Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Hróarskeldusáttmálinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort sem sýnir þau lönd sem Svíar fengu með Hróarskeldusáttmálanum

██ Borgundarhólmur og Þrændalög

██ Halland

██ Bohuslän og Skánn

Hróarskeldusáttmálinn var friðarsamningur milli Danmerkur og Svíþjóðar gerður í Hróarskeldu 26. febrúar 1658 eftir afgerandi ósigur Dana í Svíastríðunum. Með sáttmálanum fengu Svíar endanleg yfirráð yfir Bohuslän (sem áður hafði tilheyrt Noregi), Hallandi, Skáni og Blekinge, auk Þrændalaga og Borgundarhólms. Með samningnum fengu Svíar loks yfirráð yfir suðurhluta Gautlands sem þeir hafa enn í dag og náttúruleg landamæri í suðri.

17. júlí sama ár réðist Karl Gústaf X aftur inn í Danmörku með það að augnmiði að leggja hana alla undir sig. Hann settist um Kaupmannahöfn en íbúar borgarinnar vörðust hetjulega og náðu að halda umsátrið nógu lengi út til að hollenski flotinn næði að koma þeim til bjargar og sigra sænska flotann í orrustunni um Eyrarsund 8. nóvember. 1659 var afgangurinn af Danmörku smám saman leystur undan yfirráðum Svía með aðstoð Hollendinga og 1660 var undirritaður Kaupmannahafnarsáttmálinn sem gaf Dönum aftur Þrændalög (sem gert höfðu uppreisn gegn Svíum) og Borgundarhólm.