2/
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“
stjórnmálaþátttaka
– vandi róttækninnar
Ein dýpsta sannfæring lýðræðislegra stjórnmála er að við skilyrði lýðræðis
séu grundvallarstofnanir stjórnkerfisins byggðar upp á grundvelli skynsemi.
Þannig er kjarni lýðræðisins ekkert annað en hugsjón upplýsingarinnar: Að
skynsemi frekar en vald, duttlungar, geðþótti eða einkahagsmunir ráði
ákvörðunum og aðgerðum. Lýðræði er í þessum skilningi hinn pólitíski
vettvangur skynseminnar og á slíkum vettvangi er hægt að takast á um allt
frá grunngildum til stefnumála. Þar er líka hægt að takast á um hverju og
hverjum eigi að hleypa inn á hinn pólitíska vettvang, en það er spurningin
sem ég ætla að fjalla um í þessari grein.
Í ljósi þessarar hugmyndar um lýðræði er réttlæting lýðræðislegra
stofnana siðferðilegs eðlis. Séu þær lýðræðislega uppbyggðar er gefið að
þær séu réttlátar í eðli sínu. Andóf gegn þeim hlýtur því að miðast við það
og beinast að starfsemi þeirra frekar en eðli. Þannig eru róttækni takmörk
sett í lýðræðislegu samfélagi. Þess er krafist að þjóðfélagsgagnrýni sé
uppbyggileg, hún beinist ekki að því að rífa niður stofnanir heldur að því að
sníða af galla og laga brotalamir. Gagnrýnin á að vera gagnleg við mat og
endurskoðun á stofnunum, að því gefnu að þær séu í eðli sínu afurð
skynsemi frekar en blinds valds. Hún beinist því að mögulegum mistökum
eða misbeitingu valds af hálfu þeirra einstaklinga sem treyst hefur verið
fyrir því en ekki stofnununum sjálfum. Dómstól getur vissulega skjátlast,
en það þýðir ekki að eitthvað sé bogið við dómskerfið í eðli sínu;
löggjafanum getur skjátlast, en það þýðir ekki að eitthvað sé að þjóðkjörnu
þingi. Gagnrýni sem gengur lengra og beinist að því að stofnanirnar séu
ófærar um að komast að réttum, réttlátum eða sanngjörnum niðurstöðum,
38
/
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
fer út fyrir þann ramma sem lýðræðið gerir ráð fyrir og skapar því vanda
sem ekki er ljóst hvernig hægt er að taka á.
Þessi spurning, um grundvallarskynsemi eða réttlæti stofnana, var lifandi spurning á meðan kommúnistar létu verulega að sér kveða, ekki síst á
millistríðsárunum. Undir lok fjórða áratugarins varð spurningin um hvort
ákveðnar þjóðfélagsstofnanir væru í eðli sínu lýðræðislegar að aðalatriði í
átökum kommúnista og hófsamari vinstriafla á Íslandi. Kommúnistar héldu
því fram að lög og þingræði væru aðeins afstæð og tímabundin form lýðræðis, sem í raun væru grundvölluð á hagsmunum ákveðinnar þjóðfélagsstéttar. Þess vegna neituðu þeir að skuldbinda sig til að halda sig innan
ramma laga og þingræðis. Þessi afstaða er rökrétt þegar hugsað er til þess
að kommúnistar voru byltingarsinnar og gerðu einmitt ráð fyrir því að
eðlislæga óskynsemi í skipan samfélagsins þyrfti að leiðrétta með því að
bylta stofnunum þess og setja nýjar á fót, sem þá væru grundvallaðar á
skynsemi en ekki hagsmunum einnar stéttar. Þannig deildu kommúnistar og
hófsamari jafnaðarmenn um kraftbirtingu skynseminnar, hvort hún krefðist
þjóðfélagsbyltingar og nýrra stofnana eða hvort hún birtist þegar í lýðræðislegum stofnunum hins borgaralega samfélags.1
Stofnanagagnrýni kommúnista á sér vissa hliðstæðu í gagnrýni póststrúktúralista á síðari áratugum. Sú gagnrýni varðar meðal annars grundvöll
stofnana. Póst-strúktúralistar falla ekki fyrir hugsjón upplýsingarinnar en
halda því fram að skynsemisskipan samfélagsins sé aðeins ný mynd valdbeitingar. Það er því ekki hægt að búast við skynsamlegum umbótum eða
byltingu sem innleiðir skynsamlegan farveg valds, valdið lýtur sínum eigin
lögmálum. Þetta býður heim þeirri gagnrýni á póst-strúktúralista að afstaða
þeirra sé einmitt ekki gagnleg, þar sem hún felur ekki í sér von um róttækar
umbætur, en dregur möguleika þeirra í efa.
Það sem einkennir róttæk stjórnmál er að þau láta ekki staðar numið
við að gagnrýna einstakar aðgerðir eða ákvarðanir, heldur beinist gagnrýnin
að grundvelli stofnana samfélagsins. Róttækir gagnrýnendur, hvort sem þeir
eru andófsmenn á borð við þá sem mótmæltu framferði valdhafa í Sovétríkjunum á sínum tíma, eða andstæðingar hnattvæðingar sem halda uppi
háværum og stundum róstusömum mótmælum í tengslum við leiðtogafundi
iðnríkjanna, neita að viðurkenna að sú skipan mála sem valdhafarnir hverju
sinni byggja vald sitt á, sé réttmæt. Þeir sjá þá ýmist sem fulltrúa ákveðinna
hagsmuna eða hugmyndafræði sem endurspeglar hvorki heildarhagsmuni
né lífssýn sem almennt samkomulag getur verið um. Þessi afstaða gerir
róttækum mótmælendum ókleift að halda sig innan ramma hefðbundinna
1
Sjá til dæmis Brynjólfur Bjarnason 1973, I, 116-120.
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
/
39
stjórnmála og knýr áfram aðferðir sem undirstrika það. Þannig er ákveðinn
grundvallarmunur á afstöðu hinna róttæku annars vegar og þeirra sem halda
sig innan hefðbundinna stjórnmála hins vegar, með þátttöku í
stjórnmálaflokkum, umræðum á vettvangi þeirra og á vettvangi þeirra
stofnana sem ákvörðunarvaldið hafa, og með því að kjósa og bjóða sig
fram. Þar sem „hefðbundin“ stjórnmál í lýðræðislegu samfélagi hafa stöðu
hins „eðlilega“ vakna því óhjákvæmilega tvær grundvallarspurningar um
róttækar aðgerðir. Í fyrsta lagi varðar spurningin mörk: Hvenær og að hve
miklu leyti geta hinir róttæku beitt aðferðum sem tíðkast ekki innan hefðbundinna stjórnmála? Í öðru lagi varðar hún áhrif: Að hve miklu leyti geta
róttækir gagnrýnendur og aðgerðasinnar krafist þess að tekið sé tillit til
sjónarmiða þeirra? Báðar spurningarnar varða hinn pólitíska vettvang:
Rúmar hann bæði hefðbundin og róttæk stjórnmál, eða er hinu hefðbundna
ógnað af hinu róttæka?
Viðbrögð við mótmælaaðgerðum
Í almennri umræðu hér á landi um umdeildar aðgerðir stjórnvalda kemur
iðulega fram sú skoðun að mótmæli af ákveðnu tagi eigi ekki rétt á sér. Hér
er einkum um að ræða róttækar aðgerðir mótmælendahópa sem beita
óhefðbundnum aðferðum til að hafa áhrif á stjórnvöld og aðra sem ákvarðanir taka.2 Þetta á sérstaklega við um mótmælendahópa sem koma frá
öðrum löndum eða sem útlendingar taka þátt í. Þegar því er haldið fram að
mótmæli þessara hópa eigi ekki rétt á sér felur það tvennt í sér. Annars
vegar að ekki eigi að hlusta á mótmæli þeirra og helst ekki einu sinni flytja
fréttir af þeim, hins vegar að lögregla eigi að stöðva aðgerðir hópanna og
megi grípa til óyndisúrræða til að binda enda á mótmæli og jafnvel
handtaka mótmælendur. Bloggskrif og skrif í fjölmiðla sýna að margir sem
taka til máls eru hlynntir því að þegar mótmælendur eigi í hlut séu
borgararéttindi túlkuð frjálslega. Þetta er mjög merkileg afstaða en sýnir vel
að þegar um óhefðbundnar aðferðir er að ræða, beinist umræðan fljótt að
aðferðum mótmælenda frekar en sjónarmiðum þeirra.3 Stundum er gengið
lengra og því haldið fram að aðferðirnar grafi undan annars lögmætum
sjónarmiðum. Þessi gagnrýni á róttækar aðgerðir byggir á þeirri
grundvallarafstöðu að tjáningarfrelsi ríki innan mjög víðs ramma. Séu
aðferðirnar taldar ólögmætar er hins vegar leitast við að útiloka
2
3
Della Porta & Diani 2006, bls. 165.
Sjá umfjöllun Guðna Elíssonar um skrif tengd aðgerðum samtakanna Saving Iceland.
Guðni Elísson 2007, bls. 2.
40
/
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
mótmælendur frá pólitík í þeim skilningi að rétti þeirra til að mark sé tekið
á þeim og á þá sé hlustað er hafnað. Þessi tilraun til útilokunar á sér oftast
eina af fjórum meginréttlætingum:
1. Atvinnumótmæli: Sú hugmynd er algeng að fólk sem lætur á sér
bera í mótmælum og eyðir jafnvel miklum tíma í að vinna með aðgerðahópum og innan róttækra samtaka hafi gert mótmæli að nokkurs konar
atvinnu sinni. Það fylgir ásökuninni að einhver hljóti að fjármagna mótmælin. Þess vegna séu mótmælendurnir í raun ótengdir málefninu sem þeir
eru að berjast fyrir og gætu verið að mótmæla hverju sem er.4
2. Fáfræði eða þröngir einkahagsmunir: Mótmælendur eru oft sagðir
fáfróðir um málefnin sjálf, haldnir ranghugmyndum og misskilningi um
áhrif framkvæmda sem þeir mótmæla, svo dæmi sé tekið. Á sama hátt vilja
yfirvöld stundum skýra mótmæli með því að hópar sem verða verr fyrir
barðinu á tilteknum erfiðleikum en aðrir láti óánægju sína í ljós í mótmælum sem þannig birti aðeins sérhagsmuni mótmælendanna sjálfra. Þessi
skoðun heyrðist til dæmis um mótmælin á Austurvelli eftir hrunið 2008.
3. Aðkomufólk: Þegar mótmælendur reynast vera útlendingar, eins og
oft hefur gerst þegar umhverfisspjöllum er mótmælt, birtast mjög fjandsamleg viðhorf til þeirra. Sú skoðun virðist ríkjandi hér á landi að það séu fyrst
og fremst heimamenn sem hafi rétt til að skipta sér af því sem gerist á
Íslandi. Sama afstaða birtist þegar um er að ræða hagsmuni tiltekinna
byggðarlaga. Þá heyrist sú röksemd oft að mótmælendur úr öðrum byggðarlögum geti ekki krafist þess að á þá sé hlustað.
4. Hryðjuverkastarfsemi: Það er iðulega gefið í skyn, einkum þegar
útlendingar eru í hópi mótmælenda að enginn eðlismunur sé á mótmælendahópum og hryðjuverkasamtökum og að meginskylda stjórnvalda sé
ekki að leyfa mótmæli eða greiða fyrir þeim, heldur koma í veg fyrir
hryðjuverk, vernda öryggi borgaranna og hagsmuni fyrirtækja. Þetta réttlæti
meðal annars handtökur og brottrekstur fólks úr landi.
Það merkilega er hve lítið þarf til að setja hita í umræðu af þessu tagi
og koma af stað kröfum sem í raun fela í sér að sjónarmið mótmælenda séu
útilokuð. Í öllum tilfellum réttlætist útilokunin af því að mótmælendurna
skorti trúverðugleika – þeir eru utangarðsmenn af ýmsum ástæðum og því
4
Þegar mótmæli almennings réðu úrslitum um stjórnarskipti í Georgíu (Rósabyltingin) og
Úkraínu (Appelsínugula byltingin) héldu margir því fram (þar á meðal rússnesk stjórnvöld) að bandarískt fjármagn væri á bakvið aðgerðirnar. Því hefur ekki verið haldið fram
hér á Íslandi að erlend ríki hafi fjármagnað búsáhaldabyltinguna í janúar 2009, en þó
voru ýmsra samsæriskenningar á lofti um hana sem um leið gerðu lítið úr sjónarmiðum
og lögmæti þeirra sem tóku þátt í aðgerðum.
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
/
41
er talið mikilvægt að halda þeim utan við ákvarðanatöku sem þegar hefur
leitt til lögmætrar niðurstöðu. Annað atriði sem virðist þeim ofarlega í huga,
sem fordæma mótmælendur og mótmæli, er að mótmælendur séu knúnir
áfram af neikvæðum viðhorfum, andúð og jafnvel hatri og geti þess vegna
ekki haft nein æskileg áhrif á pólitíska umræðu. Þegar þetta er tekið saman
virðist krafan til mótmælenda vera sú að þeir leggi eitthvað til málanna sem
hægt er að taka til greina innan ramma umræðu sem þegar hefur verið
mótuð. Efasemdir þeirra um lögmæti ákvarðana og um vit í ákvörðunum
sem þegar hafa verið teknar, valda meiri vanda vegna þess að þær eru meira
en mótmæli við tilteknum ákvörðunum, aðgerðum eða framkvæmdum. Þær
eru um leið djúpstæð gagnrýni á stofnanirnar sjálfar sem standa að baki
ákvörðunum og aðgerðum.
Hvar standa mótmælendur, að þessum viðbrögðum gefnum? Til að
átta sig á því er mikilvægt að skoða hvers konar áhrifum mótmælendur leitast við að ná. Oft er fjallað um mótmælendahópa eins og það sé augljóst
mál að meginmarkmið þeirra sé að auka fylgi almennings við þann málstað
sem þeir berjast fyrir. Beiti þeir aðferðum sem kalla fram fjandsamleg
viðbrögð almennings, séu þeir því að vinna gegn eigin málstað. En þetta er
einföldun á markmiðum róttækra hópa mótmælenda. Mótmæli eru iðulega
skipulagðar aðgerðir sem eiga að hafa áhrif á valdhafa án þess þó að
stofnað sé til nokkurra beinna viðræðna við þá eða kröfur settar fram með
hefðbundnum hætti. Mótmælendur byggja oft á siðferðilegum rétti sínum
til afskipta sem nær út fyrir pólitískt eða lagalegt réttmæti þeirra. En
afskiptin eru ekki með þeim hætti að mótmælendur kjósi endilega að eiga
viðræður við þá sem ákvarðanirnar taka. Tilgangurinn getur verið sá að láta
finna fyrir sér. Þetta má gera með herskáum eða háværum aðgerðum. Það
má líka gera með aðgerðum sem minna ber á eða þar sem áhersla er fyrst
og fremst á hið táknræna. En staðreyndin er sú að það er ekki hægt að
afgreiða mótmælaaðgerðir sem leið til að safna fylgi við ákveðinn málstað.
Mótmælendur vilja hafa áhrif en það markmið þarf ekki nauðsynlega að
fara saman við samúð eða vinsældir. Þess vegna geta neikvæð og jafnvel
fjandsamleg viðbrögð verið þau viðbrögð sem mótmælendur kjósa að kalla
fram. Aðalatriðið er að með því að beita leið mótmælanna er vikið af braut
hinna yfirveguðu og skynsamlegu samræðna, mótmælandinn leggur áherslu
á skilin á milli sín og valdsins og hafnar öllu samneyti við valdhafa. Þetta
getur verið byggt á siðferðilegum rökum eða á herkænsku. Mótmæli eru
ekki samræður heldur tilraun hins valdalausa að ögra þeim sem hefur
völdin.
42
/
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
Þannig er lykilatriði um mótmæli að þau snúast ekki um að komast
inn í opinbera ákvarðanatöku heldur hafa áhrif á hana utan frá. Mótmælendur hafa ekki völd, en vel heppnuð mótmæli skapa sýndarvöld sem geta
orðið til þess að þeim sem hafa eiginleg völd þykir nauðsynlegt að taka tillit
til mótmælendanna. Mótmælahreyfingar geta byggt upp „auðmagn“ ef svo
má að orði komast með því að beita aðferðum sem eru fyrirsegjanlegar,
erfitt að hindra og valda óþægindum. Sem dæmi um slíka hreyfingu á
Íslandi má nefna Samtök herstöðvaandstæðinga sem árum saman stóðu
fyrir mótmælum gegn bandaríska varnarliðinu og veru Íslands í NATO. Vel
heppnuð mótmæli samtakanna styrktu og héldu við ímynd almennrar
andstöðu við varnarliðið og neyddu stjórnvöld til að taka stöðugt tillit til
slíkrar andstöðu og vera á varðbergi gagnvart henni.
En spurningin sem vaknar er þessi: Ef mótmælendur eru fyrst og
fremst hópar sem hafna þátttöku í ákvörðunum valdhafa, taka sér stöðu
utan þeirra, sýna þeim fjandsemi og beita hvers kyns aðferðum andófs,
hvers vegna skyldu þá þeir valdhafar, sem hafa lögmætt tilkall til valda og
geta jafnvel haldið því fram að umboð þeirra sé fengið lýðræðislega, taka
tillit til sjónarmiða sem sett eru fram og styrkt með hætti mótmælenda?
Mótmælendur sem beita ógnandi og truflandi aðgerðum geta svarað með
því að benda á að valdhafar bregðist við sjónarmiðum þeirra ef og aðeins ef
þeir komast ekki hjá því. Sú staðreynd réttlætir aðgerðir í vissum skilningi.
En er þá hugsanlega hægt að halda því fram að fjórða atriðið hér fyrir ofan,
meint hliðstæða róttækra mótmælenda við hryðjuverkahópa, eigi við rök að
styðjast? Hryðjuverkamenn standa líka utan hins pólitíska samtals og
hryðjuverk hafa iðulega þann tilgang að beita stjórnvöld þrýstingi, stundum
með því að koma á glundroða.
Andóf og vald
Pólitískir hópar sem skilgreina sig utan hefðbundinna stjórnmálahreyfinga
eru viðurkenndur hluti af lýðræðislegu samfélagi og stundum er viðhorf til
óháðra hreyfinga og samtaka og athafnafrelsi þeirra notað sem eins konar
mælikvarði á borgaralegt frelsi. Þannig vekur það gagnrýni þegar stjórnvöld
reyna að gera hópum af þessu tagi erfitt fyrir, búa til skilyrði sem þeir þurfi
að uppfylla til að fá starfsleyfi og svo framvegis. En frjáls félagasamtök,
sem hafa pólitísk markmið eða standa fyrir pólitíska hugmyndafræði sem
talin er ógna ríkjandi viðhorfum og stjórnskipan, eiga iðulega í flóknu
sambandi við stjórnvöld, einmitt vegna þess að stjórnvöld þurfa að taka
mögulega ógn alvarlega, jafnvel þótt hún sé langsótt. Pólitísk samtök spila
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
/
43
einmitt oft inn á þessi fyrirsjáanlegu viðbrögð stjórnvalda. Ef pólitík er list
hins mögulega, þá er grasrótarpólitík list ímyndunaraflsins – það er að segja
sú list að beita aðferðum sem gefa ógn til kynna og kallar því fram
viðbrögð við og viðurkenningu á pólitískri hreyfingu langt umfram fjölda
fólks sem tilheyrir henni og áhrifin sem hún gæti haft með því að beita
hefðbundnum aðferðum.
Mótmælendahópar falla í þennan flokk frjálsra félagasamtaka. Sumir
eru róttækari en aðrir, sumir herskárri en aðrir, en þeir eiga það sameigin legt að þurfa að beita sér á ákveðinn hátt til að skapa og viðhalda ímynd
sem þeir vilja rækta, og byggja upp þau sýndarvöld sem í ímyndinni felast,
það er að segja hugmynd annarra – þá einkum stjórnvalda – um hvers
samtökin séu megnug. Það má ef til vill taka dæmi af Sea Shephard
samtökunum til að skýra þetta. Samtökin hafa byggt upp umtalsverð
sýndarvöld með aðgerðum sínum, og þessum völdum geta samtökin beitt
með því að hóta aðgerðum. Þegar fréttist að samtökin séu að „hugleiða“
aðgerðir til að hindra hvalveiðar Íslendinga, svo dæmi sé tekið, þá veldur
það töluverðri taugaspennu hjá stjórnvöldum og þeim sem hvalveiðarnar
stunda og getur jafnvel orðið til þess að menn ákveði að endurskoða
áætlanir sínar. Í ímyndinni liggur því auðmagn sem skýrir að hluta hegðun
og mælskulist róttækra samtaka. Það þarf líka að hafa í huga að samtök og
hreyfingar eru á endanum ekki annað en fólkið sem í þeim starfar.
Hugsjónahreyfing heldur ekki velli nema þeim sem taka þátt í henni finnist
þeir vinna best að hugsjónum sínum með þátttöku í hreyfingunni. Hreyfing
sem sameinar fólk í róttæku andófi gegn stjórnvöldum eða gegn tilteknum
aðgerðum og framkvæmdum stjórnvalda, verður stöðugt að minna á að
hvað sem árangri líður, þá skapi hreyfingin rýmið þar sem þessar hugsjónir
lifa og dafna. Fyrir þátttakendurna getur ímyndin falið fleira í sér. Hreyfing
sem hefur svo dæmi sé tekið að markmiði að berjast gegn stóriðju eða
umhverfisspjöllum, getur verið athvarf fyrir andóf sem beinist að lífsstíl
frekar en beinlínis að þeim umhverfisspjöllum sem um er að ræða. Það er
ekki síst þetta sem gerir að verkum að það getur verið erfitt fyrir stjórnvöld
að setjast niður með fulltrúum mótmælahreyfinga og semja um
„ásættanlega lausn.“ Hluti af ástæðu mótmælendanna er menningarmunur á
þeim og stjórnvöldum sem kemur í veg fyrir að þeir hafi áhuga á að semja
um eitthvað, þar sem samningurinn myndi óhjákvæmilega neyða
mótmælahreyfinguna til að samsama sig stjórnvöldum að vissu marki. Hér
er að hluta komin ástæðan fyrir því að mótmælandinn og andófsmaðurinn
tekur sér stöðu utan hefðbundinna stjórnmála frekar en vinna að tilteknum
stefnumálum innan þeirra.
44
/
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
En það gerist líka að forsvarsmenn mótmælahreyfinga sem hafa náð
vissum árangri í baráttu sinni mistúlka árangurinn og halda að vinsældir eða
fjöldafylgi leiði af honum. Þannig héldu forsvarsmenn Íslandshreyfingarinnar að árangur hennar við að koma málstað á framfæri og skipuleggja mótmæli myndi yfirfærast á kosningafylgi ef hreyfingin byði fram.
Þetta reyndist alrangt og framboð hreyfingarinnar í alþingiskosningum
2007 var fíaskó. Það má því halda því fram að andófið lifi sjálfstæðu lífi
innan flóru stjórnmálanna. Ekkert getur komið í staðinn fyrir það og andófshreyfing er allt annar hlutur heldur en stjórnmálaflokkur sem setur fram
stefnumál og reynir að fá fólk til að trúa því að þessum stefnumálum verði
hrint í framkvæmd fái flokkurinn það fylgi sem hann þarf til að gera það. Á
sama hátt getur það gerst að mótmælahreyfing nær fjöldafylgi sem dugar til
að gera hana að þátttakanda í löggjafarsamkundu og jafnvel ríkisstjórn. En
þá getur komið í ljós að til þess að þrífast þar verður hreyfingin að
ummyndast og er þá ekki lengur sú mótmæla- og grasrótarhreyfing sem hún
var. Borgarahreyfingin, sem kom fjórum mönnum á þing í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar vorið 2009, kann að vera dæmi um slíkt.
Þannig byggja mótmæla- og andófshreyfingar upp félagslegt auðmagn sem bundið er við ákveðin svið og ákveðnar aðgerðir. Á meðan
hreyfingin notar auðmagnið þar sem því hefur verið safnað geta sýndarvöld
hennar orðið mjög mikil, en ef hún ætlar að flytja það yfir á annað svið
getur það gufað upp á skömmum tíma. Þetta sýnir að auðmagn og vald andófsins er jafn flókinn og vandmeðfarinn hlutur og allt annað félagslegt auðmagn og pólitísk völd. Mótmælahreyfing getur líka glutrað niður þessu
auðmagni með því að ganga of langt. Þetta eru helstu rökin fyrir því að gera
megi skýran greinarmun á mótmælahópum og hryðjuverkahópum. Þannig
eru öfgar alltaf afstætt fyrirbæri og róttækir mótmælendur og andófsmenn
þurfa alltaf að vera á varðbergi gagnvart þeim öfgum sem málstaðurinn
getur gefið tilefni til. Línudans mótmælanna felst oft í því að mótmælendur
athafnast á gráu svæði hins löglega og ólöglega – gefa lögreglu færi á að
bregðast við með ofbeldi, en ganga þó ekki nægilega langt til þess að
varnar- eða öryggishagsmunir réttlæti ofbeldi. Um leið og
mótmælahreyfing fer yfir strikið með skýrum og afgerandi hætti, glatast
forskotið – auðmagnið sem kann að hafa byggst upp hverfur. Munurinn á
róttækum aðgerðasinna og hryðjuverkamanni er sá að hryðjuverkamaðurinn
bindur sig við hótun um ofbeldi og beitingu ofbeldis og sú hótun er um leið
eitt form ofbeldis. Aðgerðasinninn forðast ofbeldi, þótt ögranir af ákveðnu
tagi geti freistað til ofbeldis.
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
/
45
Meintir siðferðilegir yfirburðir
Í einni samræðu Platons, Krítoni, fer fram rökræða um löghlýðni þar sem
Sókrates heldur því fram að jafnvel þótt hann hafi verið dæmdur til dauða
fyrir rangar sakir, geti hann ekki réttlætt flótta úr fangelsinu þar sem hann
situr og bíður aftöku. Rökin sem Sókrates beitir í samræðunni hafa löngum
komið við sögu í umræðu um þegnlega óhlýðni (e. civil disobedience), en í
raun má segja að Sókrates kortleggi pólitískt samband þegns og yfirvalda í
samræðunni. Það er einkum tvennt sem vekur athygli. Annars vegar sú hugmynd að sá sem óhlýðnast boðum yfirvalda geri það með vitund um þær
afleiðingar sem óhlýðnin kann að hafa og sé reiðubúinn að taka þeim
afleiðingum. Sókrates er dæmdur fyrir að spilla æskulýðnum með heimspekilegum samræðum. Þar sem hann telur heimspekilegar samræður
mikilvægastar alls þess sem hann tekur sér fyrir hendur geta yfirvöldin ekki
komið í veg fyrir að hann stundi þær, en þar sem þau geta krafist löghlýðni
af honum hlýtur hann líka að sætta sig við viðbrögð yfirvalda. Hins vegar
sú afstaða að þegn sé alltaf bundinn af lögum og reglum samfélagsins og
geti ekki hafnað þeim eða neitað að viðurkenna þau. Það er mikilvægt að
sjá að afstaðan er ekki sú að mönnum beri alltaf og ævinlega að fara eftir
lögum í bókstaflegum skilningi, en að gera það ekki krefst ákveðinnar
fórnar og sérstakra siðferðilegra raka: Sá sem brýtur lögin gerir það af
siðferðilegum ástæðum og til þess að sýna fram á að lögin stangist á við
siðferðilegt réttmæti í tilteknu atriði. Hér er nærtækt að benda á dæmi úr
réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Óhlýðni við reglur sem bönnuðu
svörtum að nota sömu almenningsaðstöðu og hvítir er augljóst dæmi um
óhlýðni við ranglátar reglur. Með því að hlíta síðan afleiðingum lögbrotsins
er enn meiri athygli vakin á siðleysi lagabókstafsins.
En þótt rök Sókratesar gangi ekki út á að krefjast algjörrar hlýðni við
lagabókstaf, setur afstaða hans tengslum mótmælanda og yfirvalds
ákveðnar og þröngar skorður og það er einn grundvallarmunur á sókratísku
afstöðunni og afstöðu hins róttæka andófsmanns: Skuldbindingin gagnvart
lögum er ekki siðferðilegur grunnur mótmælandans. Sá grunnur felst í því
að afleiðingar þess að brjóta reglur eru fyrirsjáanlegar og viðurkenndar.
Mótmælandinn telur ekki að sér beri siðferðileg skylda til að hlíta
ranglátum dómi, jafnvel þó að dómurinn sé fyrirsjánleg afleiðing tiltekinna
aðgerða. Þannig er afstaða mótmælandans íronísk í eðli sínu. Aðgerðir hafa
meðal annars þann tilgang að kalla fram ákveðin viðbrögð, kröfur eru ekki
nauðsynlega settar fram sem bókstaflegar óskir heldur til að kalla fram
fyrirsjáanleg svör sem síðan er hægt að vísa til, gagnrýna eða hæðast að. Ef
46
/
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
tilteknar aðgerðir eru líklegar til að kalla fram ofbeldisfull viðbrögð
lögreglu svo dæmi sé tekið, jafnvel handtökur, er ekki þar með sagt að
mótmælandinn telji sig skuldbundinn til að hlíta meðferð lögreglu eða
dómstóla. Viðbrögð hans munu ráðast af markmiðunum hverju sinni. Völd
hans eru fólgin í því að geta sagt fyrir um og því kallað fram ákveðin
viðbrögð þeirra sem eiga að framfylgja lögum og reglu.
Þegar andóf og aðgerðir mótmælahreyfingar eru pólitískar er togstreita opinberra yfirvalda og mótmælenda hliðstæð átökum á hefðbundnum vettvangi stjórnmála þó að staða mótmælenda sé utan þess vettvangs. En þeirri spurningu er enn ósvarað hvaða rétt mótmælandinn hefur
til að troða sér inn í pólitískar ákvarðanir með þeim hætti sem hann gerir.
Samtal Sókratesar og Krítons gefur vísbendingu um eina almenna réttlætingu á aktívisma sem varðar undirliggjandi siðferðilegan skilning
aktívista á málstað sínum. Sérstaða mótmælandans í eigin augum og
ástæðan fyrir því að hann kýs að beita mótmælaaðgerðum frekar en að beita
sér á hefðbundnum vettvangi stjórnmála felst í siðferðilegum yfirburðum
hans – trúverðugleiki hans birtist í því að aðgerðir þurfi annars vegar að
túlka í ljósi fórnarinnar sem mótmælandinn færir, hins vegar í ljósi siðferðilegrar hnignunar yfirvaldanna. Áherslan á siðferðilega yfirburði birtist
sterkast í áróðri róttækrar vinstrihreyfingar, en hennar sér einnig skýr merki
í mælskulist umhverfisverndarsamtaka og friðarhreyfinga. Á meðan mótmælandinn getur dregið upp sannfærandi mynd af andstæðingi sínum sem
gerspilltum fulltrúa þröngra einkahagsmuna, er svigrúm hans til aðgerða
mjög vítt. Stórfyrirtæki sem hefur fengið ímynd glæpahrings nýtur ekki
samúðar þegar aðgerðasinnar taka sig til og skemma eigur þess eða trufla
starfsemina. Nú er augljóst mál að þó að mótmælandinn beiti fyrir sig
mælskulist siðferðilegra yfirburða, þá er ekki þar með sagt að allir fallist á
að mótmælahreyfing hafi slíka yfirburði. En það er ekki aðalatriðið:
Sjálfsmynd mótmælandans sem fulltrúa siðferðilegra yfirburða liggur að
baki réttlætingu hans á eigin aðgerðum. Þannig má segja að þótt rökin um
grundvallarvirðingu fyrir lögum samfélagsins í samræðu Sókratesar og
Krítons veki efasemdir, þá er mikilvægur kjarni þeirrar sjálfsmyndar sem
mótmælandinn byggir á siðferðilegur: Stjórnvöld, kapítalistar, auðjöfrar,
kaupsýslumenn og svo framvegis eru fulltrúar þröngra einkahagsmuna.
Mótmælandinn hefur tekið sér stöðu með siðferðilegu réttmæti – og um leið
með skynseminni. Hann mótmælir ekki vegna þess að hann langi til þess
heldur vegna þess að hann er knúinn til þess af siðferðilegri nauðsyn. Sú
staðreynd að hann tekur þátt í mótmælaaðgerðum hefur siðferðilegt gildi.
Jafnvel þótt það sem hann gerir sé umdeilanlegt, þá er sannfæring hans til
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
/
47
marks um siðferðilega yfirburði, að mati hans sjálfs og þeirra sem með
honum starfa.
„Samtal“ mótmælenda og yfirvalda
Helstu sjónarmiðin sem ég hef reifað hér eru þessi: Róttækir aktívistar sem
standa fyrir herskáum mótmælaaðgerðum eru yfirleitt ekki að leita
skilnings eða samúðar almennings. Þeir vilja hafa áhrif á ákvarðanir sem
teknar eru. Andóf er sérstök mynd pólitískrar þátttöku og krefst þess að þeir
sem beita því geti aflað sér ákveðinna sýndarvalda sem gerir erfitt að
sniðganga sjónarmið þeirra. Réttlæting mótmælandans er í eðli sínu
siðferðileg; það sem knýr mótmælin áfram eru meintir siðferðilegir
yfirburðir aktívistanna yfir þá sem stunda pólitík og viðskipti. Þess vegna
má líka halda því fram að aktívismi og róttæk mótmæli séu mikilvægur og
jafnvel ómissandi hluti lýðræðislegra stjórnmála og misskilningur að telja
að mótmæli eða viss félagslegur órói sé á einhvern hátt áfellisdómur yfir
pólitísku kerfi.
Frá pólitísku sjónarmiði skiptir engu máli hvort sjálfsmynd mótmælandans af eigin siðferðilegum yfirburðum er réttmæt eða ekki. Það sem
skiptir máli er að hún stýrir aðgerðum hans að miklu leyti og krefst þess
líka að hann haldi sig innan ákveðins athafnaramma sem er víðari en lög og
reglur kveða á um en þó alls ekki þannig að allt sé leyfilegt. Eins og ég
nefndi hér fyrr í greininni, þarf mótmælandinn að varðveita ákveðið félagslegt auðmagn sem hreyfing eða málstaður getur staðið fyrir og þess vegna
þarf hann stöðugt að vera gagnrýninn á það sem hann sjálfur leyfir sér og
það þarf að vera í einhverju samræmi við þá hagsmuni sem eru í húfi hverju
sinni. Segjum til dæmis að upp kæmi hugmynd hjá umhverfisverndarhópi
sem hefur látið til sín taka við Kárahnjúka um að sprengja stífluna í loft upp
og hleypa vatninu úr uppistöðulóninu í hinn gamla farveg jökulsárinnar.
Væri með einhverjum hætti hægt að réttlæta slíka aðgerð með
siðferðilegum rökum? Gerum ráð fyrir að það væri hægt að slá því föstu að
hún myndi ekki hafa neitt manntjón í för með sér, en væri einungis spjöll á
mannvirkjum. Nú getum við gefið okkur að hópur sem hefði tök á að
framkvæma eitthvað af þessu tagi gæti velgt stjórnvöldum verulega undir
uggum. Það mætti jafnvel benda á að þó að stíflan yrði byggð aftur, þá
myndu slíkar hrakfarir slá verulega á allar áætlanir um frekari virkjanir –
eru rök af þessu tagi ekki einmitt sannfærandi fyrir aktívista sem eru nógu
róttækir, hugaðir og vel skipulagðir?
48
/
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
Gallinn við rökin er sá að þau fara út fyrir ramma hins siðferðilega.
Það getur verið áhrifamikið að beita hryðjuverkum af þessu tagi, en tjónið
sem af þeim hlýst, glundroði, ótti og svo framvegis rúmast ekki innan
sjálfsmyndar þess sem heldur fram siðferðilegum yfirburðum sínum
umfram yfirvöldin. Hér liggur greinarmunurinn á terrorisma og aktívisma.
Aktívistinn getur ekki yfirgefið hinar siðferðilegu röksemdir og hlýtur því
alltaf að vera sér meðvitaður um tjón sem kann að hljótast af aðgerðum.
Það getur verið að hægt sé að þola það að vissu marki, einkum ef sá sem
fyrir tjóninu verður er sá sem mótmæli beinast gegn, en aðgerðir sem valda
stórfelldu tjóni fyrir fjölda fólks eru allt annar hlutur. Bandarísku samtökin
The Weather Underground eru ágætt dæmi um hóp sem fór yfir þessa
markalínu og tók að stunda hryðjuverk. Hópurinn spratt upp úr róttækri
stúdentahreyfingu í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum og fram eftir þeim
áttunda stóð hann að hryðjuverkum sem beindust að dauðum hlutum eingöngu, það er að segja mannvirkjum. Árum saman fóru leiðtogar hreyfingarinnar huldu höfði, en á níunda áratugnum gáfu flestir sig fram og sátu
í kjölfarið í fangelsi. Margir þeirra sem tóku þátt í aðgerðum
hreyfingarinnar hafa síðar viðurkennt opinberlega að þeir telji að gengið
hafi verið of langt.
Siðferðilegur grunnur aktívisma skýrir að hluta hvers konar samtal
það er sem aktívistar yfirleitt vilja eiga við yfirvöldin. Það er ekki samtal
hins veika og valdalausa við styrk valdsins. Aktívistinn byggir sem fyrr
segir upp auðmagn sem gefur honum tiltekin sýndarvöld gagnvart þeim
sem taka ákvarðanir. Aktívistinn vill ekki heldur setjast niður með fulltrúum
valdsins og komast að heppilegri málamiðlun. Hann birtist sem „annar“ í
róttækum skilningi þess orðs, hann kýs að samsama sig ekki fulltrúum
valdsins, hvort sem um er að ræða pólitískt vald eða peningalegt vald.
Þegar aktívistinn er í þessum skilningi birtingarmynd annarleikans vaknar
líka sú freisting að sjá í honum ógnun við hina hefðbundnu skipan og þar
með gera hann að fulltrúa óskynseminnar sem nauðsynlegt sé að berjast
gegn og eyða frekar en hlusta á og jafnvel eiga samræður við. En sá
annarleiki sem siðferðileg gagnrýni felur í sér er nauðsynlegt aðhald
lýðræðisins. Sú afstaða að tiltekin skipan sé sjálfsögð eða réttlát í eðli sínu
felur í sér tilhneigingu til að útiloka sem óskynsamlega alla
grundvallargagnrýni á hana, en það jafngildir því sjónarmiði að hún sé
hafin yfir vafa. Hinn pólitíski vettvangur verður að skapa rými fyrir
grundvallargagnrýni og þar með rökræður um alla skipan og gildi
samfélagsins.
Andóf, mótmæli og „hefðbundin“ stjórnmálaþátttaka
/
49
Lokaorð
Í þessari grein hef ég reynt að varpa ljósi á hlutverk og tilgang mótmælahreyfinga í stjórnmálamenningu samtímans. Til að skilja mikilvægi andófs
er nauðsynlegt að viðurkenna að stjórnmál er ekki hægt að njörva niður við
hefðbundna þátttöku í flokkum sem keppa hver við annan um valdaumboð.
Það má jafnvel halda því fram að þessi partur stjórnmálanna sé ekkert
grunneinkenni lýðræðis. Ef lýðræði felst í áhrifum almennings á ákvarðanatöku er gagnrýni, andóf og mótmæli kröftugasti og eðlilegasti farvegurinn
til að keppa um og hafa slík áhrif. Stjórnvöld gera iðulega þau mistök að
hafna, fordæma eða leiða hjá sér baráttu og röksemdir róttækra hópa. Það er
eðlilegra og í betra samræmi við hugsjónir lýðræðisins að hlusta. Hættumat
þarf líka að taka mið af því hvers konar röksemdum aktívistahópur beitir. Á
meðan mótmælahreyfing byggir sjálfsmynd sína og mögulegar aðgerðir á
sannfæringu um eigin siðferðilega yfirburði er afar ólíklegt að hún hafi tilhneigingu til að fara út fyrir ákveðinn ramma í aðgerðum sínum. Hreyfingin þarf sjálf að geta sett aðgerðir sínar í samband við siðferðilega yfirburði
sína en þetta samband kallar á vel ígrundaða réttlætingu á öllum aðgerðum.