið hafði konungur 1130-1135 með Haraldi gilla, í klaustrið sem hann dvaldist í og er alls óvíst að það hafi verið að vilja Magnúsar. Sigurður krafðist nú konungstignar í nafni Magnúsar og stundaði um tíma skæruhernað og strandhögg við strendur Noregs.

Árið 1139 kom til orrustu við Hólminn grá. Þar féll Magnús konungur en Sigurður slembidjákn var píndur til bana eftir orrustuna.

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Sigurd Slembe“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. desember 2009.
  • „Heimskringla“.