Philip Noel-Baker
Philip Noel-Baker | |
---|---|
Eldsneytis- og orkumálaráðherra Bretlands | |
Í embætti 15. febrúar 1950 – 31. október 1951 | |
Forsætisráðherra | Clement Attlee |
Forveri | Hugh Gaitskell |
Eftirmaður | Enginn |
Samveldismálaráðherra Bretlands | |
Í embætti 7. október 1947 – 28. febrúar 1950 | |
Forsætisráðherra | Clement Attlee |
Forveri | Addison vísigreifi |
Eftirmaður | Patrick Gordon Walker |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 1. nóvember 1889 London, Bretlandi |
Látinn | 8. október 1982 (92 ára) Westminster, Bretlandi |
Þjóðerni | Breskur |
Stjórnmálaflokkur | Verkamannaflokkurinn |
Trúarbrögð | Kvekari |
Háskóli | Haverford-háskóli King's College, Cambridge |
Atvinna | Stjórnmálamaður |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1959) |
Philip John Noel-Baker (1. nóvember 1889 – 8. október 1982) var breskur stjórnmálamaður, ríkiserindreki, fræðimaður, áhugaíþróttamaður og baráttumaður fyrir kjarnorkuafvopnun. Hann bar breska liðsfánann og vann silfurorðu í 1.500 metra hlaupi í Sumarólympíuleikunum 1920 í Antwerpen. Noel-Baker vann friðarverðlaun Nóbels árið 1959.[1] Hann er eina manneskjan sem hefur unnið bæði til Ólympíuverðlauna og Nóbelsverðlauna.[2]
Noel-Baker sat á breska þinginu fyrir Verkamannaflokkinn frá 1929 til 1931 og frá 1936 til 1970. Á þeim tíma vann hann í ýmsum ráðuneytum og sat nokkrum sinnum í ríkisstjórn. Hann var sæmdur barónstign árið 1977.
Uppvöxtur og íþróttaferill
[breyta | breyta frumkóða]Philip Baker fæddist í Brondesbury Park í Lundúnum[3] og var sá sjötti af sjö börnum kanadískættaða kvekarans Josephs Allen Baker og hinnar skosku Elizabeth Balmer Moscrip. Faðir hans hafði flutt til Englands árið 1876 til þess að starfa í framleiðsluiðnaði og hafði setið í borgarráði Lundúna frá 1895 til 1906 fyrir Framfaraflokkinn og á neðri deild breska þingsins fyrir Frjálslynda flokkinn í kjördæminu Austur-Finsbury frá 1905 til 1918.
Baker nam við Ackworth-skóla, Bootham-skóla og síðan í Bandaríkjunum við Haverford-háskóla í Pennsylvaníu, sem er rekinn af kvekurum. Hann sótti síðan framhaldsnám í Konungsháskólanum í Cambridge frá 1908 til 1912. Baker þótti afburðanemandi og var auk þess forseti rökræðufélags skólans árið 1912 og forseti íþróttaklúbbsins frá 1910 til 1912.[3]
Baker keppti í Ólympíuleikunum sem hlaupari bæði fyrir og eftir fyrri heimsstyrjöldina. Hann keppti fyrir hönd Bretlands bæði í 800 metra og 1500 metra hlaupi á Sumarólympíuleikunum 1912 í Stokkhólmi. Hann komst í úrslit í 1500 metra hlaupinu en vann ekki til verðlauna. Á Sumarólympíuleikunum 1920 var Baker fyrirliði breska hlaupaliðsins og bar fána þess. Hann vann fyrsta 800 metra hlaupið en einbeitti sér síðan að 1500 metra hlaupinu og vann til silfurverðlauna.[4] Baker var aftur fyrirliði á Sumarólympíuleikunum 1924 í París en keppti ekki sjálfur.[3]
Í byrjun ferils síns einbeitti Baker sér að fræðastörfum. Hann var útnefndur varaskólastjóri Ruskin-háskóla í Oxford árið 1914 og var kjörinn fræðimaður við Konungsháskólann í Cambridge næsta ár.[3] Í fyrri heimsstyrjöldinni skipulagði hann og stýrði sjálfboðasjúkradeild ásamt breska kvekarasöfnuðinum sem fylgdi hersveitunum í Frakklandi frá 1914 til 1915. Hann var undanþeginn herskyldu af samviskuástæðum en vann sem aðjútant með breskri sjúkradeild Rauða krossins á Ítalíu frá 1915 til 1918. Hann hlaut heiðursmerki frá Bretlandi, Frakklandi og Ítalíu fyrir frammistöðu sína.[4]
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Eftir fyrri heimsstyrjöldina tók Noel-Baker þátt í stofnun Þjóðabandalagsins. Hann vann sem aðstoðarmaður Roberts Cecil lávarðar og síðan sem aðstoðarmaður Erics Drummond, fyrsta aðalritara bandalagsins. Noel-Baker varð prófessor í alþjóðasamskiptum við Lundúnaháskóla frá 1924 til 1929[5] og fyrirlesari við Yale-háskóla frá 1933 til 1934. Hann hóf stjórnmálaferil í Verkamannaflokknum árið 1924 þegar hann bauð sig án árangurs fram á breska þingið í kjördæminu Birmingham Handsworth. Noel-Baker náði kjöri á breska þingið árið 1929 í kjördæminu Coventry og vann sem einkaþingritari utanríkisráðherrans Arthurs Henderson.[6]
Noel-Baker datt út af þingi árið 1931 en vann áfram sem aðstoðarmaður Hendersons á meðan Henderson stýrði Alþjóðlegu afvopnunarráðstefnunni í Genf á árunum 1932 til 1933. Hann bauð sig aftur fram á þing í Coventry-kjördæmi árið 1936 án árangurs en náði kjöri í aukakosningum í Derby í júlí sama ár. Þegar Derby kjördæmi var skipt í tvennt árið 1950 varð Noel-Baker þingmaður kjördæmisins Suður-Derby.
Noel-Baker gekk í framkvæmdanefnd Verkamannaflokksins árið 1937. Þann 21. júní 1938, í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar, flutti hann ræðu í neðri málstofu breska þingsins þar sem hann mótmælti því að gerðar yrðu loftárásir á þýskar borgir og sagði: „Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir voðaverk úr lofti er að binda enda á lofthernað og leysa flugheri alfarið upp.“[7]
Noel-Baker vann sem þingritari í herflutningaráðuneytinu í þjóðstjórn Bretlands á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þegar Verkamannaflokkurinn myndaði meirihlutastjórn eftir kosningar árið 1945 varð Noel-Baker ráðherra utanríkismálefna en átti í stirðu sambandi við utanríkisráðherrann Ernest Bevin. Noel-Baker varð flugmálaráðherra bresku ríkisstjórnarinnar í október árið 1947.[8]
Noel-Baker sá um að skipuleggja Sumarólympíuleikana 1948 í London. Hann varð eldsneytis- og orkumálaráðherra árið 1950. Á miðjum fimmta áratugnum var Noel-Baker í sendinefnd Bretlands í því sem varð síðar að Sameinuðu þjóðunum. Hann tók þátt í að semja drög að stofnsamningi Sameinuðu þjóðanna og aðrar meginreglur samtakanna. Noel-Baker vann sem formaður framkvæmdastjórnar Verkamannaflokksins frá 1946 til 1947 en datt út úr framkvæmdanefnd flokksins árið 1948.[9]
Á sjötta áratugnum var Noel-Baker ötull andstæðingur róttækari arms Verkamannaflokksins og talaði fyrir tvíhliða kjarnorkuafvopnun frekar en einhliða afvopnun. Noel-Baker vann friðarverðlaun Nóbels árið 1959 fyrir störf sín. Árið 1979 stofnaði hann ásamt Fenner Brockway Alþjóðlegu afvopnunarherferðina og var meðformaður hennar þar til hann lést.[10][11] Noel-Baker var virkur í afvopnunarhreyfingum fram á níunda áratuginn.
Noel-Baker lét af þingmennsku eftir þingkosningar árið 1970. Hann var aðlaður árið 1977 og hlaut barónstign þann 22. júlí sama ár. Noel-Baker var forseti Alþjóðasamtaka um íþróttavísindi frá 1960 til 1976.[3]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Í júní árið 1915 kvæntist Philip Baker Irene Noel, hjúkrunarfræðingi í East Grinstead. Hann tók þaðan af upp nafnið Noel-Baker frá árinu 1921. Eiginkona hans var vinkona Virginiu Woolf. Einkasonur þeirra, Francis Noel-Baker, varð einnig þingmaður fyrir Verkamannaflokkinn og sat um hríð á neðri deild þingsins ásamt föður sínum. Hjónaband þeirra Irene var ekki farsælt og frá árinu 1936 átti Noel-Baker í ástarsambandi við Megan Lloyd George, dóttur fyrrum forsætisráðherrans Davids Lloyd George. Megan sat einnig á þingi, fyrst fyrir Frjálslynda flokkinn og síðar fyrir Verkamannaflokkinn. Sambandi þeirra lauk þegar Irene lést árið 1956.
Eftir að Noel-Baker lést í Westminster árið 1982 var hann grafinn í Heyshott í Vestur-Sussex við hlið konu sinnar.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Philip Noel-Baker; The Nobel Peace Prize 1959“. Nobelprize.org. The Nobel Foundation. Sótt 21. október 2008.
- ↑ "Olympic Games trivia for pedants" Geymt 9 ágúst 2012 í Wayback Machine, Canberra Times, 2 August 2012.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 David Howell, "Baker, Philip John Noel-, Baron Noel-Baker (1889–1982)", Oxford Dictionary of National Biography, Oxford University Press, 2004; online edn, May 2012; accessed 7 December 2014.
- ↑ 4,0 4,1 Philip Baker Geymt 17 apríl 2020 í Wayback Machine. sports-reference.com
- ↑ „Lord Philip Noel-Baker, Nobel Prize Winner“. London School of Economics. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. desember 2008. Sótt 5. maí 2009.
- ↑ Noel-Baker, Philip (1925). The Geneva Protocol for the Pacific Settlement of International Disputes. London: P.S. King & Son Ltd.
- ↑ P.J. Noel-Baker comments on air warfare, ww2db.com; accessed 7 December 2014.
- ↑ „New Ministers at Palace“. Derby Daily Telegraph. 14. október 1947. Sótt 2. nóvember 2015 – gegnum British Newspaper Archive.
- ↑ „NOEL-BAKER DROPPED“. Gloucester Echo. 18. maí 1948. Sótt 2. nóvember 2015 – gegnum British Newspaper Archive.
- ↑ Nobel Committee information on Noel-Baker Geymt 26 maí 2013 í Wayback Machine, nobelprize.org; accessed 7 December 2014.
- ↑ Whittaker, David J. (1989). Fighter for peace: Philip Noel-Baker 1889–1982. York: Sessions. ISBN 1-85072-056-8.