Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna
Коммунистическая партия Советского Союза
Leiðtogi Vladímír Lenín
Jósef Stalín
Georgíj Malenkov
Níkíta Khrústsjov
Leoníd Brezhnev
Júríj Andropov
Konstantín Tsjernenko
Míkhaíl Gorbatsjov
Stofnár 1912; fyrir 112 árum (1912)
Stofnandi Vladímír Lenín
Lagt niður 1991; fyrir 33 árum (1991)
Höfuðstöðvar Moskva
Félagatal 19 milljónir (1986)
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Kommúnismi, marx-lenínismi
Einkennislitur Rauður  

Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna var stofnflokkur og stjórnarflokkur Sovétríkjanna. Ríkið var flokksræði Kommúnistaflokksins til ársins 1990, en þá samþykkti Æðstaráð Sovétríkjanna breytingar á 6. gr. sovésku stjórnarskrárinnar, sem hafði tryggt Kommúnistaflokknum einokun á stjórnmálakerfinu.

Flokkurinn var stofnaður árið 1912 af bolsévikum, meirihlutahópi undir forystu Vladímírs Lenín sem hafði klofnað úr Sósíaldemókrataflokki Rússlands og sölsað undir sig völd í Rússlandi í októberbyltingunni árið 1917. Flokkurinn var leystur upp 74 árum síðar, þann 29. ágúst árið 1991, stuttu eftir misheppnaða valdaránstilraun harðlínumanna gegn stjórn Míkhaíls Gorbatsjov, aðalritara Kommúnistaflokksins og forseta Sovétríkjanna. Flokkurinn var alfarið bannaður þremur mánuðum síðar þann 6. nóvember 1991.

Flokkurinn var kommúnistaflokkur sem var að nafninu til skipulagður á grundvelli „lýðræðislegrar miðstýringar“. Meginreglan um lýðræðislega miðstýringu, sem Lenín hafði þróað, fól í sér lýðræðislegar og opnar umræður um flokksstefnu innan Kommúnistaflokksins og kröfu um einróma samheldni um samþykkt stefnumál. Æðsta stofnunin innan flokksins var flokksþingið, sem kom saman á fimm ára fresti. Þegar flokksþingið sat ekki var aðalnefndin æðsta stofnun flokksins. Þar sem aðalnefndin hittist aðeins tvisvar á ári voru flestar ákvarðanir dagsdaglega teknar af stjórnmálanefndinni, ritararáðinu og skipulagsráðinu (til ársins 1952). Flokksleiðtoginn var ríkisstjórnarleiðtogi Sovétríkjanna og var ýmist aðalritari flokksins, forsætisráðherra landsins eða þjóðhöfðingi þess (en aldrei allt þrennt í senn). Flokksleiðtoginn var í reynd formaður stjórnmálanefndarinnar og æðsti handhafi framkvæmdavaldsins í Sovétríkjunum. Aldrei tókst formlega að leysa úr togstreitu milli flokksins og ríkisins (ráðherraráðs Sovétríkjanna) um dreifingu ríkisvaldsins, en í reynd var flokkurinn ávallt ofan á og völdin söfnuðust jafnan í höndum eins flokksleiðtoga (fyrst Leníns og síðan aðalritaranna).

Eftir stofnun Sovétríkjanna árið 1922 kynnti Lenín til sögunnar blandað hagkerfi sem gjarnan var kallað „nýja efnahagsstefnan“ og gerði ráð fyrir því að sumum kapítalískum efnahagsaðferðum yrði viðhaldið undir stjórn flokksins til þess að hægt yrði að þróa skilyrðin fyrir sósíalisma í efnahagslega vanþróuðu landinu. Þegar Jósef Stalín varð leiðtogi flokksins árið 1929 var marx-lenínismi, blanda af upprunalegum hugmyndum Leníns og þýska hugsuðarins Karls Marx, formlega viðurkenndur sem hugmyndafræði flokksins. Við það sat það sem eftir var af tilveru flokksins. Flokkurinn rak ríkissósíalisma þar sem allur iðnaður var þjóðnýttur og stofnað var til tilskipanahagkerfis. Eftir seinni heimsstyrjöldina kom Níkíta Khrústsjov á umbótum sem drógu úr miðstýringu efnahagskerfisins og gerðu sovéskt samfélag frjálslyndara. Þegar kom á níunda áratuginn höfðu ýmsir þættir, þar á meðal kalda stríðið, kjarnorkukapphlaupið gegn Bandaríkjunum og óleystir vankantar á efnahagskerfinu, leitt til efnahagsstöðnunar á stjórnartíð Leoníds Brezhnev. Eftir að Míkhaíl Gorbatsjov tók við stjórnartaumunum árið 1985 var reynt að umbreyta sovéska efnahagskerfinu í átt að markaðshagkerfi á ný. Gorbatsjov og bandamenn hans sáu fyrir sér að hagkerfi svipað hinni „nýju efnahagsstefnu“ Leníns yrði byggt upp með stefnunni perestrojka, eða endurskipulagningu. Umbæturnar og innleiðing frjálsra kosninga leiddu hins vegar fyrir að völd Kommúnistaflokksins dvínuðu og að eftir upplausn Sovétríkjanna var flokkurinn að endingu bannaður að undirlagi Borisar Jeltsín, fyrsta forseta rússneska sambandslýðveldisins.

Ýmsir þættir leiddu til þess að Kommúnistaflokkurinn missti tökin og að Sovétríkin hrundu snemma á tíunda áratuginum. Sumir sagnfræðingar telja að stefna Gorbatsjovs um glasnost (pólitískt gagnsæi) hafi verið helsta orsökin og að hún hafi dregið úr stjórn flokksins á sovésku samfélagi. Gorbatsjov taldi sjálfur að perestrojka án glasnosts gæti ekki haft tilætluð áhrif. Aðrir hafa kennt efnahagsstöðnun og almennum vonbrigðum alþýðunnar með kommúníska hugmyndafræði um. Á síðustu árum Kommúnistaflokksins voru héraðsflokkar í stjórnsýslueiningum Rússlands sameinaðir í Kommúnistaflokk rússneska sovétlýðveldisins. Eftir að Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna var leystur upp urðu kommúnistaflokkar hinna sovétlýðveldanna sjálfstæðir og gerðu margvíslegar breytingar á starfsemi sinni. Í Rússlandi varð til Kommúnistaflokkur rússneska sambandsríkisins, sem er gjarnan talinn arftaki bolsévikaarfleifðar gamla Kommúnistaflokksins í dag.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Справочник по истории Коммунистической партии и Советского Союза 1898 - 1991“ [Handbók um sögu Kommúnistaflokksins og Sovétríkjanna 1898 - 1991]. Knowbysight.info (rússneska). 4. febrúar 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. september 2014. Sótt 3. júní 2020.