Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Skíði (hvalir)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hvalskíðin eru ekki óáþekk hárgreiðu

Skíði nota skíðishvalir til að afla sér fæðu. Þessir hvalir hafa ekki tennur en í þess stað hreyfanlegar plötur sem eru fastar við efri kjálka dýranna og sú hlið skíðanna sem snýr inn að munnholi er alsett hárum. Skíðin eru úr keratíni á sama hátt og hár, horn, klaufar og neglur en ekki úr beini. Skíðin virka eins og sía þegar hvalirnir leita sér fæðu. Skíðishvalir eru eina tegund hryggjadýra sem nota svipaðar aðferðir við fæðuöflun (flamingóar og krabbaselir (Lobodon carcinophagus) nota svipaðar aðferðir en hafa ekki skíði). En skíðin hafa gert það mögulegt fyrir þessa hvali að verða afskaplega stór dýr. Stærsta dýr sem nokkur tíma hefur lifað, steypireyður, er skíðishvalur.

Mikill munur er á stærð skíðanna allt eftir hvalategund, allt frá 0,5 til 3,5 metra á lengd og geta verið allt að 90 kg á þyngd hver skíði. Þau eru breiðust þar sem þau eru fest við kjálkann. Fjöldi þeirra er misjafn en t.d. hefur hnúfubakurinn 330 pör af skíðum.

Þróun skíða

[breyta | breyta frumkóða]

Elstu steingervingar sem hafa fundist og sýna hvalaskíði eru einungis um 15 milljón ára gamlir. En skíðin, eins og aðrir líkamshlutar úr keratíni, steingerast mjög sjaldan og halda vísindamenn að skíðin hafi þróast mun fyrr. Það má sjá af þeim breytingum sem verða á höfuðkúpum þeirra hvala sem fundist hafa og eru miklu eldri. Algeng skoðun vísindamanna er að skíðin hafi þróast fyrir um það bil 30 miljónum ára og þá úr hvalategund með harða og nokkuð sléttan efri kjálka, svipaðan og en má sjá hjá þeirri hnísutegund sem nefnd er Dallshnísa (Phocoenoides dalli).

Svo er að sjá sem fyrstu skíðishvalirnir hafi einnig haft tennur en þær hafa sennilega verið lítið notaðar.

Skíðasían

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar skíðishvalir leita fæðu gleypa þeir gríðarlegt magn af sjó og geyma í munnholinu, loka síðan munninum og þrýsta sjónum út á milli skíðanna. Hárin á skíðunum verða eins og sía og halda eftir smádýrum úr sjónum. Þau sitja eftir í hárunum og hvalurinn gleypir þau síðan. Helsta fæða skíðishvala er ljósáta, ýmsar árfætlur (copepoda) og smáir fiskar, þar á meðal loðna, síld, síli og makríll.

Hvalskíði voru áður fyrr höfð til ýmissa nota, meðal annars voru þau notuð í lífstykki kvenna og eins regn- og sólhlífar. Plast hefur nú algjörlega leyst skíðin af hólmi þar sem þau komu áður til nota.

  • St. Aubin, D.J, R.H. Stinson and J.R. Geraci 1984. "Aspects of the structure and function of baleen, and some effects of exposure to petroleum hydrocarbons". Canadian Journal of Zoology 62: 193-198