Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Jóhanna af Örk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Málverk af Jóhönnu af Örk málað milli 1450 og 1500. Engar samtímamyndir af henni hafa varðveist.

Jóhanna af Örk (franska: Jeanne d'Arc; um 141230. maí 1431), kölluð mærin frá Orléans, var frönsk frelsishetja og dýrlingur. Hún hélt því fram að hún hefði fengið sýnir frá Guði sem skipuðu henni að vinna Frakkland undan enskum yfirráðum seint í Hundrað ára stríðinu. Hinn ókrýndi Karl 7. sendi hana til umsátursins um Orléans þar sem hún varð fræg fyrir að aflétta umsátrinu á aðeins níu dögum. Nokkrir fleiri sigrar leiddu til þess að Karl var krýndur í Reims og Frakkar fengu endurnýjað sjálfstraust. Hún var tekin höndum af Englendingum nærri Compiègne og var dæmd fyrir villutrú af dómi undir enska landstjóranum Jóhanni hertoga af Bedford sem lét brenna hana í Rúðuborg. Tuttugu og fjórum árum síðar veitti Kallixtus 3. páfi henni uppreist æru. Hún var tekin í dýrlinga tölu af Benedikt 15. 16. maí 1920.

Jóhanna af Örk var fædd árið 1412, í Domrémy í Frakklandi. Hún var dóttir fátækra bænda, Jacques d 'Arc og Isabelle Romée. Jóhanna gekk aldrei í skóla. Hún kunni ekki að skrifa og var ólæs og talið var að bréf hennar hafi verið skrifuð með hjálp annarra.

Þegar Jóhanna af Örk var 13 ára byrjaði hún að fá yfirnáttúrulegar trúarsýnir. Með tímanum urðu þær skýrari og þóttist hún sjá hin heilaga Mikael, heilögu Katrínu og heilögu Margréti. Jóhanna sagði þau hvetja hana til að frelsa Frakkland, fá að hitta Karl VII konung og biðja um stuðning hans til að hrekja Englendinga frá Frakklandi og krýna Karl VII sem konung Frakklands.

Þann 29. maí árið 1431 úrskurðaði dómstóll á vegum enska landstjórans í Frakklandi að Jóhanna væri sek um villutrú. Að morgni 30. maí var hún brennd á báli á markaðstorginu í Rúðuborg. Hún var þá aðeins 19 ára gömul. Ýmsar goðsögur hafa orðið til um Jóhönnu eftir andlát hennar. Ein þeirra segir frá því að hjarta hennar hafi ekki orðið eldinum að bráð og hafi fundist í öskunni óbrennt.

Eftir líflát Jóhönnu hélt Hundrað ára stríðið áfram í 22 ár til viðbótar. Karl VII boðaði til nýrrar rannsóknar á ásökunum á hendur Jóhönnu árið 1456. Niðurstaðan var að Jóhanna var sýknuð af öllum ákærum um villutrú og útnefnd píslarvottur. Jóhanna var tekin í dýrlingatölu þann 16. maí 1920 og er verndardýrlingur Frakklands.

Jóhanna af Örk brennd á báli. Málað af Jules Eugène Lenepveu á milli 1819 og 1898
  Þetta æviágrip sem tengist Frakklandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.