Ættfræði
Ættfræði (einnig kölluð ættvísi eða ættspeki og stundum „mannfræði“) er sú fræðigrein sem fjallar um skyldleika fólks, forfeður og afkomendur. Fræðigreinin er mjög forn og hefur meðal annars skipt máli vegna erfðaréttar, hefndarskyldu, göfgi og annars sem fólki þykir/þótti skipta máli. Nú til dags skiptir hún mjög miklu máli vegna rannsókna á erfðasjúkdómum. Ættfræði hefur stundum verið nefnd móðir sagnfræðinnar. [1]
Í upphafsorðum Íslendingabókar, elsta sagnarits á íslensku, segir Ari fróði Þorgilsson að í frumdrögum bókarinnar hafi hann ritað „áttartölu ok konunga ævi“, og í lok bókarinnar er yfirlit þar sem Ari rekur ættir íslenskra biskupa, og einnig sína eigin ætt í þrítugasta og sjötta ættlið frá Yngva Tyrkjakonungi.
Niðjatöl eru yfirlit yfir afkomendur fólks. Áatöl eru yfirlit yfir forfeður og formæður. Ættartré er myndræn uppsetning á ætt, þar sem fjölskyldur eru raktar yfir misjafnlega margar kynslóðir.