Albrekt af Mecklenburg
Albrekt af Mecklenburg (1338/1340 – 31. mars eða 1. apríl 1412) eða Albrekt 1. Svíakonungur og Albrekt 2. hertogi af Mecklenburg og Schwerin var konungur Svíþjóðar 1363/1364 þar til hann var settur af 1389 en hann sagði þó ekki formlega af sér fyrr en 1405.
Albrekt var næstelsti sonur Albrekts mikla hertoga af Mecklenburg og Eufemíu Eiríksdóttur, systur Magnúsar smeks, konungs Noregs og Svíþjóðar. Þegar kom fram yfir 1360 var mikil óánægja í Svíþjóð með stjórn Magnúsar; aðalsmenn risu gegn honum en hann hrakti marga þeirra í útlegð 1363.
Hópur aðalsmanna, undir forystu Bo Jonsson Grip, hélt þá til Mecklenburg og bauð Albrekt mikla krúnuna handa næstelsta syninum gegn því að hann hjálpaði þeim að koma Magnúsi frá. Albrekt mikli sendi 1600 manna lið til Svíþjóðar og voru þeir fljótir að ná landinu á sitt vald. Albrekt yngri var hylltur konungur í Stokkhólmi í nóvember og 18. febrúar 1364 var hann formlega kjörinn konungur Svíþjóðar.
Magnús sneri aftur ásamt Hákoni syni sínum, sem hafði tekið við konungsvöldum í Noregi, árið 1365 en þeir biðu ósigur í orrustu og Albrekt tók Magnús til fanga. Hákon komst hins vegar undan og fékk Valdimar atterdag Danakonung í lið með sér en Albrekt naut stuðnings ýmissa þýskra fursta og Hansaborga. Þetta þýddi aukin erlend áhrif í Svíþjóð og það gerði Albrekt óvinsælan hjá almenningi en Hákon fékk aukinn stuðning. Á endanum var þó saminn friður og Magnúsi konungi var sleppt gegn greiðslu lausnargjalds. Hákon fékk yfirráð í hluta Svíþjóðar en meirihluti ríkisins var undir stjórn dróttsetans, Bo Jonsson Grip. Albrekt var konungur Svíþjóðar að nafninu til en réði þó aðeins yfir Stokkhólmi og nokkrum köstulum.
Hann var algjörlega háður Bo Jonsson Grip og öðrum aðalsmönnum og vald þeirra stórjókst. Eftir dauða dróttsetans árið 1386 reyndi Albrecht þó að styrkja stöðu sína en aðalsmenn sneru sér til Margrétar drottningar í Danmörku og báðu um aðstoð. Hún sendi lið til Svíþjóðar en Albrekt leitaði sér hjálpar í Þýskalandi og í orrustunni við Åsle í febrúar 1389 barðist danskt og þýskt herlið við hlið beggja fylkinga Svía. Albrekt tapaði og var tekinn höndum ásamt Eiríki syni sínum. Þeim var ekki sleppt lausum fyrr en haustið 1395. Albrekt hélt þá til Mecklenburg en hann hafði erft hertogadæmið þegar Hinrik eldri bróðir hans dó 1384. Hann sagði þó ekki formlega af sér konungdómi fyrr en 1405, sextán árum eftir að hann var settur frá völdum.
Albrekt var tvígiftur. Árið 1359 giftist hann hinni ellefu ára gömlu Rikardis af Schwerin og áttu þau tvö börn. Sonurinn, Eiríkur af Mecklenburg, var fæddur um 1365. Hann sat í fangelsi með föður sínum en 1396, ári eftir að þeim var sleppt lausum, hélt hann til Gotlands og lagði það undir sig en dó svo úr plágu 1397.
Seinni kona Albrekts, sem hann giftist i Schwerin 1396, var Agnes af Braunschweig-Lüneburg. Hún var þó aldrei drottning. Sonur þeirra var Albrekt hertogi af Mecklenburg og Schwerin.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Albrekt av Mecklenburg“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. september 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Albert of Mecklenburg“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. september 2010.
Fyrirrennari: Magnús Eiríksson smek |
|
Eftirmaður: Margrét Valdimarsdóttir mikla (ríkisstjóri) |