Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Thule-herstöðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Loftmynd af herstöðinni frá 1993.

Thule-herstöðin (enska: Thule Air Base; grænlenska: Qaanaaq Mitarfik; danska: Thule Lufthavn) einnig Thule Air Base/Pituffik Airport (IATA: THU), er bandarísk herstöð og herflugvöllur í sveitarfélaginu Qaasuitsup á Norðvestur-Grænlandi, um 1120 km norðan við heimskautsbaug, 1524 km sunnan við norðurheimskautið og um 890 km austan við norðursegulskautið. Herstöðin stendur þar sem áður var Thule-þorpið, en íbúar þess voru neyddir til að flytja þangað sem nú er Qaanaaq.

Fyrstu herframkvæmdir Bandaríkjamanna hófust hér í seinni heimsstyrjöldinni en Bandaríkin tóku völdin á Grænlandi 1941 eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörku. Árið 1951 var byggður flugvöllur sem gerði mögulegt að hafa þar heimaflugstöð fyrir sprengjuflugvélar sem ætlað var að nota gegn Sovétríkjunum ef til átaka kæmi í kalda stríðinu.

Árið 1961 voru settar þar upp ratsjár fyrir loftvarnarkerfið Ballistic Missile Early Warning System (BMEWS) um 20 km norðaustur af herstöðinnni. BMEWS var mikið radarkerfi sem meðal annars tengdist Íslandi og var sett upp til að geta varað bandarísk yfirvöld við flugskeytum sem skotið væri frá meginlandi Sovétríkjanna eða kafbátum á Norður-Atlantshafi eða Íshafinu. Á þessum tíma var herstöðin á hátindi stærðar sinnar með um 10.000 hermenn staðsetta þar. Seinni hluta 7. áratugarins fækkaði mjög í herliðinu og einungis um 3.400 manns voru þar árið 1968. Nú eru þar um 250 hermenn.

Þann 21. janúar 1968 fórst B-52 sprengjuflugvél 11 km sunnan við herstöðina. Fjórar vetnissprengjur sem voru um borð týndust og geislavirk málmbrot dreifðust um stórt svæði. Það var ekki fyrr en 1996 sem dönsk yfirvöld viðurkenndu að um geislavirkni hafi verið að ræða og gengust inn á að greiða þeim sem unnið höfðu við hreinsun á svæðinu 50.000 danskar krónur á mann í skaðabætur fyrir heilsutap og í mörgum tilvikum dauða úr krabbameini.