Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Marokkó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Konungs­ríkið Mar­okkó
المملكة المغربية
Al Mamlaka al-Maghrebiya
Fáni Marokkó Skjaldarmerki Marokkó
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
الله، الوطن، الملك
Allah, al Waţan, al Malik (arabíska)
Guð, Landið, Konungurinn
Þjóðsöngur:
Hymne Cherifien
Staðsetning Marokkó
Höfuðborg Rabat
Opinbert tungumál arabíska, tamazight
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Múhameð 6.
Forsætisráðherra Aziz Akhannouch
Stofnun
 • Ídrisætt 788 
 • Alavíætt 1631 
 • Verndarríki Frakklands 30. mars 1912 
 • Sjálfstæði 7. apríl 1956 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
57. sæti
446.550 (710.850 með Vestur-Sahara) km²
0,06
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
39. sæti
37.112.080
50/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 332,358 millj. dala (58. sæti)
 • Á mann 9.339 dalir (153. sæti)
VÞL (2019) 0.686 (121. sæti)
Gjaldmiðill díram
Tímabelti UTC
Þjóðarlén .ma
Landsnúmer ++212

Marokkó (arabíska: المغرب‎ al-Maġrib; berbíska: ⵍⵎⴰⵖⵔⵉⴱ Lmaġrib) er konungsríki í Norður-Afríku með strandlengju meðfram Atlantshafi í vestri og Miðjarðarhafi í norðri. Landamæri liggja að Vestur-Sahara í suðri, og Alsír í austri, en landamærin að Alsír eru lokuð vegna átaka um yfirráð yfir Vestur-Sahara. Arabískt nafn landsins merkir „vesturríkið“ eða „vestrið“, en Maghreb er líka heiti á norðvesturhluta Afríku.

Marokkó gerir tilkall til landsvæðisins Vestur-Sahara sem hefur verið undir marokkóskri stjórn að meira eða minna leyti síðan 1975, en þau yfirráð hafa ekki verið viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Sé Vestur-Sahara talin til Marokkó, eru ennfremur landamæri við Máritaníu til suðausturs, en annars liggja Marokkó og Máritanía ekki saman.

Spænsku útlendurnar Ceuta og Melilla eru á strönd Marokkó sem gerir tilkall til þeirra, auk eyjunnar Perejil sem er aðeins 200 metra frá strönd Marokkó í Gíbraltarsundi. Undan vesturströnd Marokkó eru hinar spænsku Kanaríeyjar en landhelgismörkin milli Marokkó og eyjanna eru líka umdeild.

Í Marokkó ríkir þingbundin konungsstjórn þar sem marokkóska þingið er þjóðkjörið en konungur Marokkó hefur mikil völd, sérstaklega í málefnum hersins, utanríkismálum og trúmálum. Konungur getur gefið út konunglegar tilskipanir sem hafa lagagildi og leyst þingið upp.

Fullt heiti Marokkó á arabísku er المملكة المغربية al-Mamlakah al-Maghribiyyah sem þýða má „konungsríki vestursins“, þótt „vestur“ sé al-Gharb á arabísku. Arabískir sagnaritarar miðalda notuðu stundum heitið al-Maghrib al-Aqṣá sem merkir „ysta vestrið“ til að greina landið frá nágrannahéruðum, sem þá voru nefnd al-Maghrib al-Awsaṭ sem merkir „miðvestrið“ (Alsír) og al-Maghrib al-Adná „nærvestrið“ (Túnis).[1]

Heitið Marokkó er dregið af heiti borgarinnar Marrakess, sem var höfuðborg landsins á tímum Almoravída og Almóhada.[2] Uppruni heitisins er umdeildur.[3] Líklega er það dregið af berbíska orðinu ⴰⵎⵓⵔ ⵏ ⵡⴰⴽⵓⵛ amur (n) w'akush „land guðs“.[4] Í dag nefnist borgin Mṛṛakc á berbísku. Á tyrknesku nefnist Marokkó Fas, sem er dregið af hinni fornu höfuðborg Fes. Í öðrum löndum Arabaheimsins, til dæmis í ritum frá Egyptalandi og Mið-Austurlöndum, fyrir 20. öld var algengasta heiti Marokkó مراكش Murrakush.[5] Það nafn er enn notað í sumum málum, eins og persnesku, úrdú og púnjabísku. Heiti landsins á flestum Evrópumálum er dregið af spænska orðinu Marruecos.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Toubkal er hæsti tindur Norðvestur-Afríku, 4.167 metrar á hæð.
Hluti Anti-Atlasfjalla við Tafraout.
Gamall atlantssedrus í Atlasfjöllum.

Marokkó á strönd að Atlantshafi sem nær framhjá GíbraltarsundiMiðjarðarhafi. Marokkó á landamæri að Spáni í norðri (landhelgismörk um mitt sundið og landamæri að þremur litlum útlendum Spánar, Ceuta, Melilla og Peñón de Vélez de la Gomera), Alsír í austri og Vestur-Sahara í suðri. Þar sem Marokkó ræður í reynd yfir stærstum hluta Vestur-Sahara á það líka landamæri að Máritaníu í suðri.

Alþjóðlega viðurkennd landamæri landsins liggja milli 27. og 36. breiddargráðu norður, og 1. og 14. lengdargráðu vestur. Ef Vestur-Sahara er bætt við liggur Marokkó að mestu milli 21. og 36. breiddargráðu norður og 1. og 17. lengdargráðu vestur (skaginn Ras Nouadhibou er eilítið sunnar en 21˚ og vestar en 17˚).

Landfræði Marokkó nær frá ströndum við Atlantshaf, að fjöllum og inn í Saharaeyðimörkina. Marokkó er Norður-Afríkuland og eitt af þremur löndum heims sem á strönd bæði að Atlantshafi og Miðjarðarhafi (ásamt Spáni og Frakklandi).

Stórir hlutar landsins eru fjalllendi. Atlasfjöll eru aðallega í miðju og suðurhluta landsins. Riffjöll eru í norðurhlutanum. Báðir fjallgarðarnir eru aðallega byggðir Berbum. Marokkó utan Vestur-Sahara er 57. stærsta land heims. Alsír á landamæri að Marokkó í austri og suðaustri, en landamærin milli landanna hafa verið lokuð frá 1994.

Spánn ræður yfir fimm útlendum á og við Miðjarðarhafsströnd Marokkó: Ceuta, Melilla, Peñón de Vélez de la Gomera, Peñón de Alhucemas, eyjunum Islas Chafarinas og umdeildu smáeyjunni Isla Perejil. Kanaríeyjar, undan Atlantshafsströnd Marokkó, heyra líka til Spánar, en Madeira í norðri er hluti af Portúgal. Í norðri liggur Marokkó að Gíbraltarsundi sem er fjölfarin siglingaleið milli Atlantshafs og Miðjarðarhafs.

Riffjöll ná yfir landsvæði sem liggur að Miðjarðarhafi frá norðvestri til norðausturs. Atlasfjöll mynda fjallshrygg eftir miðju landsins frá norðaustri til suðvesturs. Mest af suðausturhluta landsins er í Saharaeyðimörkinni. Þar er mjög dreifbýlt og lítið um ræktarland. Flestir íbúar Marokkó búa norðan við fjöllin, en sunnan megin er Vestur-Sahara, fyrrum spænsk nýlenda sem Marokkó lagði undir sig árið 1975 (sjá Græna gangan). Marokkó lítur á Vestur-Sahara sem hluta af sínu landi og kallar það Suðurhéruð Marokkó, en það tilkall nýtur takmarkaðrar alþjóðlegrar viðurkenningar.

Höfuðborg Marokkó er Rabat, en stærsta borgin er aðalhafnarborgin, Casablanca. Aðrar borgir með yfir 500.000 íbúa samkvæmt manntali frá 2014 eru Fes, Marrakess, Meknes, Salé og Tangier.[6]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Héruð Marokkó (utan Vestur-Sahara).

Marokkó skiptist opinberlega í 12 héruð,[7] sem aftur skiptast í 62 sýslur og 13 lögregluumdæmi.[8]

Héruð

  1. Tanger-Tetouan-Al Hoceima
  2. Oriental
  3. Fès-Meknès
  4. Rabat-Salé-Kénitra
  5. Béni Mellal-Khénifra
  6. Casablanca-Settat
  7. Marrakech-Safi
  8. Drâa-Tafilalet
  9. Souss-Massa
  10. Guelmim-Oued Noun
  11. Laâyoune-Sakia El Hamra
  12. Dakhla-Oued Ed-Dahab
Útflutningsafurðir Marokkó árið 2017.

Hagkerfi Marokkó er talið vera tiltölulega frjálslynt markaðshagkerfi. Frá 1993 hefur landið staðið fyrir einkavæðingu tiltekinna atvinnugeira sem áður heyrðu undir ríkisstjórn Marokkó.[9] Marokkó hefur aukið vægi sitt í viðskiptalífi Afríku,[10] og er 5. stærsta hagkerfi álfunnar. The Economist mat lífsgæði í Marokkó þau mestu í Afríku, meiri en í Suður-Afríku, árið 2018. Síðan þá hefur Marokkó fallið niður í 4. sæti, á eftir Egyptalandi.

Efnahagsumbætur stjórnvalda og stöðugur vöxtur upp á 4-5% frá 2000 til 2007, þar á meðal 4,9% hagvöxtur milli ára frá 2003 til 2007, hefur styrkt efnahag Marokkó verulega miðað við nokkrum árum fyrr.[11]

Um helmingur landsframleiðslu kemur frá þjónustugeiranum og um fjórðungur frá iðnaði, aðallega námavinnslu og framleiðsluiðnaði. Mestur vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu, fjarskiptaþjónustu, upplýsingatækni og textílframleiðslu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Yahya, Dahiru (1981). Morocco in the Sixteenth Century. Longman. bls. 18.
  2. „Regions of Morocco“. statoids.com. Sótt 7. september 2007.
  3. Shillington, Kevin (2005). Encyclopedia of African history. London/New York: Fitzroy Dearborn. bls. 948.
  4. Nanjira, Daniel Don (2010). African Foreign Policy and Diplomacy From Antiquity to the 21st Century. ABC-CLIO. bls. 208.
  5. Gershovich, Moshe (12. október 2012). French Military Rule in Morocco. doi:10.4324/9780203044988. ISBN 9780203044988.
  6. „POPULATION LÉGALE DES RÉGIONS, PROVINCES, PRÉFECTURES, MUNICIPALITÉS, ARRONDISSEMENTS ET COMMUNES DU ROYAUME D'APRÈS LES RÉSULTATS DU RGPH 2014“ (arabíska og franska). High Commission for Planning, Morocco. 8. apríl 2015. Sótt 29. september 2017.
  7. „Décret fixant le nom des régions“ (PDF). Portail National des Collectivités Territoriales (franska). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 18. maí 2015. Sótt 11. júlí 2015.
  8. „Morocco Prefectures“. www.statoids.com.
  9. Leonard, Thomas M. (2006). Encyclopedia of the Developing World. Taylor & Francis. bls. 1085. ISBN 978-0-415-97663-3.
  10. Morocco major economic player in Africa, researcher Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine. Moroccobusinessnews.com (16. desember 2009). Sótt 17. apríl 2015.
  11. „IMF Gives Morocco Positive Review. nuqudy.com (2012-02-09)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. júní 2017. Sótt 1. október 2021.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.