Jacques Chirac
Jacques Chirac | |
---|---|
Forseti Frakklands | |
Í embætti 17. maí 1995 – 16. maí 2007 | |
Forsætisráðherra | Alain Juppé Lionel Jospin Jean-Pierre Raffarin Dominique de Villepin |
Forveri | François Mitterrand |
Eftirmaður | Nicolas Sarkozy |
Forsætisráðherra Frakklands | |
Í embætti 27. maí 1974 – 26. ágúst 1976 | |
Forseti | Valéry Giscard d'Estaing |
Forveri | Pierre Messmer |
Eftirmaður | Raymond Barre |
Í embætti 20. mars 1986 – 10. maí 1988 | |
Forseti | François Mitterrand |
Forveri | Laurent Fabius |
Eftirmaður | Michel Rocard |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. nóvember 1932 París, Frakklandi |
Látinn | 26. september 2019 (86 ára) París, Frakklandi |
Maki | Bernadette de Courcel (g. 1956) |
Börn | Laurence, Claude |
Háskóli | Institut d'études politiques de Paris École nationale d'administration |
Undirskrift |
Jacques René Chirac (29. nóvember 1932 – 26. september 2019[1]) var franskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forseti Frakklands. Hann var kosinn í embætti árið 1995 og aftur 2002 en síðara kjörtímabil hans rann út árið 2007. Í krafti embættis síns var hann einnig meðfursti Andorra og stórmeistari Frönsku heiðursfylkingarinnar. Áður var Chirac borgarstjóri Parísar 1977 til 1995 auk þess að gegna embætti forsætisráðherra tvívegis; fyrst 1974 til 1976[2] og aftur 1986 til 1988. Áður en hann náði kjöri sem forseti hafði Chirac boðið sig fram án árangurs í forsetakosningunum árin 1981 og 1988.
Chirac sigraði frambjóðanda Sósíalistaflokksins, Lionel Jospin, í forsetakosningunum árið 1995.[3] Í byrjun forsetatíðar sinnar viðurkenndi Chirac ábyrgð og þátttöku franskra stjórnvalda í Vichy-stjórninni í ofsóknum á gyðingum á meðan á þýska hernáminu stóð í seinni heimsstyrjöldinni.[4] Hann neyddist síðar til að hefja stjórnarsamband við sósíalistana og gera Jospin að forsætisráðherra eftir ósigur hægrimanna í þingkosningum árið 1997. Á kjörtímabilinu var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingar þar sem kjörtímbabil forsetans var stytt úr sjö árum í fimm. Chirac vann endurkjör til forseta árið 2002 í seinni umferð með 82,2 % atkvæða á móti Jean-Marie Le Pen, frambjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar. Þetta er enn í dag stærsti kosningasigur sem unninn hefur verið í forsetakosningum fimmta franska lýðveldisins. Á seinna kjörtímabili Chirac fóru vinsældir hans nokkuð dalandi en jukust á ný þegar Chirac neitaði að taka þátt í Íraksstríðinu fyrir hönd Frakklands.[5] Hann mælti einnig fyrir því í atkvæðagreiðslu að ný stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið yrði samþykkt en hún var að endingu felld. Chirac sóttist ekki eftir þriðja kjörtímabili og settist í helgan stein þegar kjörtímabilinu lauk árið 2007.
Sem fyrrverandi forseti fékk Chirac síðan sæti á stjórnlagaþingi Frakklands og sat þar til ársins 2011, en þá sagði hann sig úr því af heilsufarsástæðum. Í desember sama ár var Chirac dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar vegna spillingarmála sem komu upp frá borgarstjóratíð hans í París.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (26. september 2019). „Jacques Chirac látinn“. RÚV. Sótt 26. september 2019.
- ↑ „Jacques Chirac“. Þjóðviljinn. 23. mars 1986. bls. 5.
- ↑ Steingrímur Sigurgeirsson (9. maí 1995). „Allt er þegar þrennt er“. Morgunblaðið. bls. 16-17.
- ↑ „Chirac viðurkennir aðild Frakka að helförinni“. mbl.is. 19. júlí 1995.
- ↑ „Vinsælastur í Bagdad“. Fréttablaðið. 5. október 2003. bls. 24.
- ↑ „Jacques Chirac fær tveggja ára dóm“. Vísir. 16. desember 2011.
Fyrirrennari: Pierre Messmer |
|
Eftirmaður: Raymond Barre | |||
Fyrirrennari: — |
|
Eftirmaður: Jean Tiberi | |||
Fyrirrennari: Laurent Fabius |
|
Eftirmaður: Michel Rocard | |||
Fyrirrennari: François Mitterrand |
|
Eftirmaður: Nicolas Sarkozy |