Stjórnborði og bakborði
Stjórnborði og bakborði eru sjómennskuhugtök sem vísa til hægri og vinstri hliðar skips eða báts séð frá skut að stefni. Stjórnborði er þannig alltaf hægri hlið skipsins og bakborði vinstri hlið. Nöfnin eru dregin af því að áður en afturstýri komu til sögunnar í Evrópu á miðöldum var notast við stýrisár sem var fest á hægri hlið skipsins.
Að nóttu til þekkist stjórnborði skips af grænu siglingaljósi og bakborði af rauðu ljósi. Í alþjóðlegum siglingareglum gildir „stjórnborðsréttur“ þ.a. það skip sem er á stjórnborða við hitt á réttinn og ber að halda sína leið, en það skip sem er á bakborða við hitt á að víkja. Í alþjóðlegu kappsiglingareglunum sem fjalla um siglingakeppnir á seglskútum er stjórnborðsrétturinn skilgreindur þannig að skúta sem beitir á stjórnborða á réttinn gagnvart skútu sem beitir á bakborða.