Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Kaka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af afmælisköku. Afmæliskaka er kaka sem bökuð er til að fagna afmæli einhvers.

Kaka er sætt brauðmeti sem er oftast bakað í ofni en stundum steikt á pönnu eða djúpsteikt í feiti. Kökur eru yfirleitt borðaðar með kaffi og öðrum drykkjum eða hafðar sem eftirréttur. Íburðarmiklar, skreyttar kökur eru oft kallaðar tertur en mörkin þar á milli eru óljós.

Kökutegundir

[breyta | breyta frumkóða]

Flestar kökur eru gerðar úr hveiti eða öðru mjöli, sætuefni (til dæmis sykri), bindiefni (svo sem eggi, fitu (til dæmis smjöri, smjörlíki eða olíu), stundum vökva (svo sem mjólk, vatni eða ávaxtasafa), svo og bragðefnum og lyftiefnum. Í sumum kökum eru einnig ávextir, ávaxtamauk, hnetur, súkkulaðibitar og fleira.

Kökur eru stundum þaktar kremi, glassúr, súkkulaði eða þeyttum rjóma. Stundum eru nokkrar þunnar kökur lagðar saman með kremi eða rjóma á milli og kallast kakan þá lagkaka eða lagterta. Kökur eru líka oft skreyttar með sælgæti, kökuskrauti, súkkulaðispónum, ávöxtum, berjum og fleiru. Stundum eru þær líka þaktar marsípani eða sykurmassa.

Mjög margar kökur eru bakaðar í kringlóttum formum en einnig eru til ferköntuð form, aflöng form (jólakökuform), stór, grunn form (ofnskúffur og rúllutertuform) og form með ýmiss konar lögun. Múffur, bollakökur og fleiri áþekkar kökur eru bakaðar í litlum formum. Smákökur eru litlar, þunnar kökur sem oftast eru bakaðar á málmplötu. Sumar kökur eru ekki bakaðar í formi eða á plötu, heldur djúpsteiktar í olíu eða annarri feiti, til dæmis kleinur, eða steiktar á pönnu (pönnukökur, lummur).

Kökur í einhverri mynd voru bakaðar þegar í fornöld. Forngrikkir steiktu kökur í olíu og bökuðu ostakökur. Rómverjar blönduðu smjöri, eggjum og hunangi saman við brauðdeig og bökuðu. Framan af var munurinn á brauði og kökum óljós og er það raunar enn að sumu leyti; til dæmis er álitamál hvort á að kalla sætt gerbrauð, bananabrauð og annað slíkt brauð eða kökur.

Talið er að svampkökur, þar sem egg eru þeytt til að fá lyftingu í deigið, hafi komið fram á síðmiðöldum, hugsanlega á Spáni. Fyrir tíma lyftiefna og hrærivéla þurfti að nota mikið af eggjum og þeyta mjög vel og lengi ef kökurnar áttu að vera léttar en einnig var mikið um kryddaðar ávaxtakökur sem geymdust vel. Kökubakstur var þó alltaf vandasöm list þegar bakað var við opinn eld eða í frumstæðum ofnum þar sem hitinn var ójafn og kom aðeins úr einni átt; þá þurfti að snúa kökunum oft og fylgjast vel með svo þær brynnu ekki og stórar kökur voru mjög lengi að bakast. Kökubakstur breyttist mikið þegar lyftiduft kom til sögunnar á síðari hluta 19. aldar og á svipuðum tíma urðu eldavélar með bakaraofnum almenningseign.

Kökur til hátíðabrigða

[breyta | breyta frumkóða]

Kökur eru oft bakaðar til að fagna ákveðnum tímamótum, til dæmis afmæli, skírn, fermingu eða brúðkaupi. Þá er oft um íburðarmiklar tertur að ræða, einkum þó brúðkaupstertur, sem oftar en ekki eru á mörgum hæðum og glæsilega skreyttar.

  • Alan Davidson: The Oxford Companion to Food. Oxford University Press, 1999.
  • Andrew F. Smith (ritstj.): The Oxford Encyclopedia of Food and Drink in America. Oxford University Press, 2004.