Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Saga Norðurlanda

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Norðurlönd (að Íslandi undanteknu) um 1020
Norðurlönd (að Íslandi undanteknu) um 1219. Guli liturinn sýnir svæði sem Danir hertóku 1219, sá rauði sýnir svæði þýsku Sverðsreglunnar, Schwertbrüder
Norðurlönd (að Íslandi undanteknu) 1658. Græni liturinn sýnir svæði sem Svíþjóð afhenti Danmörku aftur 1660

Saga Norðurlanda nær alla leið aftur á steinöld, en síðan þá hefur fólk búið á Norðurlöndum.

Venjulega er sagt að víkingaöldin hafi staðið yfir frá 793 til 1066. Við þessi ártöl er miðað vegna þess, að 793 er árið þegar víkingar réðust á eyjuna Lindisfarne (Lindesfarne) við strönd Norðimbralands á Norður-Englandi, og 1066 er árið þegar Haraldi þriðja af Noregi, sem einnig er nefndur Haraldur harðráði, mistókst að ráðast inn í England. Einnig kann viðgangur kristinnar trúar á Norðurlöndum að hafa átt þátt í því að víkingaferðir lögðust af.

Eftir víkingaöldina tók við tímabil sem kennt er við Kalmarsambandið og stóð í u.þ.b. 130 ár. Þetta var tímabil þar sem Norðurlönd voru sameinuð undir einni konungsstjórn í Danmörku. Vegna óánægju Svía með þá tilhögun leystist þetta samband upp um 1523 og Danmörk og Noregur mynduðu eitt konungsveldi meðan Svíþjóð myndaði annað sem náði yfir svæði það sem kallast Svíþjóð og Finnland í dag.

Næstu 300 árin breytast hagir lítið en mikið er um ófrið milli Svíþjóðar og Danmerkur-Noregs og vann Svíþjóð æ meira á. Einnig stóð Danmörk-Noregur í stríði við Prússa um lendur í suðri sem endaði með ósigri Danmerkur-Noregs.

Í lok Napóleonsstyrjaldanna neyddust Danir árið 1814 til að láta Noreg af hendi til Svíþjóðar og Helgoland til Bretlands. Noregur og Svíþjóð voru þó ekki sameinuð heldur undir sameiginlegri konungsstjórn. Árið 1808 hertók Rússland austurhluta sænska ríkisins, en Finnland og Svíþjóð höfðu þá verið eitt ríki í yfir 700 ár. Stórfurstadæmið Finnland varð hluti af rússneska keisaradæminu.

Áratugirnir 1830-1860 einkenndust mjög af svonefndum skandinavisma í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Innblásnir af þjóðernishyggju og fornaldarljóma leituðust menn við að efla samstarf þessara landa og einingu á stjórnmálasviði og raunar var miðað að því að mynda norrænt ríkjabandalag. Þótt ekki hafi orðið úr lagði skandinavisminn grunninn að nútímasamstarfi Norðurlandanna. Einn afrakstur varð líka myntbandalag Dana, Svía og Norðmanna sem hélst 1873-1914.

Það var þó ekki fyrr en 1952 með stofnun Norðurlandaráðs og með Norræna vegabréfasambandinu 1957 að formlegt samstarf ríkjanna allra tók á sig form og efldist síðan við stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar 1971.

Þróun ríkja á Norðurlöndunum

[breyta | breyta frumkóða]
Öld Norðurlönd
21. öld Danmörk (ESB) Færeyjar Grænland Ísland Noregur Svíþjóð (ESB) Álandseyjar (ESB Finnland (ESB)
20. öld Danmörk Svíþjóð Álandseyjar Finnland
19. öld Danmörk Svíþjóð-Noregur Álandseyjar SFD Finnland
18. öld Danmörk-Noregur Svíþjóð
17. öld
16. öld
15. öld Kalmarsambandið
14. öld Danmörk Noregur Svíþjóð
13. öld
12. öld Færeyjar Grænland Ísland Noregur
Frumbyggar Danir / Jótar Færeyingar² Grænlendingar³ Íslendingar² Samar / Norðmenn Samar / Svíar / Gautar Svíar Samar / Finnar

1/ Álandseyjar teljast vera í ESB með Finnlandi en njóta vissra undanþága frá lögum sambandsins.
2/ Landnámsmenn Færeyja og Íslands voru af norrænum og keltneskum uppruna.
3/ Grænland byggðist út frá Íslandi á 10. öld en var numið af inúítum á 13. öld. Norræna byggðin lagðist af á 15. öld en Grænland taldist enn hluti Noregs og síðar Dansk-norska ríkisins að nafninu til. Danir hófu síðan skipulegt trúboð á Grænlandi 1721.