Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                

Rökræður eða átök. Árekstrar lífsgilda í stjórnmálaumræðu

Argument or conflict: The clash of values in public debate Political discussion is regulated by a number of constraints, some of which are implicit and some explicit. Radicalism in politics is characterized by an attempt to test these constraints and push beyond them. Thus radical groups may demand that issues not accepted as part of the political realm be admitted into political debates, and in this way issues become “politicized.” Differences between liberals or radicals on the one hand and conservatives on the other often revolve around legitimate political projects. I argue that a radical approach to politics must emphasize the need for allowing moral and religious values in, rather than excluding them from the political realm.

5/ Rökræður eða átök Árekstrar lífsgilda í stjórnmálaumræðu Stjórnmálaumræða á opinberum vettvangi lýtur margvíslegum reglum. Stundum eru þessar reglur opinberar og á allra vitorði, en stundum eru þær þögul vitneskja, jafnvel ekki að öllu leyti meðvitaðar þeim sem þó fara eftir þeim. Oft tekur enginn eftir mörkunum fyrr en einhver fer út fyrir þau. Eitt einkenni róttækni í stjórnmálum er viðleitni til að prófa, teygja og jafnvel brjóta þær reglur sem stýra orðræðu stjórnmálanna. Þetta gerist til dæmis með því að róttækir hópar krefjast þess að tiltekin málefni, umræðuefni, hugtök eða orð séu viðurkennd í stjórnmálaumræðu. Um leið og það gerist færist málefnið eða hugtakið af sviði hins óumdeilda, inn á svið hins umdeilda eða umdeilanlega. Þegar stjórnmálasaga síðustu aldar er skoðuð, er auðvelt að sjá alla róttæka umbótabaráttu í þessu ljósi: Stærri hlutar mannlegs lífs og atferlis fá pólitíska merkingu og verða hluti af rökræðum og ágreiningi hins pólitíska. Þessi þróun vekur margar spurningar – sumar þeirra eru klassísk ágreiningsefni íhaldssemi og frjálslyndis. Hefðbundin gagnrýni íhaldsstefnunnar varðar rétt einstaklingsins til að halda lífi sínu utan hins pólitíska. Íhaldsstefnan leitast til dæmis ekki síður við að bjarga einstaklingnum frá pólitík en að auðvelda honum þátttöku í pólitík. Róttækni snýst hins vegar iðulega um að opna fleiri svið lífsins fyrir pólitískri umræðu. Gildi hafa óljósa stöðu í stjórnmálaorðræðu samtímans. Það er ekki ljóst hvort og þá að hve miklu leyti þau eiga heima í stjórnmálaumræðu, til hvaða sameiginlegu gilda megi vísa eða hvort rökræður stjórnmálanna eru eða geta verið um gildi. Þetta stafar í fyrsta lagi af því að greinarmunurinn á lífsgildum, siðferðisgildum og grunngildum samfélagsins er oft ekki Rökræður eða átök / 87 fyllilega skýr, en í öðru lagi stafar hann af djúpstæðum ágreiningi um hvað tilheyri stjórnmálaumræðu og hvað ekki. Því er stundum haldið fram að lífsgildi séu strangt tekið einkamál einstaklinga og að list stjórnmálanna sé einmitt sú að geta boðið upp á sameiginlegar niðurstöður einstaklinga sem deila ekki lífsgildum. Sé haldið áfram á sömu braut mætti segja að siðferðisgildi séu afstæð, fólk af ólíkum uppruna geti aðhyllst ólík siðferðisgildi og því sé ekki hægt að byggja afstöðu eða málflutning á slíkum gildum, þó að þau geti eitthvað komið við sögu í stjórnmálaumræðu. Grunngildi samfélagsins eru þá þau gildi sem allir geta eða eiga að vera sammála um og sem eru þá nægilega óumdeild til þess að hægt sé að vísa til þeirra í allri umræðu. Í þessari grein ætla ég að fjalla um þrjár aðgreiningar sem allar varða ágreininginn um gildi og erindi þeirra í stjórnmálaumræðu. Fyrsta aðgreiningin er aðgreining siðareglna og gildisdóma, sem gerir ráð fyrir því að hægt sé að gera grein fyrir grunnreglum réttlætis og sanngirni án þess að fara út í „umdeilanleg lífsgildi.“ Önnur aðgreiningin varðar lýðræði og miðar að því að gera grein fyrir lýðræði sem formlegri aðferð ákvarðanatöku frekar en rökræðu eða samræðu. Ég held því fram að rökræðan sé þvert á móti nauðsynlegt skilyrði lýðræðis. Þriðja aðgreiningin snýst um raunsæi og hugsjónir. Því er iðulega haldið fram að hugsjónir séu í eðli sínu óraunsæjar hugmyndir um hið mögulega. Ég held því hins vegar fram að raunsæi sé óhugsandi án hugsjóna og hugsjónir án raunsæis. Þegar öllu er á botninn hvolft eru tilraunir til að þrengja eða takmarka stjórnmálaumræðu líklegar til þess að draga úr lýðræði frekar en að auka það. Ég held því fram að gagnrýnin umræða um gildi sé nauðsynlegur hluti stjórnmála. Það má vel hugsa sér að innan ramma framkvæmdavalds, dómsvalds eða opinberrar stjórnsýslu þurfi umræða að sneiða hjá hinu umdeilda og gildishlaðna, halda sig við form og reglur. En sama gildir ekki um stjórnmálaumræðuna sjálfa. Hún verður að eiga aðgang að öllum orðaog hugtakaforða mannlífsins og innan hennar verður að vera hægt að takast á um og rökræða lífssýn og gildismat, rétt eins og hagkvæmni, hagnað, kostnað og afkomu. Rökræða reglna og gilda Við getum sagt að nútímasiðfræði hefjist með siðfræði Kants. Einn nýstárlegasti þátturinn í siðfræðikenningu hans eru skilin sem hann dregur á milli skynsemi og tilfinninga og sú skoðun að spurningum um siðferði, um siðlega breytni, skuli svara á grundvelli skynseminnar einnar. Þó að fáir 88 / Rökræður eða átök aðhyllist hreinan og ómengaðan kantisma í siðfræði samtímans, þá hefur skynsemishyggja Kants sett mark sitt á alla siðfræði síðan á dögum hans. Einn angi hennar snýst um það að hve miklu leyti við getum gert grein fyrir siðareglum án þess að leggja tiltekna verðmætadóma til grundvallar. Sú tegund frjálslyndis sem algengust er nú er ættuð frá John Rawls og hefur skýra kantíska undirtóna. Rawls heldur því fram að umdeilanlegt gildismat, sem varðar það líf sem hver einstaklingur kýs sér, sé utan stjórnmálaumræðu.1 Vilhjálmur Árnason gengur jafnvel lengra en Rawls þegar hann heldur því fram að í raun eigi siðfræði alls ekki að snúast um lífsgildi. Hann heldur því fram að eiginleg siðfræði snúist um að móta sanngjarnar leikreglur, ekki um að rannsaka eða gera upp á milli lífsgilda. Jón Kalmansson og Róbert Haraldsson hafa hins vegar mótmælt þessari skoðun Vilhjálms. Þeir telja að siðfræði sé lítils virði, snúist hún ekki um gott og illt, um lífið sem sé þess virði að því sé lifað, um hin sönnu verðmæti. Þeir saka Vilhjálm um margvíslegar ávirðingar, misskilning eða mistúlkun á sögu heimspekinnar og sögulegum heimspekingum allt frá Aristótelesi til Kants, fyrir nú utan að vera ósammála honum um niðurstöðuna.2 Þó að Vilhjálmur telji sig ekki beint fylgismann Kants, þá dregur hann ekki dul á að megindrættirnir í rökum hans séu þaðan komnir og hann leggur áherslu á kantískan uppruna þeirra kenninga í heimspeki sem hann sækir mest til en það eru samræðusiðfræði Jürgens Habermas og stjórnmálaheimspeki Johns Rawls. Í greininni „Leikreglur og lífsgildi“ sem ágreiningurinn sprettur af, heldur hann því fram að það sé varasamt að siðfræðin eða siðfræðingar gerist boðberar tiltekinna lífsgilda. Með öðrum orðum: Réttnefnd siðfræðileg rökræða á að vera hlutlaus um lífsgildi.3 Röksemdir Vilhjálms má nálgast úr tveimur áttum. Annars vegar með því að huga að einstaklingnum og hlutverki siðfræðilegrar rökhugsunar í því starfi einstaklingsins að móta líf sitt, kjósa sér lífsgildi og skapa sér lífsskilyrði. Hins vegar með því að horfa á samfélagið og velta vöngum yfir því hvers konar rökræða um siðferði sé nauðsynlegur hluti af sjálfsyfirvegun samfélagsins. Þeir Róbert og Jón gagnrýna Vilhjálm báðir á þeim forsendum að hann hafni einu mikilvægasta hlutverki siðfræðinnar sem sé einmitt leiðbeiningin og liðveislan við að hugsa um eigið líf. Í niðurlagi greinar sinnar bendir Jón á að „Spurningin ,hvernig verður lífinu best lifað?‘ er ein þeirra 1 2 3 Rawls 1971, bls. 447-448. Róbert Haraldsson 1999, bls. 170-171; Jón Á. Kalmansson 1999, bls. 190-191. Vilhjálmur Árnason 1997, bls. 201. Rökræður eða átök / 89 heimspekilegu spurninga sem menn hafa spurt sig frá ómunatíð“ og Róbert bendir á að það sé tæplega í samræmi við siðfræði Kants eða Krists að það sé ekkert við það að athuga að „hjartað sé kalt, heilinn tæmdur merkingu og andinn bugaður“ ef einstaklingurinn tekur „sanngjarnt tillit til annarra.“4 Þeir segja báðir eitthvað á þá leið að Vilhjálmur dragi upp dapurlega eða snauða mynd af siðfræðinni. Maður getur þó ekki annað en furðað sig á þeirri stefnu sem gagnrýni þeirra tekur. Margir hafa haldið því fram á misjöfnum forsendum að hlutleysi um verðmæti eða gildi sé forsenda þess að siðfræðileg umræða geti skipt máli í lýðræðislegum fjölhyggjusamfélögum nútímans. Það er ekkert nýtt sem Vilhjálmur er að halda fram, það sem hann gerir í grein sinni er að tengja sig ákveðnum straumum í siðfræði samtímans. Með því að saka hann um að gera siðfræðina dapurlega, hjartalausa eða snauða gengur gagnrýni Jóns eiginlega út í öfgar. Gagnrýni þeirra Jóns og Róberts er þó að mörgu leyti ólík. Róbert beinir athygli sinni fyrst og fremst að veilunum í málflutningi Vilhjálms og bendir meðal annars á að hugtakanotkun Vilhjálms orkar tvímælis. Einkum held ég að Róbert hitti naglann á höfuðið þegar hann finnur að hugtakanotkun Vilhjálms. Þegar Vilhjálmur heldur því fram að lífsgildi eigi ekki heima í réttnefndri siðfræðilegri umræðu er alls ekki ljóst hversu vítt svið orðið lífsgildi spannar. Á einum stað virðist Vilhjálmur gera greinarmun á lífsgildum og siðferðisgildum og á öðrum stað er eins og eitthvað sem hann kallar grunngildi sé einn flokkurinn til. En hvað eru lífsgildi ef ekki siðferðisgildi eða grunngildi? Maður getur verið fullkomlega sammála Vilhjálmi um að siðfræðin eigi ekki að „boða umdeilanleg lífsgildi“ en verið eigi að síður þeirrar skoðunar að heimspekileg siðfræði hljóti að fjalla um gildi ekki síður en um réttlátar leikreglur. Þá lítur maður bara svo á að lífsgildi séu hver þau verðmæti eða hugsjónir sem manneskja eða samfélag gerir að sínum. En sé þessi skilningur lagður í málflutning Vilhjálms virðist öll röksemdafærslan býsna léttvæg: Auðvitað snýst siðfræði ekki um að boða fagnaðarerindið, hvert svo sem það nú er: Það er hægt að vera fjölhyggjumaður um verðmæti en samt telja þau grundvallarþátt siðfræðilegrar rökræðu. Jafnvel þó að við lítum ekki svo á að ákveðin lífsgildi séu altæk, má samt álíta að öll siðfræðileg rökræða hljóti að taka á gildismati og gildisdómum. Skilji maður Vilhjálm hins vegar þröngt og líti svo á að hann vilji með öllu gera rökræðu um verðmæti útlæga úr sölum siðfræðinnar er eiginlega alveg ómögulegt að vera sammála honum. Hvernig sem á það er litið hljóta verðmæti og gildismat og gagnrýni á þau að koma inn í 4 Róbert Haraldsson 1999, bls. 187; Jón Á. Kalmansson 1999, bls. 217. 90 / Rökræður eða átök siðfræðilega rökræðu jafnvel þó að siðfræðin eigi að takmarka sig við forsendur sanngjarnra og altækra reglna. Með öðrum orðum: Viss ónákvæmni og hugsanlega ofurlítill tvískinnungur í notkun hugtaksins lífsgildi gerir það að verkum að stundum virðist meginfullyrðingin léttvæg, stundum röng. Mér sýnist að hitinn í greinum þeirra Róberts og Jóns komi til af því að þeir skilja Vilhjálm þessum síðari skilningi. Þeir taka málflutning hans svo að hann vilji losa siðfræðina alveg við allt tal um verðmæti. Þetta held ég að sé ekki skoðun Vilhjálms en hann gefur vissulega höggstað á sér, sumar fullyrðingar hans eru dálítið kæruleysislegar, engin þeirra þó eins og þessi: „Svo lengi sem einstaklingurinn tekur sanngjarnt tillit til annarra getur siðfræðin látið sér í léttu rúmi liggja þótt hann lifi tilgangssnauðu lífi.“5 Þetta er fádæma glannaleg fullyrðing, enda hlýtur Vilhjálmur að hugsa hana sem ögrun. En ég held að réttari og í raun áhugaverðari lestur á greinum Vilhjálms sýni að hann er að segja dálítið annað en þetta: Í fyrri grein sinni í Hvers er siðfræðin megnug? reynir Vilhjálmur að gera þannig grein fyrir leikreglunum að þær verji tiltekin grunngildi, svo sem frelsi, jafnrétti og réttlæti. En þar með eru þessi grunngildi orðin leyfilegur hluti siðfræðilegrar rökræðu því að þau eru meðal skilyrðanna fyrir því að fólk geti stundað frjálsar og jafnar rökræður. 6 Vilhjálmur hleypir því verðmætunum augljóslega að. Spurningin er bara hvaða verðmæti það séu og hvernig við getum rætt um þau. Róbert bendir réttilega á marga hnökra á málflutningi Vilhjálms og sýnir fram á tilhneigingu til að einfalda heimspekisöguna úr hófi. En afstaða Vilhjálms er á endanum alls ekki jafn róttæk og Róbert vill vera láta. Hann er í rauninni ekki að segja mikið meira en að í siðfræðilegri rökræðu séu leikreglurnar aðalatriðið, ekki lífsgildin. Það er vert að staldra við þetta atriði. Hvað merkir þetta? Hér er komin kjarnahugsun í vestrænni frjálslyndisstefnu sem gengur út frá því að í nútímasamfélagi sé farsælasta skipanin sú að semja um tilteknar skynsamlegar grundvallarreglur en láta allan ágreining um gildi standa utan þess samkomulags. Það leiðir af þessu að grundvallargildi einstaklinga eiga að vera hinni samfélagslegu samræðu óviðkomandi og hún þeim. Nú hefði ég haldið að Róbert og að minnsta kosti Jón væru ekki bara ósammála því að úthýsa eigi gildum úr siðfræðilegri rökræðu, sem þeir segja að Vilhjálmur haldi fram. Ég hefði haldið að þeir væru líka ósammála þessari mildari útgáfu, það er að segja að leikreglur séu aðalatriði í 5 6 Vilhjálmur Árnason 1997, bls. 204. Vilhjálmur Árnason 1999, bls. 147. Rökræður eða átök / 91 siðfræðilegri umræðu, ekki lífsgildi. En það kemur ekki nógu vel fram í greinum þeirra því að þeir beina allri athyglinni, og miklu púðri, að því að mótmæla róttækari hugmynd en þeirri sem Vilhjálmur í raun heldur fram. Svona fordæmir Jón málflutning Vilhjálms: „Tillaga Vilhjálms um að lífsgildaspurningar verði ekki lengur ræddar innan siðfræðinnar jafngildir að mínum dómi tillögu um að fjarlægja hjartað úr siðfræðinni, ,affílósófera‘ siðfræðina, jafnvel þagga niður í siðfræðinni.“ 7 Ef það er rétt skilið hjá mér að markmið Vilhjálms sé fyrst og fremst að sýna fram á að eiginleg siðfræði, nútímasiðfræði, eigi hún að vera einhvers megnug, sé um leikreglur mannlegs samfélags og þar sé eitthvert gagn að henni, en lífsgildi sé aftur hægt að nálgast á marga ólíka vegu, ekki bara siðfræðilega, þá missir þessi gagnrýni marks, því Vilhjálmur gengur ekki jafn langt og Jón virðist gefa sér. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Það má vel fallast á það með Vilhjálmi að íhugun einstaklingsins hljóti að leita út fyrir það sem með góðu móti má kalla siðfræði, til dæmis inn á brautir bókmennta og lista. Sjálfsíhugun samfélagsins, samræða samfélagsins við sjálft sig, hlýtur hins vegar stöðugt að láta reyna á gildismat og gagnrýna það á forsendum siðfræðinnar. Þannig virðist mér að í sjálfri hugmyndinni um gagnrýna siðfræði felist ekki bara gagnrýnin umræða um sanngjarnar leikreglur heldur ekki síður um farsæld, verðmæti og gildismat í einstökum atriðum. Hvernig ber þá að meta þá fullyrðingu Vilhjálms að siðfræðin eigi „einkum að skýra skilyrði þess að menn geti mótað eigið gildismat og komi sér saman um sanngjarnar leikreglur í samskiptum sínum“? 8 Með öðrum orðum: Siðfræðin á ekki að segja mönnum til um farsæla breytni. Ástæðan fyrir því að þessi afstaða er varhugaverð er ekki sú að boðunarhlutverki siðfræðinnar sé ekki nægilega sinnt. Vandinn er sá að gagnrýnishlutverk siðfræðinnar verður óljóst og takmarkað ef hlutverk hennar er einkum eins og Vilhjálmur lýsir því. Siðfræðin er nefnilega ekki bara tilraun til að búa til kerfi eða skýra forsendur þess að menn geti breytt rétt og þannig að til heilla horfi. Hún er ekki síður hörð gagnrýni á það sem viðgengst. Jafnvel þótt siðfræðingar geti ekki krafist ríkara hlutverks við að segja fólki hvernig það á að lifa en aðrir, þá er siðfræðileg gagnrýni á þau gildi sem menn lifa eftir kannski mikilvægasti hluti siðfræðilegrar rökræðu. Siðfræðin hefur í gegnum tíðina gagnrýnt lífsgildi á ýmsum forsendum. Stundum vegna þess að menn séu ekki sjálfum sér samkvæmir, stundum vegna þess að þeir telji sig aðhyllast algild verðmæti en átti sig ekki á að aðstæður geta kallað á að 7 8 Jón Á. Kalmansson 1999, bls. 217. Vilhjálmur Árnason 1999, bls. 149. 92 / Rökræður eða átök þessum verðmætum sé hafnað eða önnur tekin fram yfir, eða að verðmæti geta verið ósamrýmanleg. Svo má lengi telja. Það er erfitt að sjá hvernig siðfræðin getur í senn haldið því hlutverki sínu að gagnrýna stofnanir, venjur og breytni og takmarkað sig við að skýra skilyrði sanngjarnra leikreglna. Sjálfsyfirvegun samfélags sem vill halda uppi sjálfsgagnrýni beinist að gildismati sem ríkir eða viðgengst innan þess rétt eins og að leikreglum þess. Eins snýst umræða um leikreglur oft í raun um lífsgildi, til dæmis um þá spurningu hvaða verðmæti séu eftirsóknarverð fyrir samfélagsheildina. Hver eru þau gæði sem samfélaginu ber að sækjast eftir, hver eru hin raunverulegu gæði? Hlýtur ekki samfélagsumræðan alltaf að snúast um slíka hluti? Svo nefnd séu dæmi úr íslenskum veruleika – við erum sífellt að fást við spurningar á borð við: Eru samfélagsleg verðmæti fólgin í því að föst búseta sé sem víðast um landið? Ef svo er, getum við samt fórnað þessum verðmætum fyrir önnur verðmæti, til dæmis peninga? Getum við borið saman gjörólík gæði eins og til dæmis fjárhagslegan ávinning og óspillta náttúru? Öll samfélög, stofnanir og fyrirtæki manna standa frammi fyrir ákvörðunum þar sem verðmæti rekast á. Verkefni siðfræðinnar hlýtur að felast í því að glíma við spurningar sem verða til vegna slíkra árekstra. Hið gagnrýna hlutverk siðfræðinnar er kannski þegar upp er staðið aðalatriðið. Við lifum í heimi umdeilanlegra verðmæta og umdeildra lífsskoðana. Verðmæti og lífsskoðanir rekast stöðugt á. Siðfræði eða stjórnmálaumræða sem reynir að koma sér undan því að ræða slíka árekstra er á flótta undan sjálfri sér. Siðfræðin leysir ekki vanda í eitt skipti fyrir öll, en hún þarf að geta hjálpað til við að gera upp á milli verðmæta, líkra og ólíkra og vera uppspretta öflugrar gagnrýni á verðmæti og leikreglur. Hún þarf að geta leitt rökræðu hvort sem sú rökræða skýrir forsendur gildismats okkar eða sýnir okkur hve skilningur okkar er takmarkaður. Þarf að rökræða um gildi? Lýðræðishugtakið er umdeilt hugtak og deilur um inntak þess varða einmitt þá aðgreiningu leikreglna og lífsgilda sem fjallað er um hér að framan. Spurningin er hver skilyrði lýðræðis séu. Hugtakið rökræðulýðræði (e. deliberative democracy) hefur verið ofarlega á baugi í heimspekilegri umræðu um lýðræði síðustu tvo áratugi eða svo en það felst í meginatriðum í þeirri hugmynd að umræður eða rökræður um ákvarðanir séu nauðsynlegt skilyrði lýðræðis. Andstæðingar rökræðulýðræðis halda því fram að hvað sem um rökræður megi segja, þá séu þær ekki nauðsynlegt skilyrði lýðræðis. Rökræður eða átök / 93 Nauðsynleg og nægjanleg skilyrði lýðræðislegrar ákvörðunar felist í því að hún sé tekin eftir tilteknum formlegum reglum sem tryggja aðkomu þeirra sem málið varðar og svo framvegis. Þannig er tekist á um hvort réttnefnt lýðræði sé lýðræði rökræðunnar eða lýðræði formsins. Gagnrýni á rökræðulýðræði (hér á landi er reyndar oftar talað um samræðulýðræði, en ég legg þetta tvennt að jöfnu) byggir á því að hafnað er hugmyndinni um að samræður eða rökræður geri ákvörðun lýðræðislegri. Hér á Íslandi hefur umræða um rökræðulýðræði og formlýðræði fengið dálítið sérstaka mynd vegna þess að hún hefur orðið hluti af sjálfri stjórnmálabaráttunni. Tekist hefur verið á um kosti og galla samræðustjórnmála annars vegar og athafnastjórnmála hins vegar. 9 Aðgreining samræðuog athafnastjórnmála varðar mikilvæga hagsmuni kjósenda: Þeir kjósa fólk, flokka osfrv. til að koma ákveðnum hlutum í verk. Þeir kjósa (væntanlega) í samræmi við forgangsröðun sína. Samræður geta hins vegar hindrað verkin eða tafið fyrir þeim. Þess vegna er skiljanlegt að hægt sé að láta líta svo út að athafnastjórnmál séu valkostur sem taka eigi fram yfir samræðustjórnmál. En aðgreiningin hylur þó einnig annan mjög mikilvægan þátt lýðræðislegra stjórnmála. Lýðræði er aðferð til að taka ákvarðanir sem við gefum okkur að sé betri en aðrar aðferðir. Þetta skiljum við ekki einungis svo að einhver lýðræðisleg aðferð sé alla jafna sanngjarnari en aðrar aðferðir. Að lýðræði sé betri aðferð hlýtur að þýða að við getum gert ráð fyrir því að lýðræðislegar ákvarðanir séu betri en ákvarðanir sem teknar eru ólýðræðislega í þeim skilningi að þær þjóni betur sameiginlegum gæðum.10 Athafnapólitíkusinn framfylgir ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar og þarf af þeirri ástæðu ekki á neinum samræðum að halda. Með því að gera athafnir að andstæðu samræðu er látið líta svo út að hlutverk stjórnmálamannsins sé að framkvæma vilja kjósenda sem liggi fyrir og sé fullkomlega skýr. Athafnapólitíkusinn þarf þá hvorki að hugsa né rökræða, hlutverk hans er það eitt að berjast fyrir þeim málum sem hann er, eða telur sig vera, kosinn til að sinna. Rökræður um stefnumál og ákvarðanir fela í sér tvennt. Annars vegar að rætt er um valkosti sem til greina komi og hvernig hægt sé að koma auga á þá, hins vegar að rökrætt er um kosti og galla þeirra leiða sem taldar eru 9 Sjá til dæmis rökræður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Sigríðar Þorgeirsdóttur og Róberts Haraldssonar um samræðu/umræðustjórnmál og vald í Ritinu 4, 3 (2004), bls. 159-179. 10 Þetta á ekki síst við þegar sú spurning vaknar hvort ekki eigi frekar að láta sérfræðingum eftir að taka ákvarðanir heldur en að láta misvel upplýstan almenning gera það. Sjá Dewey 1991, bls. 123-125. 94 / Rökræður eða átök koma til greina. Það liggur ekki í augum uppi að rökræður séu alltaf besta leiðin við að finna valkosti eða til að gera upp á milli þeirra. Stundum getur verið miklu nær að hafa bara atkvæðagreiðslu án þess að efna til nokkurra umræðna eða rökræðna. Segjum að hópur fólks þurfi að taka sameiginlega ákvörðun um hvaða veitingahúsi eigi að borða á. Undir sumum kringumstæðum getur verið mikilvægt að ræða fyrst um mögulega staði á svæðinu, hvers konar veitingahús fólk vilji fara á og svo framvegis. En það getur líka verið skynsamlegt að láta einn í hópnum um að taka ákvörðunina, eða einfaldlega hafa atkvæðagreiðslu án nokkurra umræðna. Það má segja sem svo að rökræðurnar séu besta leiðin ef líklegt er að þær leiði fljótt og vel til niðurstöðu sem gera má ráð fyrir að falli sem flestum í geð. Ef þær draga hins vegar á langinn að ákvörðun verði tekin eða leiða til þess að minnihlutaskoðun verður ofan á (til dæmis vegna þess að það eru frekustu einstaklingarnir sem hafa hana) þá geta rökræður verið til hins verra. Það má líka taka dæmi af stórum pólitískum málum þar sem rökræður virðast hafa haft slæm áhrif frekar en góð. Þegar Bill Clinton náði kjöri sem forseti Bandaríkjanna 1992, var eitt af helstu stefnumálum hans að gera umbætur á bandaríska heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt skoðanakönnunum voru þessar umbætur ofarlega á forgangslista kjósenda líka, sem töldu þær nauðsynlegar. Þegar Clinton kynnti tillögur sínar í september 1993 var almennur stuðningur við þær og litla andstöðu að merkja frá repúblikönum á þingi. Þetta breyttist á nokkrum mánuðum, eftir að tryggingafyrirtæki fjármögnuðu auglýsingaherferð sem beint var gegn umbótatillögunum og fundu þeim allt til foráttu. Auglýsingaherferðin vakti mikla athygli og var fréttaefni vikum og mánuðum saman. Hún varð til þess að repúblikanar á þingi töldu að almenningsálitið hefði snúist gegn breytingunum og því óx andstaða þeirra við þær mjög. Þannig urðu umbótatillögurnar fyrst deiluefni en hurfu síðan út af borðinu í þingkosningum haustið 1994. Demókratar kusu að leggja þær til hliðar frekar en að setja þær á oddinn í kosningabaráttu. Þetta gerðist jafnvel þó að skoðanakannanir sýndu allan tímann að almenningur taldi umbætur í heilbrigðiskerfinu eitt af mikilvægustu málefnum stjórnmálanna. Hér má því með nokkrum rétti halda því fram að rökræður hafi stöðvað mikilvægt umbótamál. Sérhagsmunahópur gat rænt málinu og snúið því sér í hag. Svipaða sögu mætti segja af baráttu tóbaksfyrirtækja gegn því að viðurkenna að reykingar væru óhollar, en lengi vel héldu tóbaksfyrirtækin Rökræður eða átök / 95 því fram að óhollusta reykinga væri ekki fyllilega sönnuð og fólk hefði því fullan rétt til að draga hana í efa.11 Það er því ekkert sem segir að rökræður leiði alltaf til betri niðurstöðu, en það er í sjálfu sér ekki vandamál rökræðulýðræðisins, þar sem þetta er augljóst. Engin aðferð er þannig að hún tryggi alltaf bestu niðurstöðu. Spurningin er sú hvort forgangsröðun einstaklinga verði breytt með rökræðum, eða hvort hagsmunir fólks og forgangsröðun sé gefin. Rökræðulýðræði byggir á því að forgangsröðun einstaklinga sé ekki óbreytanleg, henni megi breyta með rökræðum. Þá er litið svo á að rökræður geti breytt sannfæringu og mati og þar sem viðfangsefni stjórnmála sé sameiginleg gæði þá þurfi slíkar rökræður að fara fram. Með öðrum orðum, hér höfum við tvær hugmyndir um stjórnmál. Annað getum við kallað athafna- eða átakastjórnmál þar sem einstaklingar með ólíka sýn og gildi – ólíka forgangsröðun – takast á um hlutina, hins vegar eru samræðustjórnmál eða rökræðustjórnmál þar sem einstaklingar rökræða forgangsröðun og líta því á umræður stjórnmálanna sem leið að samstöðu, þar sem forgangsröðun getur umbreyst fyrir áhrif rökræðunnar. Í veitingahúsdæminu sem ég nefndi áðan getum við nú séð hvenær samræður um veitingahúsin geta hjálpað: Við skulum segja að einn í hópnum viti að fiskistaðirnir í þessum borgarhluta eru á heimsmælikvarða og fræði hópinn um þetta. Þá getur verið að einhverjir í hópnum sem áður hefðu viljað fara á stað A skipti um skoðun og vilji nú frekar fara á stað B. Með þessu hefur forgangsröðun verið breytt öllum til hagsbóta vegna samræðnanna, annars hefðu þessar upplýsingar alls ekki komið fram. Í hinu dæminu, um umbætur í bandaríska heilbrigðiskerfinu, er dálítið annað uppi á teningnum. Þar tekst sérhagsmunahópum að koma inn þeirri hugmynd að forgangsröðun almennings hafi breyst, eða reynst önnur en menn héldu, sem veldur því að stjórnmálamenn laga sig að því sem þeir halda að sé hin nýja forgangsröðun almennings. Í þeirri umræðu má halda því fram að rökum hafi verið misbeitt af hagsmunaaðilum til að blekkja almenning eða stjórnmálamenn eða vinna að þröngum einkahagsmunum. Getur verið að það sé raunsæi að sjá stjórnmál í ljósi átaka einstaklinga og hópa sem hafa ólíka hagsmuni, sýn og gildi, þar sem hver hópur reynir einfaldlega að fá fram eins mikið af sínu og mögulegt er? 11 Sjá Stokes 1998, bls. 130-131. Það er reyndar athyglisvert að Barack Obama lenti í svipuðum vanda og Clinton þegar umbætur í heilbrigðismálum voru aftur til umræðu á Bandaríkjaþingi árið 2009. Fylgið við hugmyndir hans virtist réna og efasemdamönnum á þinginu óx fiskur um hrygg í samræmi við það. 96 / Rökræður eða átök Mikilvæg rök gegn slíkri „raunsæishugmynd“ um lýðræði felast hins vegar í því að með því að hafna rökræðum og staðsetja stjórnmálin í rými hreinnar hagsmunabaráttu, hverfur mikilvægur greinarmunur. Þetta er greinarmunurinn á vettvangi stjórnmála og markaðstorgi. En þá er ekki lengur mögulegt að greina á milli ákvarðana um sameiginleg samfélagsleg gæði og samkeppni um gæði. Markaðsvæðing stjórnmálanna setur einkahagsmuni í öndvegi, en gerir ekki ráð fyrir því að í stjórnmálum sé mögulegt að beita skynsemi til að komast að sameiginlegum niðurstöðum. En þetta gerir stjórnmálaumræðu á endanum marklausa. Önnur rök eru þau, að ef fyrirframgefnir hagsmunir einstaklinga ráða ferðinni í stjórnmálaumræðu munu stjórnmálin tæpast leita eftir upplýsingum og rökum heldur þvert á móti verður tilhneigingin að breiða yfir upplýsingar og rök sem ganga gegn hagsmunum tiltekinna hópa og einstaklinga. Það sem verra er, þetta verður fullkomlega sjálfsagður hluti af stjórnmálunum, vegna þess að tilgangur pólitískra ákvarðana er þá fyrst og fremst að þjóna sérhagsmunum, en þessir hagsmunir þurfa alls ekki að fara saman við heildarhagsmuni eða sameiginleg gæði. Rökræður hafa samstöðu að markmiði og því mætti segja sem svo að þær nái þá ekki tilgangi sínum nema þegar samstaða næst. Á hinn bóginn vitum við líka að ólík pólitísk öfl ná seint samstöðu um þá hluti sem varða ólíka sýn og lífsafstöðu. Þess vegna er auðvelt að sýna fram á að hvað sem samræðum líður eru kosningar og aðrar formlegar valaðferðir alltaf grundvallaratriði í lýðræðislegum stjórnmálum. Rökræður eru engin töfralausn og þeim er hægt að misbeita sem fyrr segir. Það er líka auðvelt að sviðsetja rökræður, beita falsrökum og láta eins og verið sé að rökræða hlutina þegar í raun er fyrst og fremst verið að lauma að hagsmunatengdum viðhorfum. En hverjir eru meginkostir rökræðna þegar öllu er á botninn hvolft? Í fyrsta lagi virðast rökræður stuðla að þátttöku. Þegar gengið er út frá átökum hagsmunahópa virðast þeir sem ekki hafa persónulegra hagsmuna að gæta í einstökum málum ekkert erindi eiga í umræðuna. Þessi blekking er furðu algeng. Hennar gætir oft í umræðum um einstök hitamál. Það er til dæmis algengt í umræðum um byggingu álvera að því sé haldið fram að þeir sem ekki búa í næsta nágrenni við fyrirhugað álver hafi engan augljósan rétt til að taka þátt í umræðum um hvort rétt sé að reisa það eða ekki. Í öðru lagi á hvers kyns sérfræðiþekking greiðari aðgang að ákvörðunum sem byggjast á rökræðum, þar sem hagsmunir einstaklinga og hópa víkja, að minnsta kosti tímabundið fyrir þeirri hugsun að pólitískar ákvarðanir varði sameiginleg gæði. Í þriðja lagi eru rökræður nauðsynlegar til að verjast fordómum og koma í veg fyrir að ákvarðanir um sameiginleg Rökræður eða átök / 97 gæði ráðist af þröngsýni eða forpokun. Það má því segja að rökræður séu sú sía sem líklegust er til að greina það sem varðar sameiginleg gæði frá því sem varðar þau ekki. Þegar átaka- og athafnastjórnmál eru talin valkostur sem taka beri fram yfir rökræðustjórnmál er um leið látin í ljós vantrú á að hægt sé að komast að niðurstöðum um sameiginleg gæði í opnum og hreinskiptnum samræðum. Stjórnmál knúin af hugsjónum eða raunsæi Þriðja aðgreiningin sem ég ætla að taka fyrir í þessari grein varðar sams konar greinarmun og aðgreiningarnar tvær sem ég hef fjallað um nú þegar, þó af ólíkum toga sé. Þetta er greinarmunur raunsæisstjórnmála og hugsjónadrifinna stjórnmála. Raunsæismenn í stjórnmálum leggja áherslu á að hvort sem um er að ræða stjórnmál almennt, utanríkis- og alþjóðamál, eða sértækari spurningar um til dæmis stríð og rétt til stríðs, þurfi stjórnmálastefnu alltaf að móta með tilliti til veruleikans eins og hann er. Raunsæismenn gagnrýna þá sem vilja nálgast pólitískan veruleika út frá hugsjónum eða hugmyndum um hvernig hlutirnir eigi að vera. Þeir sjá (eða telja sig sjá) heiminn eins og hann er og gera sér ekki miklar hugmyndir um að honum megi breyta í neinum grundvallaratriðum. Hinir hugsjónadrifnu – þá er oft að finna í aktívistasamtökum eða grasrótarhópum frekar en á þingi eða í stjórnkerfinu – leyfa sér hins vegar iðulega að nálgast stjórnmál út frá framtíðarsýn, með tilliti til þess sem þarf að breyta frekar en þess sem ekki verður breytt. Það sem ég ætla að reyna að sýna fram á í þessum hluta er að hug sjónadrifin stjórnmál eru þegar öllu er á botninn hvolft oft raunsærri en það sem venjan er að tengja við raunsæi. Sú staðreynd er um leið sterk og mikilvæg rök fyrir því að í stjórnmálum sé alltaf eðlilegt að líta svo á að umræður (samræður, rökræður) séu til þess fallnar að breyta gildismati og forgangsröðun. Raunsæismenn í stjórnmálum hafa tilhneigingu til að líta svo á að veruleikinn hverju sinni sé óbreytanlegur, eða að minnsta kosti séu breytingar svo ólíklegar að það sé barnalegt að gera ráð fyrir þeim. Raunsæismaðurinn er þó ekki nauðsynlega íhaldsmaður. Hann getur verið umbótasinnaður, frjálslyndur og jafnvel í vissum skilningi róttækur. En hann hælir sjálfum sér fyrir að sjá hlutina eins og þeir eru og gera sér engar grillur um að hægt sé að fá fólk til að hegða sér öðruvísi en til dæmis „mannlegt eðli“ segir til um. Hinir hugsjónadrifnu sjá veruleikann gjarnan í ljósi aðstæðna sem eru í eðli sínu tilviljunum háðar og því sé hægt að breyta félagslegum veruleika í grundvallaratriðum með breytingum á 98 / Rökræður eða átök grunnskipulagi og stofnunum samfélagsins. Hinir hugsjónadrifnu geta verið byltingarmenn, en þeir þurfa ekki að vera það. Þeir geta líka verið umbótasinnar. Meginmunurinn á þeim og raunsæismönnunum er sá að þeir telja sig geta komið í kring breytingum á hegðun manna með því að stýra stofnunum samfélagsins í ákveðnar áttir. Meginmunurinn á raunsæis- og hugsjónamönnum birtist þá í því hvernig þeir leggja mat á möguleika sína á því að hafa áhrif á heiminn í kringum sig. Raunsæismaðurinn gerir lítið úr þessum möguleikum og vill því halda sig við það sem varðar eigin hagsmuni beint – og telur yfirleitt að öðrum sé best að gera slíkt hið sama. Hugsjónamaðurinn er hins vegar alltaf að velta fyrir sér með hvaða hætti hann geti komið vitinu fyrir fólk, ef svo má að orði komast. Í bókinni Achieving our Country leggur bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty (1931-2007) drög að hugsjónadrifnum stjórnmálum með því að færa rök fyrir því að heilbrigð stjórnmál þarfnist ákveðinna grunngilda. Hann færir rök fyrir tvennu: (i) Ákveðin tilfinningaleg gildi á borð við þjóðarstolt skipta miklu máli fyrir heilbrigð stjórnmál og því er mikilvægt að slík gildi séu höfð í hávegum og innprentuð börnum í skólum, svo dæmi sé tekið. (ii) Engar staðreyndir úr sögu þjóðarinnar má fela eða breiða yfir. Það er verra að lifa á goðsögnum eða bæla þjóðarminningu heldur en að horfast í augu við þungbærar sögulegar staðreyndir.12 Þessu er beint að bandarískum stjórnmálum sérstaklega, en ég held að það eigi við almennt. Ef Ísland er sérstaklega haft í huga má ef til vill benda á að mikilvægt sé að þjóðarvitund og þjóðarstolt byggi á heiðarlegum, eða sannferðugum hugmyndum um sögu og fortíð þjóðarinnar frekar en á goðsögnum og hæpnum vangaveltum um hugarheim forfeðranna. Rorty heldur því fram að til þess að þjóð geti byggt upp það sem hann kallar gagnrýna sjálfsvirðingu, þurfi hún eða leiðtogar hennar fyrst og fremst að vera tilbúin til og fær um að horfast í augu við staðreyndir og atburði fortíðarinnar. Fegrun eða feluleikur kemur í veg fyrir að samfélagsleg umræða geti haft það vægi sem hún hefði annars. Hún er þá aðeins framhald þeirrar hugmyndafræði sem leggur goðsagnir eða fegrun fortíðarinnar til grundvallar sjálfsmynd samtímans frekar en tilraun til að rökræða eða viðurkenna hið sanna. Það sem hér gildir um þjóðarstolt á við önnur tilfinningaleg gildi sem tengjast þjóðerni, sögu, sjálfsmynd og ímynd. Nú mætti auðvitað halda því fram að þjóðarstolt sé ekki annað en fyrsta stig þjóðrembings og þess vegna sé vafasamt að gefa sér að áhrif þess að innprenta það séu góð. En þá er mikilvægt að gera greinarmun á þjóðarstolti sem byggir á tilbúningi og þjóðarstolti sem byggir á viðleitni til 12 Rorty 1998, bls. 3-4, 32. Rökræður eða átök / 99 að komast að hinu sanna. Í fyrra tilfellinu hrynur þjóðarstoltið þegar ekki er lengur hægt að afneita því sem hugsanlega stangast á við tilbúninginn. Í síðara tilfellinu er mögulegt að breyta og leiðrétta söguskilning án þess að það dragi úr eða kippi grunninum undan þjóðarstolti, það getur einmitt byggst á því að slík endurskoðun sé möguleg og stundum nauðsynleg. Til þess að hægt sé að umgangast söguna eins og Rorty lýsir þarf ekki að hafa neina hátimbraða kenningu um sannleikann að leiðarljósi. Sögulegar staðreyndir eru ekki þannig að þær sé hægt að prófa með öðrum hætti en þeim að skoða og bera saman heimildir, rökræða þær og greina. Sögulegar staðreyndir eru því að hluta afurð minninga og heimilda og endurvinnslu þeirra. Það birtist ákveðinn grundvallarmisskilningur í þeirri skoðun að tiltekinn sögulegur sannleikur sé endanlegur og hafinn yfir gagnrýni, en það merkilega er að raunsæismenn í stjórnmálum halda oft að söguskilningur síns tíma og þar með sjálfsskilningur og samfélagsskilningur sé útræddur og endanlegur. Þetta helst í hendur við trú þeirra á að veruleikanum verði ekki breytt. Þegar raunsæismaðurinn varar við óraunsæi og grillum hugsjónamannsins, byggir hann því á óraunsæi sjálfur. Hann gengur út frá því að tilteknar skoðanir bundnar í tíma og rúm, sem fyrir honum leiða nánast af heilbrigðri skynsemi, séu hinar eðlilegu og sjálfsögðu skoðanir. Hann heldur að skilningur samtímans á sögunni sé endanlegur hafi allar upplýsingar komið fram. Hugsjónamaðurinn veit hins vegar að fortíðin er alltaf að breytast og um leið skilningur á samfélaginu og framtíð þess. Hann veðjar á breytinguna frekar en á kyrrstöðuna. Raunsæi hugsjónamannsins býr hann undir breytingar og gerir honum jafnvel kleift að sjá þær fyrir. Óraunsæi raunsæismannsins veldur því að hann er fullkomlega óviðbúinn breytingum þegar þær ríða yfir. Nú má segja að hugsjónadrifin stjórnmál snúist ekki endilega um að ná fullkomnun og ekki nauðsynlega um róttækar breytingar hverju sinni. Grundvöllur þeirra er sú skoðun að það sé í mannlegu valdi að breyta samfélaginu í tiltekna átt, stýra því að einhverju marki. Raunsæismaðurinn telur stýringuna í besta falli byggja á blekkingu, í versta falli stórhættulega þar sem tilraunir til stýringar geti vissulega haft áhrif, en hafi yfirleitt allt önnur áhrif en ætlað er. Það er viðtekin skoðun að þjóðarstolt af einhverju tagi sé mikilvægt fyrir Íslendinga, ekki síst vegna þess hvað þjóðin er smá og hve erlend áhrif geta verið áleitin og haft miklar afleiðingar á stuttum tíma. Þess vegna er ekkert óvænt eða undarlegt við það að þjóðernisstefna sé samofin pólitík allra stjórnmálahreyfinga á Íslandi. Þannig mætti segja að þjóðerni sé eitt af grunngildum í íslenskum stjórnmálum af ástæðum sem eru skiljanlegar og 100 / Rökræður eða átök ljósar. En það er hægt að vinna úr þessu grunngildi á mismunandi vegu. Ein leiðin er að líta á menningararfinn og söguna sem safn óbreytanlegra staðreynda, þótt hægt sé að fjalla um þessar staðreyndir á margvíslegan hátt. Það mætti þá til dæmis miða við algengar hugmyndir um ástæður þess að landið byggðist á sínum tíma, um hvers konar fólk landnámsmennirnir voru, um áhrif náttúrunnar á hugsunarhátt landsmanna, um ákveðna grunnþætti skapgerðar Íslendinga sem hafi hjálpað þeim að lifa af við erfið skilyrði, eindregna afstöðu þeirra gegn ofbeldi, þeir séu „friðelskandi þjóð“ og svo framvegis og svo framvegis. Önnur leið er að segja að þjóðerni sé grunngildi vegna þess að það er óhjákvæmilega miðlægt í allri stjórnmálaumræðu á Íslandi. Það þýðir ekki að við hljótum að vera sammála um hvers konar staðreyndir liggi íslensku þjóðerni til grundvallar, hvers vegna landið var numið eða hvaða tilfinningar landnámsmenn báru í brjósti. Þetta fer að skipta máli þegar reynt er að greina ímynd landsins. Hún hefur verið mjög ofarlega á baugi í pólitískri umræðu á Íslandi undanfarin ár, bæði fyrir og eftir hrun. Í byrjun árs 2008 gaf forsætisráðuneytið út skýrslu um ímynd Íslands sem ætlað var bæði að komast að niðurstöðu um hver ímynd Íslands er nú og gefa ráð um hvernig fara megi að því að styrkja hana og bæta. Skýrslan ber raunsæi um stöðu Íslands og hagsmuni vitni og í inngangi hennar eru færð nokkur rök fyrir því að mikilvægt sé að Íslendingar skapi landinu góða ímynd til að bæta stöðu sína í heimi harðsnúinnar samkeppni á öllum sviðum. Í skýrslunni kemur fram að hugmyndir fólks um ímynd Íslands byggi að stórum hluta á goðsögnum sem um áratugaskeið léku stórt hlutverk í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Í skýrslunni er lagt til að þessar meginhugmyndir þjóni áfram þeim tilgangi að halda uppi og styrkja ímynd Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Það sem er athyglisvert við skýrsluna er tvennt. Annars vegar að áhersla er í upphafi hennar á að ímyndin verði að vera ekta, það er hún verði að styðjast við raunverulegar hugmyndir þjóðarinnar um sjálfa sig og þá væntanlega hugmyndir sem standast skoðun. Hins vegar að notkun skýrsluhöfunda á goðsögnunum er ógagnrýnin. Sú spurning vaknar alls ekki hvort þessar hugmyndir séu í samræmi við raunveruleikann, heldur er gengið út frá því að þær séu raunverulegar hugmyndir Íslendinga um sjálfa sig. Hér skapast viss vandi. Sú gagnrýni að ef til vill séu goðsagnirnar byggðar á vanþekkingu og óskhyggju virðist ekki eiga við og því má vissulega spyrja: Ef hér birtast hugmyndir sem eru algengar meðal almennings, er þá ekki eðlilegt Rökræður eða átök / 101 að byggja á þeim og nota þær í ímyndarsköpun, frekar en að fara að grufla í þeim eða finna að þeim?13 Hér skapast ákveðin þversögn. Raunsæismaðurinn gæti sagt sem svo að það dugi fullkomlega að Íslendingar hafi ákveðna hugmynd um sjálfa sig. Það sé tilgangslaust að grafast fyrir um hana eða gagnrýna hana á öðrum forsendum en þeim hvort hún sé nothæf í því skyni að bæta ímynd þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi. Ef Íslendingar væru kúguð og buguð þjóð eftir margra alda áþján væri til lítils að halda því á lofti, ólíkt jákvæðum og uppörvandi hugmyndum um þjóðina. En með þessu tekur hann óafvitandi undir með þeim sem halda því fram að það sé ekki hægt að ganga út frá neinum staðreyndum um þessa hluti. Með raunsæi sínu gerist raunsæismaðurinn sekur um fullkomna afstæðishyggju, þar sem það er satt sem menn vilja hafa fyrir satt hverju sinni. Sá hugsjónadrifni leggur hins vegar upp úr því að ef þjóðerni er eitt af grunngildum íslenskra stjórnmála þá hljóti líka gagnrýnin afstaða til þess og viðleitni til að rannsaka og endurskoða hugmyndir um eðli og uppruna þjóðarinnar að vera mikilvægt atriði. Raunsæismanninum er því í mun að viðhalda ákveðinni klisju um þjóðernið á meðan hugsjónamaðurinn gerir þjóðernið að lifandi rannsóknarefni.14 Það sem er svo athyglisvert við skýrslu forsætisráðuneytisins er að í henni virðist ímynd og sjálfsmynd vera ruglað saman. Eitt er nefnilega að búa til hentugan auglýsingapakka sem tíundar kosti lands og þjóðar, setur þjóðina í samhengi heimsmála og sögu. Þetta getur verið hrein kynningarstarfsemi sem þar með hefur sambærileg tengsl við veruleikann og auglýsingar á vörum hafa yfirleitt. Annað er að grafast fyrir um þær hugmyndir sem liggja sjálfsmynd þjóðarinnar til grundvallar og halda uppi vitrænni og gagnrýninni umræðu um þær. Það er í þeim skilningi sem þjóðerni er eða getur verið grunngildi í pólitík. Skýrslan fræga gerði hins vegar höfunda sína að athlægi eftir bankahrunið síðar sama ár og hún kom út. Hrunið særði ekki aðeins þjóðarstoltið, það kom þeim í opna skjöldu sem höfðu, eins og höfundar skýrslunnar, trúað í öllu sakleysi á þá eiginleika Íslendinga sem skýrslan lýsir. Skýrslan er byggð á viðtölum við stóran rýnihóp, og í henni birtist fyrst og fremst viðhorf þessa rýnihóps til sjálfs sín sem einstaklinga og sem Íslendinga. 15 Í þessari nálgun er sama aðferðafræðilega gloppa og í niðurstöðum stofnan13 Sjá Svafa Grönfeldt o.fl. 2008. 14 Sjá ítarlega umfjöllun um tengsl þjóðernis og stjórnmálabaráttu hjá Guðmundi Hálfdanarsyni 2001. 15 Svafa Grönfeldt o.fl. 2008, bls. 4. 102 / Rökræður eða átök anna sem fundu aldrei neina spillingu á Íslandi á góðæristímunum. 16 Ef rýnihópurinn var haldinn almennri sjálfsblekkingu, þá birtist hún sem „raunveruleiki“ í skýrslunni og það er nákvæmlega það sem virðist hafa gerst. Allt orðfæri skýrslunnar sýnir að höfundar og rýnihópur telur hugmynd Íslendinga um sjálfa sig vera trausta undirstöðu sem hægt er að byggja ímynd á. En þessu getur eins verið öfugt farið, ímyndin sem búin hafði verið til í góðærinu (Íslendingar eru greinilega frábærir vegna þess að þeim gengur svo vel í fjármálum) stjórnaði hugmyndum Íslendinga um sjálfa sig. Þannig er niðurstaðan á endanum líka það sem gefið er í upphafi. Hversvegna eru Íslendingar svona velheppnaðir? Jú, það er vegna þess að hugsunarháttur þeirra er mótaður af reynslu víkinganna (til dæmis). En ef hugmynd þeirra um að þessi reynsla móti þá er komin til af því að þeir telja sig vera frábærlega velheppnaða, þá gæti í sjálfu sér hvaða staðreynd eða goðsögn fortíðarinnar sem er gegnt sama hlutverki. Þannig er hrein mótsögn fólgin í því að segja að ímynd byggi á „raunveruleika.“ Hún byggir á þeirri goðsögn sem fellur í kramið hverju sinni. Þannig er skýrslan fyrst og fremst heimild um risavaxna sjálfsblekkingu sem hafði heltekið stærstan hluta ráðandi afla í landinu. Hún nærðist á þeirri staðreynd að Íslendingar höfðu auðgast á mjög skömmum tíma og um leið orðið sannfærðir um yfirburði sína fram yfir aðrar þjóðir. Jafnvel forseti Íslands var heltekinn af sjálfsblekkingunni og byrjaður að ferðast um heiminn til að lesa yfir fólki um hvernig það ætti að hegða sér ef það vildi vera eins og Íslendingar.17 Lokaorð Markmið mitt í þessari grein hefur verið að varpa ljósi á hvernig stjórnmál hljóta að stórum hluta að snúast um gildi. Þegar reynt er að einblína á formið, almennar leikreglur, grunnreglur um aðferð eða framgangsmáta, fjarlægjast stjórnmálin þann vettvang sem þeim er eiginlegur, en það er vettvangur samræðu um sameiginleg gæði. Það má hafa margvíslegar efasemdir um skilyrði og raunverulega möguleika slíkrar samræðu, en um leið og snúið er baki við henni afskræmast stjórnmálin og verða eitthvað 16 Það var hvað eftir annað niðurstaða stofnana á borð við Transparency International að spilling væri hverfandi á Íslandi á tímum góðærisins sem lauk haustið 2008. Sjá http://www.transparency.org. 17 Sjá til dæmis fræga ræðu forseta Íslands, hjá Walbrook klúbbnum í London (Ólafur Ragnar Grímsson 2005). Í ræðunni er að finna margvíslegar ábendingar forsetans til kaupsýslumanna heimsins um hvernig þeir geti sest við fótskör Íslendinganna og lært af þeim. Rökræður eða átök / 103 annað en lagt var upp með. Þess vegna þarfnast heilbrigð og lýðræðisleg stjórnmál þess að vera ekki aðeins vettvangur samninga og hagsmunaárekstra, heldur einnig og ekki síður vettvangur gagnrýninnar umræðu um grunngildi, þjóðerni, siðferðileg og trúarleg gildi, lífsgildi þar með talin.