Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Beate Klarsfeld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Beate Klarsfeld
Fædd13. febrúar 1939 (1939-02-13) (85 ára)
ÞjóðerniÞýsk
StörfBlaðamaður, aðgerðasinni
MakiSerge Klarsfeld (g. 1963)
Börn2

Beate Klarsfeld, fædd undir nafninu Beate Auguste Künzel (13. febrúar 1939) er þýskur blaðamaður sem varð fræg á 20. öld fyrir að vinna ásamt eiginmanni sínum, Serge Klarsfeld, að því að rannsaka og afhjúpa stríðsglæpamenn úr röðum nasista.

Klarsfeld vakti athygli vegna harðrar andstöðu sinnar gegn gömlum nasistum sem reyndu að sitja áfram í valdastöðum í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöldina. Á flokksþingi Kristilega demókrataflokksins þann 7. nóvember árið 1968 löðrungaði hún kanslara Þýskalands, Kurt Georg Kiesinger, og kallaði hann nasista.[1] Næst beindi hún spjótum sínum gegn Ernst Achenbach, sem var þá þingmaður á þýska ríkisþinginu en hafði verið nasisti til ársins 1945 og hafði átt þátt í því að safna saman og flytja Gyðinga frá Frakklandi í útrýmingarbúðir.[2][3] Þýsk stjórnvöld hugðust útnefna Achenbach í framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins en útnefning hans var dregin til baka eftir að Klarsfeld vakti athygli á máli hans. Aðgerðir Klarsfeld settu sterkan svip á þýskt stjórnmálalíf á sjöunda og áttunda áratuginum.

Ásamt frönskum eiginmanni sínum, Serge, benti Klarsfeld í blaðagreinum og á mótmælasamkomum á fyrrum nasista sem gengu frjálsir í Þýskalandi þrátt fyrir að hafa verið dæmdir sekir fyrir stríðsglæpi af frönskum dómstólum. Meðal gömlu nasistanna sem hún benti á voru:

  • Kurt Lischka, liðsmaður SS-sveitanna sem hafði safnað saman Gyðingum í París í júlí árið 1942. Árið 1971 reyndi Klarsfeld að ræna Lischka og flytja hann til Frakklands svo hægt yrði að rétta yfir honum þar. Henni mistókst ætlunarverkið og var dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir uppátækið.[4]
  • Herbert Hagen, skipuleggjandi sem hafði unnið við gerð áróðurs gegn Gyðingum fyrir SS-sveitirnar og staðið fyrir útflutningi Gyðinga frá Bordeaux í janúar árið 1942.
  • Klaus Barbie, leiðtogi Gestapo í Lyon sem hafði skipað flutning 44 barna af Gyðingaættum í útrýmingarbúðir í Izieu.

Með stuðningi Alþjóðaráðs gyðinga stofnaði Klarsfeld Beate Klarsfeld-stofnunina og tók þátt í ýmsum aðgerðum til að halda minningunni um Helförina á lofti. Hún var lýst riddari frönsku heiðursorðunnar árið 1984 og var sæmd riddaraorðu frönsku heiðursfylkingarinnar árið 2007[5] af Jacques Chirac Frakklandsforseta. Hún hlaut riddarakross frönsku heiðursorðunnar í maí árið 2011.[6]

Í febrúar árið 2012 studdi þýski Vinstriflokkurinn framboð Klarsfeld í embætti forseta Þýskalands.[7] Hún tapaði fyrir prestinum og mannréttindafrömuðinum Joachim Gauck, sem hlaut 991 atkvæði á sambandsþinginu en Klarsfeld aðeins 126.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Fyrst sló hún kanzlarann... -nú býður hún sig fram gegn honum“. Alþýðublaðið. 20. maí 1969. Sótt 13. maí 2019.
  2. „Zeitungsartikel zur Bürobesetzung am 4“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. maí 2019. Sótt 13. maí 2019.
  3. „Achenbach – Hinn svarti sauður Bonn-stjórnar“. Alþýðublaðið. 2. ágúst 1974. Sótt 13. maí 2019.
  4. „Beate Klarsfeld dæmd í tveggja mánaða fangelsi“. Þjóðviljinn. 13. júlí 1974. Sótt 13. maí 2019.
  5. Journal officiel n° 84 du 8 avril 2007, page 6583
  6. Decret du 13 mai 2011. J.O. du 15 mai 2011.
  7. „Nasistaveiðarinn sem löðrungaði kanslarann“. Morgunblaðið. 4. mars 2012. Sótt 13. maí 2019.
  8. Entscheidung in Berlin – Joachim Gauck ist Bundespräsident In: Spiegel Online, bls. 18.