Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Simone Veil

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Simone Veil
Simone Veil árið 1982.
Heilbrigðisráðherra Frakklands
Í embætti
28. maí 1974 – 4. júlí 1979
ForsetiValéry Giscard d'Estaing
ForsætisráðherraJacques Chirac
Raymond Barre
ForveriMichel Poniatowski
EftirmaðurJacques Barrot
Í embætti
30. mars 1993 – 11. maí 1995
ForsetiFrançois Mitterrand
ForsætisráðherraÉdouard Balladur
ForveriBernard Kouchner
EftirmaðurÉlisabeth Hubert
Forseti Evrópuþingsins
Í embætti
17. júlí 1979 – 18. janúar 1982
ForveriEmilio Colombo
EftirmaðurPiet Dankert
Persónulegar upplýsingar
Fædd13. júlí 1927
Nice, Frakklandi
Látin30. júní 2017 (89 ára) París, Frakklandi
MakiAntoine Veil (g. 1946; d. 2013)
Börn3
HáskóliÉcole nationale de la magistrature
Sciences Po
Parísarháskóli
VerðlaunKarlsverðlaunin (1981)
Undirskrift

Simone Veil Grand (f. Jacob; 13. júlí 1927 – 30. júní 2017) var frönsk stjórnmálakona sem gegndi embætti heilbrigðisráðherra á tveimur tímabilum og var forseti Evrópuþingsins frá 1979 til 1982, fyrst kvenna. Sem heilbrigðisráðherra var hún kunnur málsvari kvenréttinda, sér í lagi lagasetningar árið 1975 sem lögleiddi þungunarrof í Frakklandi. Lögin voru kennd við hana og kölluð Loi Veil. Frá 1998 til 2007 sat Veil í stjórnlagaráði Frakklands.

Simone Veil var af frönskum Gyðingaættum og faðir hennar var vel efnaður arkitekt. Á tíma helfararinnar, þegar Simone var sautján ára gömul, var hún send til Auschwitz-útrýmingarbúðanna ásamt fjölskyldu sinni og um 76 þúsund öðrum Gyðingum. Simone var sú eina úr fjölskyldu sinni sem lifði helförina af en hún bar brennimerkt fanganúmer á upphandleggnum það sem hún átti eftir ólifað.[1]

Simone Veil var látin laus eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og hafði þá verið í fangabúðunum í þrettán mánuði. Hún hóf nám í lögfræði og varð lögfræðingur en nam jafnframt stjórnmálafræði. Simone Veil hlaut stöðu í franska dómsmálaráðuneytinu og vann þar í mörg ár.[1]

Þegar Valéry Giscard d'Estaing varð forseti Frakklands árið 1974 fékk hann Simone Veil til þess að stýra svokallaðri „heilsubyltingu“. Veil varð heilbrigðis- og fjölskyldumálaráðherra í ríkisstjórn Jacques Chirac forsætisráðhera og talaði í því embætti fyrir lagasetningu sem heimilaði fóstureyðingar í Frakklandi.[2] Hún lagði jafnframt til að ríkið ætti að greiða 80% af kostnaði við þær. Veil sagðist sjálf vera á móti þungunarrofum en færði rök fyrir því að þau ættu rétt á sér í vissum aðstæðum og sagði því rangt að banna þau.[3] Franska þingið féllst á málatilbúnað hennar og samþykkti með 284 atkvæðum gegn 189 lagafrumvarp Veil um að gefa konum frjálst val um að láta rjúfa meðgöngu á fyrstu tíu vikum meðgöngutímans. Frakkland varð þar með fyrst kaþólskra ríkja til þess að heimila þungunarrof.[2]

Veil-lögin voru með þeim umdeildustu sem sett voru á stjórnartíð Giscard d'Estaing. Margir þingmenn stjórnarinnar greiddu atkvæði gegn henni og í beinni sjónvarpsútsendingu sakaði einn andstæðingur frumvarpsins Veil um að koma með aðferðir nasista til Frakklands og „færa börnin í ofnana“. Veil, sem hafði sjálf lifað af helförina, sagðist ekki geta leyft slíkar athugasemdir og fékk þær ómerktar og teknar úr þingskrám.[2]

Veil stóð fyrir öðrum róttækum lagafrumvörpum, meðal annars lögum um tólf vikna fæðingarorlof.[3] Hún auðveldaði frönskum konum jafnframt aðgang að getnaðarvörnum.[4] Í skoðanakönnunum mældist Veil vinsælasti ráðherra í ríkisstjórnum Giscards og hún hélt heilbrigðisráðuneytinu eftir að Raymond Barre tók við af Chirac sem forsætisráðherra 1976.[3]

Giscard valdi Veil sem oddvita flokkabandalags síns í fyrstu beinu kosningunum á Evrópuþingið sem haldnar voru árið 1979. Veil náði kjöri á þingið og sagði í kjölfarið upp ráðherraembætti sínu.[5] Hún var kosin forseti Evrópuþingsins og gegndi því embætti til ársins 1982.[1]

Simone Veil varð aftur heilbrigðisráðherra árið 1993 á forsetatíð François Mitterrand í stjórn Édouards Balladur forsætisráðherra.[6] Hún lét af embætti eftir að Jacques Chirac var kjörinn forseti árið 1995.

Veil lést árið 2017.[4] Hún var grafin í Panthéon-hvelfingunni í París.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 „Simone Veil – einn vinsælasti stjórnmálamaður Frakka“. Vikan. 3. júní 1982. bls. 29.
  2. 2,0 2,1 2,2 Jónas Haraldsson (31. mars 1978). „Skærasta stjarnan í frönskum stjórnmálum“. Dagblaðið. bls. 10–11.
  3. 3,0 3,1 3,2 Þórarinn Þórarinsson (24. september 1978). „Simone Veil er vinsælasti ráðherrann“. Tíminn. bls. 6.
  4. 4,0 4,1 Kristín Ólafsdóttir (30. júní 2017). „Franski kvenréttindafrömuðurinn Simone Veil látin“. Vísir. Sótt 13. október 2021.
  5. Haraldur Ólafsson (2. ágúst 1979). „Evrópuþingið og kosningarnar til þess“. Tíminn. bls. 6.
  6. „Décret n° 76 du 30 MARS 1993 RELATIF LA COMPOSITION DU GOUVERNEMENT“ (franska).
  7. „Veil grafin í Panthéon“. Morgunblaðið. 6. júlí 2017. bls. 16.