Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Elizabeth Taylor

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Elizabeth Taylor árið 1981.

Elizabeth Rosemond Taylor (27. febrúar 193223. mars 2011) var bresk-bandarísk leikkona sem var ein þekktasta kvikmyndastjarna heims og og jafnframt sú hæstlaunaða um tíma. Hún hlaut tvenn Óskarsverðlaun fyrir leik í aðalhlutverki og fjölmargar viðurkenningar.

Foreldrar Elizabeth Taylor voru bandarískir en bjuggu í London þegar hún fæddist og er hún því oft talin bresk. Faðir hennar var listmunasali en móðirin hafði verið sviðsleikkona áður en þau giftust. Elizabetn átti einn eldri bróður, Howard, sem var þremur árum eldri en hún. Fjölskyldan flutti frá London til Los Angeles árið 1939 þegar Elizabeth var sjö ára vegna ófriðvænlegs ástands í Evrópu en seinni heimstyrjöldin braust út skömmu síðar.

Elísabet þótti einstaklega fallegt barn og vinir foreldra hennar hvöttu til þess að reyna að koma henni að hjá kvikmyndaveri. Hún fór í prufu hjá Universal Pictures og þar var þegar gerður við hana samningur. Hún var tíu ára þegar hún lék í fyrstu mynd sinni, There's one born every minute. Universal Pictures endurnýjuðu þó ekki samninginn við Elizabeth en stuttu síðar var hún byrjuð að leika hjá MGM.

Elizabeth sló í gegn 12 ára gömul þegar hún lék í kvikmyndinni National Velvet. Hún var hjá MGM í 21 ár og lék í 14 kvikmyndum. Skólaganga hennar fór fram hjá MGM og hún fékk prófskírteini frá Miðskólanum í Los Angeles 18 ára gömul.Hún lék barna- og unglingahlutverk í nokkrum vinsælum myndum en öfugt við margar aðrar barnastjörnur gekk henni vel að finna sér stað í fullorðinshlutverkum þegar hún eltist. Fyrsta bitastæða fullorðinshlutverkið fékk hún í kvikmyndinni Father of the Bride 1950, þar sem hún lék á móti Spencer Tracy. Hún fékk líka mjög góða dóma fyrir hlutverk sitt í A Place in the Sun (1951). Næstu myndir hennar voru flestar lítt eftirminnilegar en árið 1955 lék hún aðalkvenhlutverkið í stórmyndinni The Giant á móti James Dean og fékk góða dóma. Hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir aðalhlutverk fjögur ár í röð: Fyrir Raintree County 1957, Cat on a Hot Tin Roof 1958, Suddenly, Last Summer 1959 og fékk svo loks verðlaunin fyrir Butterfly 8 árið 1960.

Árið 1960 sagði hún skilið við MGM og fór til Englands til að leika í myndinni Cleopatra, sem framleidd var af 20th Century Fox. Fyrir það fékk hún eina milljón dollara, sem var hæsta greiðsla sem leikkona hafði nokkru sinni fengið. Jafnframt fékk hún prósentur af tekjum og þegar upp var staðið námu tekjur hennar af myndinni sjö milljónum dollara.

Á meðan tökur á Kleópötru stóðu yfir tókust ástir með Elizabeth og mótleikara hennar, Richard Burton, og giftust þau þegar þau höfðu skilið við maka sína. Þau léku saman í allnokkrum myndum og fyrstu árin hlutu myndir þeirra geysilega aðsókn; sagt var að þegar heyrðist að þau ætluðu að taka sér þriggja mánaða leyfi hefði Hollywood skolfið því næstum helmingur af tekjum bandaríska kvikmyndaiðnaðarins kæmi frá myndum sem annaðhvort þeirra eða bæði ættu þátt að. Frægust þeirra mynda sem þau léku saman í er Who's Afraid of Virginia Woolf? árið 1966 en fyrir hlutverk sitt í henni fékk Elizabeth Óskarsverðlaunin öðru sinni. En frá árinu 1967 hallaði undan fæti og myndir þeirra fengu minni aðsókn en áður. Eftir 1970 fækkaði hlutverkum hennar og síðasta kvikmyndin sem hún lék í var The Flintstones árið 1994. Hún lék þó í einni sjónvarpsmynd eftir það og kom fram í nokkrum sjónvarpsþáttaröðum.

Á síðari árum einbeitti Elizabeth Taylor sér fyrst og fremst að góðgerðamálum og var sérlega ötul við að afla fjár til alnæmisrannsókna og var ein fyrsta stjarnan sem talaði opinskátt um sjúkdóminn en góðvinur hennar og mótleikari, Rock Hudson, dó úr alnæmi 1985. Árið 1992 fékk hún sérstaka viðurkenningu á Óskarsverðlaunahátíðinni fyrir störf sín í þágu alnæmissjúkra. Hún tók gyðingatrú árið 1959, eftir að hún giftist Mike Todd, og var eftir það ötull stuðningsmaður Ísraels og ýmissa málefna sem varða gyðinga. Árið 1999 aðlaði Elísabet Englandsdrottning Elizabeth Taylor og hlaut hún þá nafnbótina Dame Commander of the British Empire.

Elizabeth í myndinni Cleopatra árið 1963

Elizabeth Taylor var á síðari árum ekki síður þekkt fyrir hjúskaparsögu sína en leikferil en hún giftist alls átta sinnum þótt eiginmennirnir væru aðeins sjö. Hún giftist hótelerfingjanum Conrad Hilton árið 1950 þegar hún var átján ára gömul. Hjónabandið entist í innan við ár og vorið 1952 gekk Elizabeth að eiga leikarann Michael Wilding, sem var 20 árum eldri en hún. Þau eignuðust tvo syni, 1953 og 1955. Þau skildu í janúar 1957 og aðeins viku síðar giftist Elizabeth kvikmyndaframleiðandanum Micheal Todd, sem var 23 árum eldri en hún. Dóttir þeirra fæddist í ágúst sama ár en 22. mars 1958 fórst Todd í flugslysi og var það eina hjónaband Elizabeth sem ekki lauk með skilnaði.

Besti vinur Todds, söngvarinn Eddie Fisher, sinnti Elizabeth mjög vel eftir lát Todds og ekki leið á löngu þar til hann skildi við konu sína, Debbie Reynolds, og giftist ekkjunni ungu aðeins innan við tíu mánuðum eftir slysið. Þau ættleiddu tveggja ára stúlku frá Þýskalandi. Hjónabandið stóð þó ekki traustum fótum og á meðan Elizabeth lék í myndinni Kleópatra hóf hún ástarsamband við mótleikara sinn, Richard Burton. Þau giftust 1964 og áttu í stormasömu hjónabandi sem lauk með skilnaði tíu árum síðar, en eftir aðeins hálft annað ár gengu þau í hjónaband að nýju. Síðara hjónabandið entist þó aðeins í tæpt ár og þau skildu endanlega sumarið 1976. Þau eignuðust ekki barn en Burton ættleiddi báðar dætur Elizabethar.

Í desember sama ár giftist Elizabeth bandaríska öldungadeildarþingmanninum John Warner. Hún fann sig þó ekki sem þingmannsfrú í Washington og þjáðist af þunglyndi. Hún fór í meðferð á Betty Ford-stofnunina og viðurkenndi eftir það að hún væri alkóhólisti og hefði verið háð verkjalyfjum frá unga aldri, en hún hafði nær alla tíð átt við margvísleg heilsufarsvandamál að stríða og lenti einnig í mörgum slysum. Þau John Warner skildu 1982. Árið 1991 giftist Elizabeth svo byggingarverkamanninum Larry Fortensky, sem hún hafði kynnst í einni dvöl sinni á Betty Ford-stofnuninni, en hann var 20 árum yngri en hún. Brúðkaupið var haldið á Neverland-búgarði Michaels Jackson, en þau Elizabeth voru nánir vinir. Hjónabandið entist til 1996.

Kvikmyndir Elizabeth Taylor

[breyta | breyta frumkóða]
  • These Old Broads 2001
  • The Flintstones 1994
  • Sweet Birds of Youth 1989
  • Giovane Toscanini 1988
  • Poker Alice 1987
  • There Must Be a Pony 1986
  • Malice in Wonderland 1985
  • The Mirror Crack'd 1980
  • Winter Kills 1979
  • Return Engagement 1978
  • A little Night music 1978
  • Victory at Entebbe 1976
  • The Blue Bird 1976
  • Identikit 1974
  • Ash Wednesday 1973
  • Night Watch 1973
  • Divorce His - Divorce Her 1973
  • Hammersmith is out 1972
  • Under Milk wood 1972
  • Zee an Co. 1972
  • The Only game in Town 1970
  • Anne of the Thousand Days 1969
  • Secret Ceremony 1968
  • Boom 1968
  • The Comedians 1967
  • Reflections in a Golden Eye 1967
  • Doctor Faustus 1967
  • The Taming of the Shrew 1967
  • Who's afraid of Virgina Woolf? 1966 (Óskarsverðlaun)
  • The Sandpipers 1965
  • The V.I.P.s 1963
  • Cleopatra 1963
  • Butterfield 8 (Óskarsverðlaun)
  • Scent of Mystery 1960
  • Suddenly, Last Summer 1959
  • Cat on a Hot Tin Roof 1958
  • Raintree Country 1957
  • Giant 1956
  • The Last Time i saw Paris 1954
  • Beau Brummell 1954
  • Elephant Walk 1954
  • Rhapsody 1954
  • The Girl who Had everything 1953
  • Ivanhoe 1952
  • Love is better than Ever 1952
  • Quo Vadis 1951
  • A place in the Sun 1951
  • Father's Little Dividend 1951
  • Father of the bride 1950
  • The big Hangover 1950
  • Conspirator 1949
  • Little Women 1949
  • Julia Misbehaves 1948
  • A Date with Judy 1948
  • Cynthia 1947
  • Life with Father 1947
  • Courage of Lassie 1946
  • National Velvet 1944
  • The white Cliffs of Dover 1944
  • Jane Eyre 1944
  • Lassie Come Home 1943
  • There's One Born every minute 1942