Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Skaftafell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Loftmynd af tjaldsvæðinu í Skaftafelli.
Svartifoss í Skaftafelli

Skaftafell er verndað svæði í Öræfum á Suðausturlandi. Þar vex gróskumikill gróður milli sands og jökla. þjóðgarðurinn var stofnaður þann 15. september 1967 og var 4.807 km2 að stærð. Þjóðgarðurinn var stækkaður árið 1984 og aftur 2004. Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs 8. júní 2008 varð Skaftafell hluti hans. Skaftafell er fyrsta friðlýsta svæðið á Íslandi sem var friðað vegna náttúrufegurðar.

Áhugaverðir staðir innan svæðis Skaftafells eru t.d. Svartifoss, Kristínartindar, Skaftafellsjökull, Morsárdalur og Bæjarstaðarskógur.

Til forna var Skaftafell stórbýli og þingstaður, enda óvenju gott veður á þessum slóðum. Snemma varð staðurinn kirkjujörð og seinna konungsjörð. Áður fyrr stóðu bæjarhúsin á sléttlendinu fyrir neðan fellið og má enn sjá tóftir austan við Eystragil sem heita Gömlutún. Skeiðará hinsvegar gerðist ágeng og smám saman fóru tún undir sand. Milli 1830-1850 fluttist bústaðurinn um 100 metrum upp í brekkuna og þar voru reistir 3 bæir; Hæðir er nú í eign Vatnajökulsþjóðgarðs og þar er búið. Bölta var breytt í gistiheimili og var það rekið til ársins 2012, nú er unnið að því að fá húsið verndað. Sel fór í eyði árið 1946 en enn má skoða torfhúsin sem þar eru varðveitt.

Náttúruhamfarir

[breyta | breyta frumkóða]

Öræfajökull

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1362 gaus Öræfajökull sem er jafnframt hæsti jökull Íslands. Var þetta mesta vikurgos sem hefur orðið á Íslandi frá því sögur hófust og eyddi það allri byggð í Öræfasveit. Gosmökkurinn er talinn afa náð 30 km hæð og þeyttust upp alls 10 km3 af gjósku. Þessi vikur er ljós að lit og sést enn í dag frá þjóðveginum.

Eftir gosið fékk sveitin nafnið Öræfi en áður hét hún Litla-Hérað. Það hafði verið blómleg byggð í Litla-Héraði. Frá Morsárdal og að Breiðumörk eru taldir hafa verið að minnsta kosti 30 bæir. Gosið og jökulhlaupin sem komu í kjölfarið gjöreyddu byggð og olli vikurregnið einnig tjóni allt austur að Hornafirði.

Öræfajökull gaus aftur árið 1727 og urðu þá mikil jökulhlaup undan Falljökli, Kotárjökli, Virkisjökli og úr Sigárgljúfri. Enn má sjá ummerki eftir hlaupin enda liggur þjóðvegur 1 þar í gegn. Drápust þá kindur og hestar en einnig fórust 3 manneskjur, 2 stúlkur og einn unglingspiltur.

Skeiðarárhlaup

[breyta | breyta frumkóða]

Vegna gossins í Gjálp árið 1996 varð í kjölfar þess stórt og mikið jökulhlaup á Skeiðarársandi. Áætlað er að um 180 milljónir tonna af seti fluttist með hlaupinu og nam heildarrennslið allt að 50.000 m3/s. Hlaupið er í margra minnum enda olli það gríðarmiklu eignartjóni og eru til sýnis brúarbita sem skemmdust í hlaupinu við þjóðveg 1 rétt áður en beygt er inn að Skaftafelli.

Oft er gott veður í Skaftafelli og betra en í nágrenninu þar sem það er í skjóli Öræfajökuls. Þar er fjölbreytt gróðurfar og má þar nefna birkiskóg sem prýðir neðanverðar hlíðar Skaftafell og innan um hann vex sums staðar reyniviður. Botngróður er gróskumikill og má nefna bláberja- og krækiberjarunna. Í Bæjarstaðaskógi er birki hávaxnara en annars staðar á landinu og getur það náð 12 metra hæð. Margar af einkennisplöntum Austurlands finnast líka í Skaftafelli líkt og bláklukka, gullsteinbrjótur, og klettafrú. Eftir að svæðið var friðað hefur gróðurfar breyst mikið enda ekki lengur kindur á beit.

Það eru ýmsar fuglategundir í gróðurmiklum hlíðunum og má nefna skógarþröst, hrossagauk, þúfutittling og músarrindil. Einnig eru mikilvægustu varpstöðvar skúms við norðanvert Atlantshaf í Öræfum. Af dýrum finnast aðeins heimskautarefur, minkur og hagamús.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.