Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Ye Olde Trip to Jerusalem

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ye Olde Trip to Jerusalem er elsti pöbbinn í Englandi

Je Olde Trip to Jerusalem (eða bara The Trip) er krá í ensku borginni Nottingham og gerir tilkall til að vera elsti pöbbinn í Englandi.

Húsið er reist upp við sandsteinskletta

Talið er að kráin hafi verið stofnuð 1189, þótt ekki sé það vitað nákvæmlega. Þrátt fyrir það er ártalið málað á útveggi hússins og auglýst sem elsti pöbbinn í Englandi. Nokkrir aðrir pöbbar gera reyndar einnig tilkall til þess sama, þar á meðal tveir aðrir pöbbar í Nottingham (Ye Olde Salutation Inn og The Bell Inn). Húsið var reist við einn inngang að sandsteinshellunum í borginni og eru nokkrir hellar meira að segja hluti af innréttingu hússins. Nokkrar drykkjustofur krárinnar eru inni í hellum, sem og bjórgeymslan. Undir húsinu eru fleiri hellar og voru þeir upphaflega notaðir sem bruggstaður. Heitið er tilkomið sökum þess að Ríkharður ljónshjarta fór í krossferð til landsins helga á þessum tímum. Sagan segir að margir fylgismenn hans frá norður Englandi hafi komið við í kránni og fengið sér neðan í því á leið til herliðs konungs. Sumir halda því meira að segja fram að Ríkharður hafi sjálfur drukkið öl í húsinu á leið sinni til Jerúsalem, en það er trúlega ýkt. Á hinn bóginn kom Ríkharður til Nottingham eftir krossferð sína er hann hertók kastalann, en engar heimildir eru fyrir því að hann hafi nokkru sinni stigið fæti í krána.

Innréttingar

[breyta | breyta frumkóða]

Mestur hluti innréttinganna eru nútímalegar, þ.e. dæmigerðar fyrir enskan pöbb. Ýmsar skreytingar minna þó á riddaratíðina og krossferðir. Í kránni eru nokkrir gamlir áhugaverðir munir. Einn munanna er gamalt skipsmódel sem bölvun hvílir yfir (The Cursed Galleon). Sagt er að allir þeir sem hafa hreinsað það eða dustað ryk af því hafi látist á sviplegan hátt. Þar af leiðandi hefur skipið legið óhreyft í langan tíma og safnað óhreinindum. Til að koma í veg fyrir að rykflykki detti af því og ofan í bjórglös, var skipið sett í glerbúr, þar sem það fær að vera í friði. Í dag sér varla í skipið sökum ryklags. Í kránni er einnig ævagamall kollur. Sagt er að ef kona sest á hann aukist líkur á því að hún verði ólétt.

Kráin er öllum opin. Þangað flykkjast ferðamenn, bæði til að fá sér bjór og til að skoða. Skoðunarferðir eru farnar um húsið og hellana með reyndum leiðsögumönnum.