Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Vinaminni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vinaminni er þriggja hæða timburhús við Mjóstræti 3 reist árið 1885 af Sigríði Einarsdóttur leikkonu og kvenréttindakonu. Sigríður ólst upp á lóð hússins en hús foreldra hennar, Brekkubær stóð þar.

Sigríður var kunn hannyrðakona og safnaði fyrir byggingu hússins í nokkur ár með því að sýna og selja íslenskt handverk víða erlendis. Hún fékk enska smiði til að reisa húsið eftir breskri teikningu.

Sigríður stofnaði kvennaskóla í Vinaminni sem tók til starfa árið 1891. Skólinn var ekki ríkisstyrktur og átti í harðri samkeppni við Kvennaskólann í Reykjavík og starfaði aðeins einn vetur og voru skólastúlkur 15 en 5 þeirra voru í heimavist í Vinaminni. Iðnskólinn og Verslunarskólinn byrjuðu seinna skólahald sitt í húsinu.

Árið 1895 tók athafnamaðurinn Einar Benediktsson herbergi á leigu í Vinaminni og hafði þar skrifstofuaðstöðu í mörg ár. Frá 1909-1915 hafði Ásgrímur Jónsson listmálari aðstöðu í húsinu. Við lát Sigríðar árið 1915 komst húsið í eigu sr. Haraldar Níelssonar en hann var kvæntur systurdóttur Sigríðar. Um 1940 komst húsið í eigu kaupmannanna Sigurliða Kristjánssonar og Valdimars Þórðarsonar, betur þekktir sem Silli og Valdi og leigðu þeir út herbergi í húsinu. Síðar eignaðist Reykjavíkurborg húsið og stóð það autt um árabil og varð aðsetur útigangsfólks. Borgin seldi húsið árið 1992.