Elihu Root
Elihu Root | |
---|---|
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna | |
Í embætti 19. júlí 1905 – 27. janúar 1909 | |
Forseti | Theodore Roosevelt |
Forveri | John Hay |
Eftirmaður | Robert Bacon |
Stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna | |
Í embætti 1. ágúst 1899 – 31. janúar 1904 | |
Forseti | William McKinley Theodore Roosevelt |
Forveri | Russell A. Alger |
Eftirmaður | William Howard Taft |
Öldungadeildarþingmaður fyrir New York | |
Í embætti 4. mars 1909 – 3. mars 1915 | |
Forveri | Thomas C. Platt |
Eftirmaður | James Wadsworth |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 15. febrúar 1845 Clinton, New York, Bandaríkjunum |
Látinn | 7. febrúar 1937 (91 árs) New York, New York, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Repúblikanaflokkurinn |
Maki | Clara Wales |
Háskóli | Hamilton-háskóli New York-háskóli |
Atvinna | Stjórnmálamaður |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1912) |
Undirskrift |
Elihu Root (15. febrúar 1845 – 7. febrúar 1937) var bandarískur lögfræðingur og stjórnmálamaður úr Repúblikanaflokknum. Hann var utanríkisráðherra Bandaríkjanna á forsetatíð Theodores Roosevelt og þar áður stríðsmálaráðherra í ríkisstjórnum Roosevelts og forvera hans, Williams McKinley. Root hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1912 fyrir sáttagerðir sínar í ýmsum milliríkjadeilum, meðal annars landamæradeilu Breta og Bandaríkjamanna um mörk Alaska og Kanada.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Elihu Root fæddist þann 15. febrúar árið 1845 í þorpinu Clinton í New York-fylki. Eftir að hafa lokið grunnskólanámi gekk Root í Hamilton-háskóla í þorpinu, þar sem faðir hans vann sem stærðfræðiprófessor. Hann gekk síðan í lagadeild New York-háskóla og útskrifaðist þaðan árið 1867.[1]
Root hóf þátttöku í stjórnmálum þegar Chester A. Arthur Bandaríkjaforseti útnefndi hann ríkissaksóknara í suðurlögdæmi New York. Árið 1899 varð Root stríðsmálaráðherra í ríkisstjórn Williams McKinley forseta. Hann hélt ráðherraembættinu eftir að McKinley var myrtur árið 1901 og Theodore Roosevelt tók við forsetaembættinu. Root kom á breytingum á skipulagi stríðsmálaráðuneytisins, meðal annars með því að breyta stöðuhækkunarferlum og skipuleggja skóladeildir fyrir sérsveitir innan hersins. Root sá einnig um skipulagsmál landsvæða sem Bandaríkin höfðu unnið í stríði Spánar og Bandaríkjanna. Meðal annars hóf hann skipulagningu á ferli til að færa stjórn Kúbu í hendur Kúbverja, setti nýja stjórnarskrá í Filippseyjum og felldi niður innflutningstolla til Bandaríkjanna frá Púertó Ríkó. Þegar samtök andheimsvaldasinna gagnrýndu stríð Bandaríkjanna gegn uppreisnarmönnum á Filippseyjum varði Root stefnu stjórnarinnar og sakaði andheimsvaldasinnana um að draga átökin á langinn með því að mótmæla henni.[2]
Árið 1903 sat Root í samninganefnd Bandaríkjamanna í viðræðum við Breta um landamæradeilur milli Alaska og Kanada.[3]
Root sagði upp ráðherraembætti sínu árið 1904 til að snúa sér að lögmannsstörfum í einkageiranum en tók aftur sæti í stjórninni næsta ár þegar Roosevelt forseti útnefndi hann utanríkisráðherra í kjölfar dauða Johns Hay. Sem utanríkisráðherra gerði Root samning við Japan þar sem ríkin tvö viðurkenndu landsvæði hvors annars í Asíu og á Kyrrahafi og Japanir féllust á að takmarka aðflutning fólks til Bandaríkjanna.[4] Root stóð fyrir 24 tvíhliða samningum sem skuldbundu Bandaríkin og aðra samningsaðila til að leysa úr milliríkjadeilum á friðsaman hátt. Þessir samningar leiddu til stofnunar Alþjóðadómstólsins í Haag.[5][6]
Árið 1909 var Root kjörinn á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir New York-fylki. Sem þingmaður studdi hann lagningu tekjuskatts árið 1910 í opnu bréfi í The New York Times.[7] Tekjuskatturinn hafði verið heimilaður með sextánda viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna árið 1909.
Root lét af þingmennsku árið 1914. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út sama ár kallaði Root eftir inngripi Bandaríkjanna í stríðið og gagnrýndi hlutleysisstefnu Woodrows Wilson forseta. Root studdi inngöngu Bandaríkjanna í stríðið árið 1917 og fór í júní sama ár til Rússlands á vegum Bandaríkjastjórnar til að semja við byltingarstjórn Aleksandrs Kerenskij um lán frá Bandaríkjunum. Root ítrekaði fyrir Rússum að þeir myndu ekki fá lán nema þeir héldu áfram að berjast í stríðinu.[8] Þetta hvatti Kerenskij til að hleypa af stokkunum nýju áhlaupi gegn Austurríkismönnum í júlí 1917. Áhlaupið fór út um þúfur og átti sinn þátt í því að vinsældir stjórnar hans döluðu og að bolsévikum tókst að steypa henni af stóli í októberbyltingunni sama ár.[9]
Root var forseti Friðarstofnunar Carnegies frá 1910 til 1925. Root lést árið 1937 og var þá síðasti eftirlifandi meðlimur úr ríkisstjórn Williams McKinley.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Constitutional Conservatives in the Progressive Era: Elihu Root, William Howard Taft, and Henry Cabot Lodge, Sr“ (enska). The Heritage Foundation. 15. febrúar 2013. Sótt 22. apríl 2020.
- ↑ James R. Arnold (2011). The Moro War: How America Battled a Muslim Insurgency in the Philippine Jungle, 1902–1913. Bloomsbury Publishing. bls. 171–72. ISBN 9781608193653.
- ↑ Keenlyside, Hugh L. L.; Brown, Gerald S. (1952). Canada and the United States: Some Aspects of Their Historical Relations. Alfred A. Knopf. bls. 178–189. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. september 2020. Sótt 22. apríl 2020.
- ↑ Gould, Lewis L. (1992). The Presidency of Theodore Roosevelt. University Press of Kansas. bls. 268. ISBN 0-7006-0565-7.
- ↑ Cross, Graham (2012). The Diplomatic Education of Franklin D. Roosevelt, 1882-1933. New York, NY: Palgrave Macmillan. bls. 71. ISBN 978-1-137-01453-5.
- ↑ Muccigrosso, ed., Research Guide to American Historical Biography (1988) 3:1330
- ↑ "Root For Adoption of Tax Amendment," New York Times, 1. mars 1910
- ↑ David Mayers (1997). The Ambassadors and America's Soviet Policy. Oxford University Press. bls. 77. ISBN 9780195115765.
- ↑ Ralph Buultjens (7. nóvember 1984). „U.S. 'AID' TO THE BOLSHEVIKS“ (enska). The New York Times. Sótt 22. apríl 2020.
Fyrirrennari: Russell A. Alger |
|
Eftirmaður: William Howard Taft | |||
Fyrirrennari: John Hay |
|
Eftirmaður: Robert Bacon |