Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Kwame Nkrumah

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kwame Nkrumah
Forseti Gana
Í embætti
1. júlí 1960 – 24. febrúar 1966
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurJoseph Arthur Ankrah (sem formaður Þjóðfrelsisráðsins)
Forsætisráðherra Gana
Í embætti
6. mars 1957 – 1. júlí 1960
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
LandstjóriCharles Arden-Clarke
Listowel lávarður
ForveriHann sjálfur sem forsætisráðherra Gullstrandarinnar
EftirmaðurHann sjálfur sem forseti
Forsætisráðherra Gullstrandarinnar
Í embætti
21. mars 1957 – 6. mars 1957
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
LandstjóriCharles Arden-Clarke
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurHann sjálfur sem forsætisráðherra Gana
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. september 1909
Nkroful, Gullströndinni (nú Gana)
Látinn27. apríl 1972 (62 ára) Búkarest, Rúmeníu
ÞjóðerniGanverskur
MakiFathia Nkrumah
BörnFrancis, Gamal, Samia, Sekou
HáskóliLincoln-háskólinn í Pennsylvaníu
Pennsylvaníuháskóli
Hagfræðiskólinn í London
University College London
Gray's Inn

Kwame Nkrumah (21. september 190927. apríl 1972) var stjórnmálamaður og sjálfstæðishetja frá Gana, oft lýst sem helstu von álfunnar og fylgismaður Stór-Afríkustefnunnar.

Hann fæddist í bænum Nkroful á Gullströndinni þar sem nú er Gana og hét upphaflega Francis Nwia-Kofi Ngonloma. Hann lærði í Achimota í Akkra og síðan í kaþólskum skóla í Amisano. Eftir það varð hann kennari í kaþólskum skóla í Axim. Síðar fór hann til Bandaríkjanna og lauk M.Sc.-prófi í kennslufræði 1942 og ári síðar M.A.-prófi í heimspeki við Pennsylvaníuháskóla.

1945 flutti hann til London til að læra við London School of Economics. Þar hitti hann George Padmore og tók þátt í skipulagningu Stór-Afríkuþingsins 1945. Í framhaldinu varð hann virkur í hreyfingunni sem barðist fyrir sjálfstæði Afríkuríkja.

Hann sneri heim til Gana árið 1947 og gerðist félagi í United Gold Coast Convention sem var undir stjórn Joseph B. Danqauh. Sama ár stofnaði hann ný stjórnmálasamtök Convention People's Party með slagorðið „Sjálfstæði strax“. Hann sagði sig úr UGCC árið 1949 og hóf að skipuleggja fjöldaaðgerðir byggðar á borgaralegri óhlýðni. Bresku nýlenduyfirvöldin handtóku hann 1950. Skömmu síðar ákváðu Bretar að veita nýlendunni sjálfstæði og boðuðu til kosninga til nýs löggjafarþings árið 1951. Nkrumah sat þá enn í fangelsi en hlaut kosningu á þingið. Honum var sleppt og hann tók að sér að leiða bráðabirgðastjórn ásamt breska landstjóranum.

6. mars 1957 lýsti Gana yfir sjálfstæði og Nkrumah var tilnefndur forsætisráðherra. Í fyrstu var þjóðhöfðingi landsins breski konungurinn en var lýst lýðveldi árið 1960. Í kjölfarið fylgdi efnahagsleg niðursveifla og órói í landinu. Meðal annars var reynt að myrða Nkrumah. Eftir þetta urðu stjórnarhættir hans gerræðislegri. Hann lýsti yfir flokksræði 1964 og gerði sjálfan sig að forseta til æviloka.[1] Á sama tíma einangraði hann landið efnahagslega.

Meðan á heimsókn hans í Peking og Hanoi stóð árið 1966 var honum steypt af stóli í herforingjabyltingu.[2] Eftir þetta gat hann ekki snúið aftur til Gana, en bjó í Gíneu og hélt áfram að vinna að hugsjóninni um sameiningu Afríkumanna. Hann lést árið 1972 í Rúmeníu þar sem hann var að leita sér lækninga.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Frelsarinn fallinn“. Alþýðublaðið. 26. febrúar 1966. bls. 8.
  2. „„Hans Messíasarhátign" steypt af stalli í gær“. Morgunblaðið. 25. febrúar 1966. bls. 17.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Gana
(19601966)
Eftirmaður:
Joseph Arthur Ankrah
(sem formaður Þjóðfrelsisráðsins)