Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Strákasveitir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Strákasveit eru hljómsveit sem samanstendur af ungum karlkyns meðlimum. Algengast er að þessir meðlimir syngi eingöngu og fágætt þykir ef þeir spila á hljóðfæri þegar þeir koma fram. Strákasveitir eru oft stofnaðar af einstaklingum sem eru ekki meðlimir sveitanna, en þó eru til dæmi um annað.[1] Sem dæmi um slíkan einstakling hérlendis má nefna Einar Bárðarson en hann stofnaði hljómsveitina Lúxor. Hún samanstóð af fimm ungum körlum sem sömdu lögin sín ekki sjálfir og er því afar skýrt dæmi um dæmigerða strákasveit.[2]

Saga strákasveit a

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirbærið strákasveit kom fyrst fram á sjónarsviðið í formi rakarastofukvartetta seint á nítjándu öld. Þeir voru mjög vinsælir á fyrri hluta tuttugustu aldar.[3] Þróun strákasveitarinnar hélt svo áfram þegar vinsældir rakarstofukvartettanna fóru dvínandi, en þá með hljómsveitum sem spiluðu svokallaða „Doo-wop“-tónlist. Þessar hljómsveitir sungu oft um efni á borð við ástina og annað sem vinsælt var í dægurlögum. Sú hljómsveit sem oft er talin vera fyrsta strákasveitin (án þess þó að hafa verið kölluð það) er The Ink Spots, en hún flutti mjög grípandi lög í bland við æðisgengnar danshreyfingar.[4]

Stundum hefur verið talað um Bítlana í sömu andrá og strákasveitir. Þegar þeir voru upp á sitt besta var hugtakið strákasveit ekki til en þó eiga þeir margt sameiginlegt með þeim strákasveitum sem urðu vinsælar síðar meir. Til að mynda áttu þeir mjög stóran aðdáendahóp út um heim allan, sem samanstóð mestmegnis af ungum stúlkum sem tilbáðu þá. Ofan á það voru þeir svo kynntir sem poppstjörnur framan á tímaritum og í sjónvarpsþáttum.[5]

Áttundi áratugurinn: Fyrirbærið þróast

[breyta | breyta frumkóða]

Upp úr þessu spruttu svo sveitir á borð við The Osmonds, The Jackson 5 og The Monkees. Sú síðastnefna var í rauninni stofnuð til að leika hlutverk uppskáldaðrar hljómsveitar í samnefndum sjónvarpsþáttum en varð svo langlífari en þættirnir sjálfir.[6] The Jackson 5 er hljómsveit sem sett saman var af föður meðlima sveitarinnar en að strákasveit sé stofnuð af utanaðkomandi aðila er mjög algengt.[7]

Níundi áratugurinn: Hugtakið verður til

[breyta | breyta frumkóða]

Snemma á níunda áratugnum hóf Maurice Starr að safna saman einstaklingum í hljómsveit sem átti eftir að bera nafnið New Kids On The Block. Eftir áheyrnarprufur víðsvegar um Boston valdi hann einungis einn strák af um það bil fimm hundruð til að vera meðlimur í sveitinni. Þessi strákur var Donnie Wahlberg. Hann hjálpaði svo Starr við að finna hina meðlimi sveitarinnar en þar á meðal var yngri bróðir Donnie, Mark Wahlberg. Á fyrstu mánuðum sveitarinnar tók sveitin miklum stakkaskiptum og voru mannabreytingar miklar en slíkar breytingar eru mjög algengar í strákasveitum. Seint á níunda áratugnum náði hljómsveitin heimsvinsældum og er oft talin vera fyrsta strákasveitin, sem sett var saman með markaðinn í huga, sem náði slíkum hæðum.[8]

Tíundi áratugurinn: Gullaldarár strákasveita

[breyta | breyta frumkóða]

Á þessum tímapunkti var fyrirbærið strákasveit við það að springa út og á tíunda áratugnum voru fjölmargar slíkar sveitir stofnaðar. Hljómsveitir á borð við Boyz II men, Take That, ‘N Sync og Backstreet Boys voru líklega þær vinsælustu.

Take That var enn ein hljómsveitin sem stofnuð var af utanaðkomandi aðila. Það var hann Nigel Martin-Smith sem safnaði saman fimm einstaklingum árið 1989 sem mynduðu svo hljómsveitina. Meðlimir sveitarinnar spiluðu ekki á hljóðfæri, en hið óhefðbundna í fari Take That sem strákasveitar var að flest lögin voru að mestu leyti samin af einum meðlim sveitarinnar, honum Gary Barlow, en ekki af utanaðkomandi aðilum.[9]

Boyz II men var stofnuð árið 1988 af nokkrum nemendum í menntaskóla (e. high school). Enginn utanaðkomandi kom að stofnun sveitarinnar og áttu meðlimir hennar oft stóran þátt í því að semja sín eigin lög. Engu að síður var sveitin mjög vinsæl meðal unglinga, og þá sér í lagi stelpna, sem er eitt helsta einkenni strákasveita.[10]

Það var svo árið 1993 sem söluhæsta strákasveit allra tíma, Backstreet Boys, var stofnuð. Hljómsveitin var stofnuð af fjórum vinum, en það var ekki fyrr en Lou Pearlman kom til sögunnar að um fullmótaða hljómsveit var að ræða. Strákarnir sömdu einhvern hluta sinnar tónlistar sjálfir en hún var mestmegnis samin af öðrum tónskáldum sem meðlimir sveitarinnar fengu í lið með sér. Backstreet Boys hefur selt rúmlega 100 milljón plötur, sem gerir hljómsveitina þá söluhæstu í flokki strákasveita.[11]

Árið 1995 var hljómsveitin ‘N Sync stofnuð en það var einmitt áðurnefndur Lou Pearlman sem stóð fyrir stofnun hennar. Rétt eins og meðlimir margra annarra strákasveita spiluðu meðlimir ‘N Sync hvorki á nein hljóðfæri í sínum lögum né sömdu þeir sjálfir en voru þó mjög vinsælir meðal ungra stúlkna.[12] N’Sync hefur selt rúmlega 50 milljón eintök af sínum plötum og er því ein vinsælasta strákasveitin frá upphafi.[13]

Árin eftir aldamótin

[breyta | breyta frumkóða]

Upp úr aldamótunum 2000 fóru vinsældir strákasveita dvínandi en þó komu nokkrar ansi frambærilegar fram á sjónarsviðið, auk þess sem Backstreet Boys og ‘N Sync héldu áfram að gera það gott.[14] Líklega er hljómsveitin Jonas Brothers sú þekktasta sem kom fram á þessum tíma. Þeir urðu frægir í gegnum Disney-stöðina í Bandaríkjunum, og rétt eins og með The Jackson 5, þá hélt faðir þeirra að miklu leyti utan um hljómsveitina.[15] Hljómsveitin hefur selt rúmlega 17 milljón eintök af sínum plötum.[16]

Annar áratugur 21. aldar: Endurnýjun strákasveita

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar annar áratugur 21. aldarinnar gekk í garð fóru nýjar strákasveitir að láta á sér bera. Þar ber helst að nefna hljómsveitir á borð við One Direction og The Wanted. Margir vilja raunar líkja samkeppni þessara tveggja sveita við þá á milli ‘N Sync og Backstreet Boys á sínum tíma.[17]

One Direction var stofnuð af fimm drengjum sem allir tóku þátt í hæfileikakeppninni X-Factor í Bretland hver í sínu lagi. Enginn þeirra komst áfram, en gestadómari í keppninni, Nicole Scherzinger, stakk upp á því að þeir stofnuðu saman strákasveit. Það gerðu þeir og komust áfram sem slík hljómsveit. Þeir höfnuðu í þriðja sæti keppninnar og skrifuðu þá undir samning við plötufyrirtæki eins dómarans, Simons Cowell.[18] Meðlimir sveitarinnar semja einhvern hluta sinna laga sjálfir en sjá þó ekki alfarið um það.[19] Þar að auki spila nokkrir meðlimir sveitarinnar á hljóðfæri, sem er ekki mjög dæmigert fyrir strákasveit.[20]

Meðlimum hljómsveitarinnar The Wanted var safnað saman í áheyrnarprufum sem Jayne Collins hélt. Þeir semja sína eigin tónlist að hluta til[21] og spila allir á hljóðfæri.[22] Nokkurs konar rígur hefur myndast á milli The Wanted og One Direction, enda á fyrrnefnda hljómsveitin það til að skjóta á hina; segja að meðlimir sveitarinnar hafi komist svo langt þökk sé útliti þeirra frekar en hæfileikum.[23]

Hin hefðbundna uppbygging strákasveita

[breyta | breyta frumkóða]

Oft er talað um ákveðna formúlu á bak við uppbyggingu strákasveita. Meðlimir sveitanna eiga oft erfitt með að vera teknir alvarlega af tónlistargagnrýnendum, eru oftast fjórir til fimm, mjög myndarlegir, kunna ekki á hljóðfæri og eiga það til að æra unglingsstelpur með kynþokkanum. En þar með er ekki öll sagan sögð, því strákasveitir samanstanda yfirleitt af fimm erkitýpum, sem má til að mynda finna í hljómsveitinni New Kids on the Block. Þessar fimm týpur eru eftirfarandi:

  • Uppreisnarseggurinn: Hann er alltaf smá ógnandi og brosir sjaldan á myndum. Hann er oft með smá skeggrót, annað en hinir, og líklegast er að fólk hræðist þennan.
  • Sá saklausi: Þessi lítur út fyrir að vera yngstur og ljúfastur. Líklegast er að fólk vilji sjá um þennan eins og sitt eigið barn.
  • Trúðurinn: Ekki sá myndarlegasti en engu að síður sá fyndnasti. Hann er sá sem klæðir sig furðulega upp og segir brandara.
  • Sterka, þögla týpan: Þessi er oft með leyndardómsfullt augnaráð, sem erfitt er að lesa í. Hann stelur athyglinni aldrei frá hinum meðlimum sveitarinnar.
  • Sá helheiti: Myndarlegastur og sá sem fólk laðast mest að. Þegar strákasveit er nefnd á nafn er líklegast að fólki detti þessi meðlimur í hug. Þessi eyðir miklum tíma í að laga hárið og kann vel á dömurnar.[24]

Þessar staðalmyndir fyrirfinnast auðvitað ekki í öllum strákasveitum og eru ekki byggðar á hávísindalegum útreikningum en eru þó ágætis viðmið þegar strákasveitir eru annars vegar.

Strákasveitir á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirbærið strákasveit hefur ekki verið neitt sérlega algengt hér á Ísland. Á síðustu árum kom þó ein fram á sjónarsviðið en það var hljómsveitin Luxor, sem Einar Bárðarson stofnaði. Fimm einstaklingar voru valdir af þeim sextíu, sem mættu í áheyrnarprufur, og komu þeir allir úr ólíkum áttum. Luxor gaf út eina plötu, sem bar einfaldlega nafnið Luxor[25] og seldist í um fjögur þúsund eintökum.[26]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Belinda Thomas. „What is a Boy Band?“. Sótt 10. mars 2013.
  2. „Luxor - Bio:“. Sótt 11. mars 2013.
  3. Laura Roberts. „Barbershop quartet signs million pound record deal“. Sótt 10. mars 2013.
  4. „Boy bands“. Sótt 11. mars 2013.
  5. OPINIONATEDBIGMOUTH. „Were The Beatles A Boy Band?“. Sótt 11. mars 2013.
  6. Tom Assistant Producer. „MONKEES AND MANUFACTURING“. Sótt 10. mars 2013.
  7. Steve Huey. „The Jackson 5“. Sótt 11. mars 2013.
  8. „New Kids On The Block Biography“. Sótt 11. mars 2013.
  9. „Take That Biography“. Sótt 10. mars 2013.
  10. „BOYZ II MEN BIOGRAPHY“. Sótt 11. mars 2013.
  11. „Backstreet Boys Biography“. Sótt 11. mars 2013.
  12. Mary Carreon. „N Sync Were the Truth, Even if Justin Timberlake Thought They Dressed Like Morons“. Sótt 11. mars 2013.
  13. „Justin Timberlake to perform 'N Sync dance at wedding“. Sótt 10. mars 2013.
  14. Joe D'Angelo. 'NSYNC, Britney, Backstreet Boys Ruled In 2000“. Sótt 11. mars 2013.
  15. „The Jonas Brothers“. Sótt 11. mars 2013.
  16. Shirley Halperin. „Jonas Brothers Part Ways With Disney's Hollywood Records (Exclusive)“. Sótt 11. mars 2013.
  17. Jocelyn Vena. „One Direction, The Wanted VMA Rivalry Recalls Old-School Backstreet, 'NSYNC Battles“. Sótt 11. mars 2013.
  18. „One Direction Biography“. Sótt 11. mars 2013.
  19. Mikey. „One Direction want to write their own songs“. Sótt 11. mars 2013.
  20. Grant Ellis. „One Direction Make a Play For Longevity on First American Headlining Tour“. Sótt 11. mars 2013.
  21. „The Wanted co-wrote new album“. Sótt 11. mars 2013.
  22. Lizzie Cox. „THE WANTED'S MAX GEORGE: 'WE DON'T WANT TO BE LIKE ONE DIRECTION'. Sótt 11. mars 2013.
  23. „Tom Parker From The Wanted Disses One Direction“. Sótt 11. mars 2013.
  24. Melanie Abrahams. „The 5 Kinds Of Boy Band Members - Who's Your Type?“. Sótt 11. mars 2013.
  25. „LUXOR - fyrsta „boyband" Íslands“. Sótt 11. mars 2013.
  26. Tómas Meyer. „Luxor hættir – Engir kveðju tónleikar“. Sótt 11. mars 2013.