Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Speyer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Speyer
Skjaldarmerki Speyer
Staðsetning Speyer
SambandslandRínarland-Pfalz
Flatarmál
 • Samtals42,58 km2
Hæð yfir sjávarmáli
103 m
Mannfjöldi
 (31. des 2013)
 • Samtals49.740
 • Þéttleiki1.168/km2
Vefsíðawww.speyer.de

Speyer er keisaraborg í þýska sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz og er með 49.740 þúsund íbúa (31. desember 2013). Dómkirkjan í borginni er stærsta rómanska kirkja heims.

Dómkirkjan í Speyer er á heimsminjaskrá UNESCO

Speyer liggur við Rínarfljót nær austast í sambandslandinu, gegnt Baden-Württemberg. Næstu borgir eru Mannheim til norðurs (20 km), Hockenheim í Bæjaralandi til austurs (10 km) og Karlsruhe til suðurs (25 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Speyer sýnir vesturhlið dómkirkjunnar frægu. Dómkirkjan hefur verið til á innsiglum borgarinnar síðan á 13. öld. Núverandi skjaldarmerki var tekið upp 1846 meðan Speyer tilheyrði Bæjaralandi.

Borgin hét upphaflega Civitas Nemetum með viðheitinu „id est Spira“ en var fljótlega breytt í Noviomagus. Þegar germanir tóku borgina kölluðu þeir hana Spira, sem breyttist í Speyer með tímanum. Spira var heitið á ánni sem germanska þorpið hafði staðið við.[1]

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf Speyer er rómersk herstöð sem reist var 10 f.Kr en á þeim tíma reistu Rómverjar herstöðvar á vissu millibili við Rínarfljót til að tryggja landamærin til Germaníu. Árið 74 e.Kr. voru Rómverjar búnir að hernema svæði austan við Rínarfljót. Við það varð Speyer ekki lengur landamærastöð og yfirgáfu þá hermenn svæðið. Þess í stað settust almennir rómverskir borgarar að í stöðinni og varð Speyer að borg í skattlandinu Germania Superior. Þrátt fyrir það réðust germanir oft yfir landamærin og gerðu Rómverjum miklar skráveifur. Árið 275 réðust alemannar á Speyer og nær gjöreyddu henni. Alemannar voru áfram mikil ógn við borgarbúa, þannig að Speyer var víggirt. Árið 343 varð Speyer að biskupssetri, einum hinum elsta á þýskri grundu. Á 5. öld brustu flótgáttirnar og germanir streymdu á landsvæðið vestan Rínar. Rómverjar yfirgáfu borgina smátt og smátt. Um aldamótin 500 var heiti borgarinnar breytt í Spira og markar það landnám germana í borginni.

Speyer varð brátt hluti hins mikla frankaríkis, en var þó ekki mikilvæg borg. Þó komu Karlamagnús og nokkrir konungar þýska ríkisins þar við, en dvöldu ávallt stutt. Sökum þess að landgreifarnir og biskuparnir voru í sífelldum erjum um yfirráðin yfir borginni, ákvað Otto I keisari árið 969 að gefa biskupunum í borginni pólitískt stjórnunarvald yfir héraðinu en slíkt var ekki óalgengt í ríkinu. Þetta fyrirkomulag hélst allt til 1294. Það var Konráður II sem hóf Speyer sem keisaraborg, með því að láta reisa margar nýjar byggingar og dvelja þar. Eftirmenn hans héldu þróuninni áfram. Þetta var hinn mikli blómatími borgarinnar, sem varð að einum mesta verslunarstað við ofanvert Rínarfljót í þýska ríkinu. Konráður sjálfur hvílir í dómkirkjunni, ásamt nokkrum öðrum konungum. Árið 1111, daginn sem Hinrik V tók við konungdómi af föður sínum, veitti hann borginni víðtæk réttindi. Borgin komst því sem næst að vera fríborg, þrátt fyrir að biskuparnir voru enn veraldlegir stjórnendur hennar. Við andláts Hinriks 1125 dó Salier-ættin út. Nýr konungur varð þá Lóþar III. Hann var ekki sérlega vinsæll og var Konráður III af Staufen-ættinni valinn sem gagnkonungur. Borgin Speyer hélt við Konráð, sem oftar en ekki sat í Speyer, og varð að nokkurs konar höfuðborg ríkisins til skamms tíma. Við þetta gat Lóþar ekki unað. 1128 safnaði hann liði og gerði umsátur um Speyer. Borgin var með mikla varnarmúra og stóðst öll áhlaup. En þegar hungrið tók að sverfa að, gáfust borgarbúar upp. Konráður flúði, en Speyer varð að vígi fyrir Lóþar. Aðalbert biskup réði þar öllu, enda vilhollur Lóþari. Lóþar lést 1137 og varð Speyer þá aftur hliðholl Konráði og eftirmönnum hans.

Krossferðir

[breyta | breyta frumkóða]

Borgin var svo mikilvæg í ríkinu að 1141 var safnast saman þar og lagt af stað í 2. krossferðina til landsins helga. 1146 var franski munkurinn Bernard frá Clairvaux í Speyer og predikaði í dómkirkjunni. Hann hvatti til krossferða til landsins helga, enda var hann einn ötullasti málsvari krossferðanna síns tíma. 1189 ákvað Friðrik Barbarossa keisari að legga í krossferð, þá þriðju í sögunni. Í ferðinni átti hann að sameinast herjum Ríkharðs ljónshjarta Englandskonung og Filippusar II Frakklandskonungs. Friðrik drukknaði hins vegar á leiðinni. Nýr konungur varð Hinrik VI, sonur Friðriks. Ríkharður hafði hins vegar stutt andstæðinga hans. Því gerðist það á heimleið Ríkharðs að hann var handtekinn af Leopold, hertoganum í Vín 1192. 28. mars framseldi Leopold hann til Hinriks VI í borginni Speyer. Ríkharður var þó ekki lengi fangi í Speyer, því Hinrik lét setja hann í varðhald í virkinu Trifels í Pfalz, þar til Ríkharður hafði gengið að öllum skilyrðum fyrir lausn sinni. 1294 urðu biskuparnir undir í baráttunni um veraldlegu völdin í borginni og afsöluðu sér öllum réttindum. Speyer varð að fríborg í ríkinu.

Siðaskipti

[breyta | breyta frumkóða]
Stytta af Marteini Lúther og tveimur furstum sem stóðu að mótmælunum á ríkisþinginu í Speyer 1529.

Á 16. öld var Speyer oft miðdepill ríkisins. Á fyrri hluta aldarinnar voru haldin 30 ríkisþing, þar af fimm í Speyer. 1525 var í fyrsta sinn predikuð lúterstrú í Speyer. Nýja trúin féll í góða jarðvegi, en fékk ekki útbreiðslu sökum sterkra ítaka kaþólsku kirkjunnar þar í borg. Seinna sama ár gerðu bændur í nálægum héruðum uppreisn. Um sumarið þrömmuðu þeir til Speyer og var ætlunin að hertaka borgina og gera hana lúterska. Íbúar notuðu tækifærið til að mótmæla gömlu trúnni og tökin sem hún hafði á hversdagslíf þeirra. En áður en til bardaga kom var samið við bændur og þeir sneru sér annað. Næsta ár var haldið ríkisþing í borginni. Karl V keisari var ekki mættur í eigin persónu. Rætt var um nýju trúna en að öðru leyti var niðurstaða þingsins lítil. Á þessum tíma datt engum í hug að kirkjan myndi klofna. Annað var upp á teningnum fjórum árum seinna. Ríkisþingið í Speyer 1529 var vendipunktur siðaskiptanna. Þar var samþykkt sú tillaga að afnema það litla trúfrelsi sem þegnar ríkisins höfðu búið við og banna með öllu nýju trúna. Auk þess átti að leggja ríkisbann á Martein Lúther. Það sem í raun var verið að samþykkja var að kaþólska kirkjan fengi enn meiri völd yfir fólkinu. Þessu mótmæltu furstar og hertogar víða um ríkið. Þeir sömdu mótmælaskjal sem lesið var upp á þinginu en því var vitanlega hafnað. Þetta skjal markar upphafið á klofningu kirkjunnar. Lúterstrúin varð formlega að klofinni kirkju frá kaþólsku kirkjunni. Héðan í frá var í fyrsta sinn talað um mótmælendur (Protestanten á þýsku), það er að segja þeir sem mótmæltu afnámi trúfrelsis á þinginu. Mótmælin á ríkisþingingu í Speyer urðu því að heimssögulegum atburði. Nokkur fleiri ríkisþing voru haldin í Speyer. Eitt allra stærsta þingið í þýska ríkinu var haldið þar 1570. Á þessum tíma var Speyer orðin lútersk borg. Þingið stóð yfir í tíu heila mánuði en ekki kom fram neitt nýtt í tengslum við siðaskiptin. Hins vegar var ákveðið að staðsetja æðsta ríkisdómstólinn í Speyer. Dómstóllinn var mannaður af upplýstu og frjálslegu fólki. Til marks um gott dómsstarf meðlimanna má nefna að í Speyer var aðeins ein persóna brennd á báli fyrir galdra á þessum tímum, þrátt fyrir að nær stanslaust var verið að vísa galdramálum til dómsins.

Speyer um 1750

Í upphafi 30 ára stríðsins var Speyer meðlimur í bandalagi mótmælenda. En sökum þess hve borgin var illa varin (fáir vopnfærir menn) og erfiðrar fjárhagsstöðu, gekk borgin úr bandalaginu 1621 og lýsti yfir hlutleysi. Speyer var þar með fyrsta borgin í ríkinu sem lýsti yfir hlutleysi. Í fyrstu kom borgin ekki við sögu í stríðinu, annað en að margir flóttamenn settust þar að. Spánverjar voru hins vegar í héraðinu í kringum 1630. Eftir það dundu hörmungarnar yfir. Á aðeins þremur árum, 1632-35, var Speyer hertekin þrisvar. Fyrst af Svíum, síðan af keisaraher og loks af Frökkum. 1635 hernam keisareherinn borgina á nýjan leik og hélt henni til 1644. Eftir það voru Frakkar á ferðinni á ný og héldu borginni út stríðið. Síðustu herirnir hurfu ekki þaðan fyrr en 1650, tveimur árum eftir stríðslok. Við bættist pest og hungursneyð. Íbúum hafði snarfækkað og borgin var orðin sárafátæk. Gullaldartími Speyer var endanlega liðinn. 1689 réðust Frakkar aftur á Speyer í 9 ára stríðinu. Þeir ráku flesta borgarbúa burt, rændu öllu sem hægt var að ræna og brenndu borgina til kaldra kola. Aðeins örfáar byggingar stóðu eftir uppi, þar á meðal dómkirkjan. Enn voru Frakkar á ferðinni 1792, en þá hertók franskur byltingarher borgina. Hún var innlimuð Frakklandi fimm árum síðar. Frakkar afnámu lénsskipulagið, leystu upp klaustur, gerðu eignir kirkjunnar upptæka, settu ný lög og neyddu borgarbúa til hlýðni. Þeir voru komnir á fremstan hlunn með að rífa dómkirkjuna frægu, en biskupnum í Mainz tókst að hindra það á síðustu stundu. Þess í stað notuðu Frakkar kirkjuna sem hesthús og lager. Frakkar voru hraktir úr borginni 1814. En þegar Napoleon flúði frá Elbu og safnaði liði, varð Speyer að viðkomustað evrópskra herja. 27. júní 1815 hittust Friðrik Vilhjálmur III Prússakonungur, Frans I keisari Austurríkis og Alexander I Rússakeisari í Speyer til að ráða ráðum sínum um framhaldið í Napoleonsstríðinu. Þegar stríðinu lauk úrskurðaði Vínarfundurinn að Speyer skyldi tilheyra Bæjaralandi.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]
Sögusafnið í Speyer. Þar er m.a. keisarakóróna Konráðs II geymd til sýnis.

1815 voru 6.000 íbúar í Speyer og jókst sú íbúatala hægt. Ekki er hægt að tala um mikla iðnbyltingu í borginni sökum þessa. 1837 var Rínarhöfnin við borginni lögð og 1847 fékk borgin járnbrautartengingu. Þessi samgöngubót varð borginni meiri lyftistöng en nýstofnaður iðnaður. Íbúar 1871 voru til dæmis aðeins tæpir 13 þúsund. Í lok heimstyrjaldarinnar fyrri yfirgáfu herdeildir frá Bæjaralandi og Austurríki borgina, en Frakkar komu í staðin. Franska hersetan varaði til 1930, er Speyer varð aftur bærísk. Í heimstyrjöldinni síðari slapp borgin við nær allar loftárásir bandamanna. Skemmdir urðu óverulegar. Síðustu dagar stríðsins í borginni voru dramatískir. 22. mars 1945 ákvað herforingi nasista að verja skyldi borgina til hinsta manns, en bandamenn voru þá að nálgast. Um kvöldið var ákveðið að flytja borgarbúa burt. Þeir voru því smalaðir saman og fluttir yfir Rínarfljót. Daginn eftir kröfðust konurnar úr borginni hins vegar að herliðið ætti að gefast bardagalaust upp fyrir Bandaríkjamönnum. Nasistar voru á báðum áttum. Þeir sprengdu að vísu Rínarbrúna, en ákváðu svo að flýja einir. Þýskir hermenn yfirgáfu svæðið og skildu borgarbúa eftir við eystri Rínarbakkann. Að morgni 24. mars þrömmuðu Bandaríkjamenn inn í Speyer og fundu hana mannlausa fyrir. Borgarbúar fengu að snúa til baka. Speyer var á hernámssvæði Frakka og var hún undir franskri stjórn allt til stofnun sambandslandsins Rínarlands-Pfalz 1949. Eitt stærsta iðnfyrirtæki sem starfrækt var í borginni eftir strið var flugvélafyrirtækið Heinkel.

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Minningarkirkjan
Altpörtel
  • Dómkirkjan í borginni er stærsta rómanska kirkja heims sem enn stendur. Það var Konráður II keisari sem lét reisa kirkjuna 1030 og var hún vígð 1061 þegar Hinrik IV var keisari. En hann lét rífa hluta hennar aftur eftir 20 ár til að stækka hana verulega og hækka. Hún var fullgerð 1106, á dauðaári Hinriks Þá var hún stærsta kirkja heims. 1689 földu íbúar húsgögn sín í kirkjunni fyrir Frökkum meðan 9 ára stríðið í Pfalz geysaði. En Frakkar brutu kirkjudyrnar upp, rændu verðmætum og brenndu allt inni. Í Napoleonsstríðunum notuðu Frakkar kirkjuna sem hesthús og lager. Nær lá við að þeir rifu hana til að nýta grjótið. Eftir fall Napoleons var kirkjan vígð á ný og var biskupakirkja frá 1818. Á miðri 20. öld var kirkjan gerð upp og reynt að láta upphaflega útlit halda sér. Hún er alls 134 metra löng og er hæst 71 metri. Í kjallaranum eru grafhvelfingar ýmissa keisara og konunga. Þar má nefna Konráð II og eiginkonu hans Giselu, Hinrik III, Hinrik IV og eiginkonu hans Berthu, Hinrik V., Beatrix keisaraynju (2. eiginkona Friðriks Barbarossa), Filippus frá Schwaben, Rúdolf frá Habsborg, Adolf frá Nassau og Albrecht frá Austurríki. 1981 var kirkjan sett á heimsminjaskrá UNESCO.
  • Minningarkirkjan var reist til minningar um mótmælin í borginni 1529 sem ýttu af stað mótmælendahreyfinguna á dögum Lúthers. Kirkjan var reist 1893-1904 í gotneskum stíl og var Vilhjálmur II Prússakeisari verndari hennar. Kirkjan er 72 metra löng og 105 metra há. Minningarsalur er neðst í turnunum. Þar er bronsstytta af Marteini Lúther og nokkrum furstum sem að mótmælunum stóðu 1529.
  • Altpörtel heitir borgarhlið í gamla borgarmúrnum. Óvíst er hvenær það var reist en það kemur fyrst við skjöl 1176. Það er 55 metra hátt og er því meðal hæstu og merkilegustu borgarhliða Þýskalands. Núverandi bygging var endurgerð á fyrri hluta 13. aldar en efsta turnhlutanum var bætt við 1512-14. Í 9 ára stríðinu var hlið þetta með fáum mannvirkjum sem slapp án skemmda, en þá var mestur hluti múrsins gamla eyðilagður. Frakkar voru búnir að undirbúa sprengingu hliðsins en þá gátu ábótinn og munkarnir gert þeim ljóst að þá mundi vistarverur Frakka í klaustrinu við hliðina vera í hættu. Þeir féllu reyndar á knén fyrir framan Frakka og grátbáðu þá um að hlífa turninum og þar með klaustrinu. Foringi Frakka sagði þá: „Standið upp börnin mín, turninn skal standa.“ Turninn þjónaði einnig sem tollstöð. Auk þess voru þar geymd verkfæri böðlanna. 1708 fékk hliðið núverandi þak og hefur byggingin staðið af sér veður og stríð síðan.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 247.

Fyrirmynd greinarinnar var „Speyer“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.