Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Essex

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Essex
Flag of Essex
Landafræði
Staða Formlegt og óstórborgarlegt
UppruniSöguleg
Svæði Austur-England
Flatarmál 3670 km² (11. sæti)
Höfuðbær Chelmsford
ISO 3166-2 GB-ESS
ONS-kóði 22
NUTS-kóði UKH33
Lýðfræði
Mannfjöldi
• Samtals (2012)
• Þéttleiki byggðar
1.740.888
474/km²
Kynþættir 96,8% hvíta
1,2% suðasíska
Stjórnmál
Ráð Essex County Council
Stjórnmálaflokkur Íhaldsflokkurinn

Essex (borið fram [/ˈɛsɨks/]) er sýsla í Suðaustur-Englandi á Bretlandi. Höfuðstaður sýslunnar er Chelmsford. Hæsti staður sýslunnar er Chrishall Common, 147 m.y.s., sem er í grennd við þorpið Langley, skammt frá mörkum Essex og Hertfordshire.

Bærinn Colchester er í norðausturhluta sýslunnar og er elsti bærinn í Englandi, stofnaður áður en Rómverjar komu til landsins. Á tímum Rómverja kallaðist hann Camulodunum. Upprunalega var Colchester höfuðstaður rómverska skattlandsins Brittaníu og hafði eigin myntsláttu. Árið 61 var borgin lögð í rúst í uppreisn Boudicu drottningar. Síðar varð London höfuðborg skattlandsins.

Heitið Essex er engilsaxneskt og er dregið af fornensku orðinu Ēastseaxe sem þýðir „Austursaxar“, austlægt konungsríki Saxa. Konungsríkið Essex var stofnað árið 527 af konunginum Æscwine og spannaði það svæði norðan við Thames-ána og stóran hluta þess svæðis sem varð síðar Middlesex og Hertfordshire, en var síðar bundið við löndin austan við Lee-ána. Lönd Austursaxa lágu að löndum Engla frá Austur-Anglíu, það er að segja Norfolk, Suffolk og Cambridgeshire.

Seinna varð konungsríkið Essex hluti konungsríkisins Englands og var þá gert að skíri. Sýsluráðið í Essex var stofnað árið 1889. Núverandi landamerki milli Essex og Austur-London urðu til árið 1965 þegar East Ham og West Ham urðu borgarhlutar London.

Það eru fjórtán umdæmi í Essex: Harlow, Epping Forest, Brentwood, Basildon, Castle Point, Rochford, Maldon, Chelmsford, Uttlesford, Braintree, Colchester og Tendring. Thurrock og Southend-on-Sea eru sameiningarumdæmi.

Íbúar og byggðir

[breyta | breyta frumkóða]
Dæmigert þorp í Norður-Essex, Finchingfield.

Fjölbreytt byggð er í sýslunni. Útþensla London inn í sýsluna er hindruð af svokölluðu „græna belti“, en í sýslunni eru þó tveir bæir, Basildon og Harlow, sem voru byggðir upp frá grunni til að hýsa fólk sem flutt hafði frá London eftir eyðilegginguna þar í seinni heimsstyrjöldinni. Báðir hafa vaxið heilmikið síðan. Eppingskógur takmarkar líka útþenslu frá London.

Vegna nálægðar London við Essex fara margir íbúar sýslunnar daglega til London í vinnu, sérstaklega frá þeim bæjum þar sem lestarstöðvar eru. Í Bretlandi er oft grínast með staðalímyndina „Essex girl“, sem þýðir nánast sama og heimsk ljóska, en „Essex man“ er aftur á móti notað um óheflaða menn af verkamannastétt sem kjósa Íhaldsflokkinn.

Fyrirhuguð er uppbygging í suðausturhluta sýslunnar, þar sem þegar eru þéttbýliskjarnarnir Southend og Thurrock á Thames Gateway-svæðinu. Í suðvesturhluta sýslunnar eru svæði sem hafa nánast runnið saman við London, til dæmis Buckhurst Hill og Chigwell, sem talin eru hluti af þéttbýli Stór-Lundúnasvæðisins. Norðan við „græna beltið“ er aðallega dreifbýli, nema bæirnir Colchester og Chelmsford. Í norðarhlutanum eru margir smábæir, þorp og smáþorp með húsum reistum úr hefðbundnum efnivið eins og timbri og múrsteini. Oft eru húsin þar með þökum úr leirhellum eða hálmi.

Brúin sem tengir Essex við Kent.

Aðalflugvöllurinn í Essex er London Stansted-flugvöllur og þaðan er flogið til ákvörðunarstaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Southend-flugvöllur, sem var áður einn fjölsóttasti flugvöllur á Bretlandi, er núna í endurbyggingu, en þaðan er þó flogið til Ermarsundseyja. Í sýslunni eru líka nokkrir litlir flugvellir, sumir þeirra voru gerðir á tímum fyrri eða seinni heimsstyrjaldarinnar. Nú eru þeir notaðir fyrir einkaflugvélar eða til flugkennslu.

Höfnin í Tilbury er ein þriggja aðalhafna Bretlands, og höfnin í Harwich tengir Essex við Holland. Í Dartford er stór brú sem tengir Essex við Kent í suðri. Einnig er hægt að fara yfir Thames-ána með ferju. Um alla sýsluna er víðtækt almenningsamgangnakerfi.

Hraðbrautirnar M25 og M11 liggja báðar yfir þvera sýsluna, og aðalvegirnir A12 og A13 liggja út frá London. Neðanjarðarlestakerfi Lundúnaborgar og önnur lestakerfi þjóna sumum hlutum sýslunnar.

Iðnaður og viðskipti

[breyta | breyta frumkóða]

Lakeside-verslunarmiðstöðin í Thurrock var ein fyrsta verslunarmiðstöð á Englandi og er enn vinsæl þrátt fyrir umferðartafir á M25-hraðbrautinni og samkeppni við Bluewater-verslunarmiðstöðina þar nálægt.

Iðnaðarsvæði eru aðallega í suðurhluta Essex en annars staðar í sýslunni er aðallega stundaður landbúnaður. Bærinn Harlow er miðstöð fyrir rafeindavara-, vísinda- og lyfjafyrirtæki, og evrópskar höfuðstöðvar Ford-bílaverksmiðjanna eru í Brentwood. Í bænum Loughton er prentsmiðja sem prentar breska og erlenda peningaseðla. Mörg rafeindafyrirtæki hafa byggst upp í Chelmsford allt frá árdögum rafeindaiðnaðsins, og þar eru líka nokkur vátrygginga- og fjármálafyrirtæki. Gosframleiðandinn Britvic er einnig þar.

Athyglisverðir staðir

[breyta | breyta frumkóða]

Vinasýslur

[breyta | breyta frumkóða]