Wilhelmshaven
Wilhelmshavens | |
---|---|
Sambandsland | Neðra-Saxland |
Flatarmál | |
• Samtals | 106,91 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 2 m |
Mannfjöldi | |
• Samtals | 75.728 (31 desember 2.013) |
• Þéttleiki | 708/km2 |
Vefsíða | www.wilhelmshaven.de |
Wilhelmshaven er hafnarborg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi með 76 þúsund íbúa (31. desember 2013). Hún er stærsta borg héraðsins Austur-Fríslands og er næstvestasta hafnarborg Þýskalands (á eftir Emden). Wilhelmshaven er og hefur verið mikilvægasta herskipahöfn Þýskalands við Norðursjó.
Lega
[breyta | breyta frumkóða]Wilhelmshaven liggur við flóann Jadebusen að vestanverðu, sem gengur suður úr Vaðhafinu (Norðursjó), fyrir sunnan austustu eyju Austurfrísnesku eyjanna. Næstu borgir eru Bremerhaven til austurs (25 km í loftlínu), Aldinborg til suðurs (30 km) og Emden til vesturs (75 km).
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Wilhelmshaven sýnir hermann gamla tímans, klæddan í rauðu á gulum grunni. Hermaðurinn er frísi enda er Wilhelmshaven í Austur-Fríslandi. Litir borgarinnar eru gulur og rauður. Merki þetta er upprunnið á miðöldum en var formlega tekið upp í borginni 1949.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Bærinn myndaðist í kringum nýja höfn sem átti að heita Zollern am Meer. En 1869 heimsótti Vilhjálmur I prússakonungur höfnina og var hún því nefnd Wilhelmshaven honum til heiðurs. Nafnið er skrifað með norðurþýskum rithætti, þ.e. –haven í stað –hafen (sbr. Cuxhaven og Bremerhaven).[1]
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Upphaflega bjuggu frísar á landsvæðinu. En síðustu aldir átti stórhertogadæmið Aldinborg landið í kring. 1853 keypti Prússland landið allt af Aldinborg í þeim tilgangi að mynda höfn við Norðursjó. Fram að þessum tíma voru prússar ekki með neina hafnaraðstöðu við Norðursjó. Höfnin sjálf var ekki byggð fyrr en 1856 og upp úr því myndaðist bærinn. Höfnin var loks vígð 1869 að viðstöddum Vilhjálmi I konungi Prússlands. Honum til heiðurs fékk byggðin heitið Wilhelmshaven. Aðeins tveimur árum síðar varð Prússland að keisararíki. Vilhjálmur I ákvað þá að nota Wilhelmshaven sem herskipahöfn og hefur hún verið það síðan með hléum. 1873 fékk Wilhelmshaven loks borgarréttindi. Höfnin var einnig mikið notuð til siglinga í þýsku nýlendurnar í Afríku og víðar. Um aldamótin 1900 voru herskip smíðuð í höfninni. Til að smíða betri og stærri herskip var höfnin stækkuð umtalsvert. Við lok heimstyrjaldarinnar fyrri voru 20 þúsund manns í vinnu við skipasmíðarnar, þar á meðal konur. Eftir stríð var reynt að nota Wilhelmshaven sem fiskihöfn, en sú tilraun mistókst sökum lítillar eftirspurnar eftir fiski á þessum árum. Þess í stað var aftur byrjað á því að smíða skip, ekki síst herskip. Nasistar héldu því áfram og stækkuðu höfnina enn frekar. 1939 fór íbúatalan í fyrsta sinn yfir 100 þús und(náði þá 113 þúsund). Síðan þá hefur hún dalað aftur. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir töluverðum loftárásum sökum þess hve mikilvæg herskipahöfn hún var. Borgin varð alls fyrir 100 loftárásum og eyðilagðist 60% hennar. 6. maí 1945 hertóku pólskar herdeildir borgina en þær voru í stríðinu staðsettar í Skotlandi. Stuttu seinna skiluðu þeir Bretum borgina, enda lá hún á hernámssvæði þeirra. Bretar tóku til við að eyða herskipahöfninni og sprengdu skipasmíðastöðvarnar, hafnaraðstöðurnar og önnur hernaðarmannvirki. Aðeins lítill hluti hafnarinnar var eftir skilin sem átti að þjóna héraðinu sem flutninga- og fiskihöfn. 1956 varð borgin herskipahöfn á ný og er sú eina í Þýskalandi í dag við Norðursjó.
Viðburðir
[breyta | breyta frumkóða]Hafnarhátíðin (Wochenende an der Jade) er þjóðhátíð borgarinnar og hefur verið haldin árlega síðan 1950, yfirleitt fyrstu helgi í júlí. Hátíðin er með breytilegu þema sem gjarnan laðar að fólk úr nágrannalöndunum. Í upphafi var hátíðin eingöngu haldin við höfnina en hefur verið að dreifast um borgina síðustu áratugi. 1999 sóttu 385 þúsund gestir hátíðina en það var þá metaðsókn. Hátíðin er aldrei eins en yfirleitt sigla stór seglskip inn í höfnina, herskipalægið er opið almenningi, farið er í skrúðgöngu, sett eru upp leiktæki og flóamarkaðir, fornbílar mæta á staðinn og í lokin er flugeldasýning.
Vinabæir
[breyta | breyta frumkóða]Wilhelmshaven viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (1929) Hans Clarin leikari
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Ráðhúsið í Wilhelmshaven er einkennisbygging borgarinnar. Það var reist 1927-29. Turninn er 50 metra hár. Á honum er vatnstankur fyrir drykkjarvatn hverfisins. 1944 skemmdist ráðhúsið talsvert í loftárásum og var
- Arngastvitinn stendur á örlítilli eyju eða skeri mitt í Jadeflóanun. Eyjan var stærri áður, en hvarf að mestu í stormflóðum. Vitinn var reistur 1909-10 til að lóðsa skip. Hann er 36 metra hár og 8½ metra í þvermál og þykir með fallegri vitum Þýskalands. 2003 var hann settur á minjavernd og friðaður. Hann er enn í notkun í dag.
- Störtebeker-garðurinn er leik- og lærdómsgarður í norðurhluta Wilhelmshaven og er 20 þúsund m² stór. Byrjað var að byggja leiktæki og annað 1990 af nefnd sem hafði það að markmiði að minnka atvinnuleysi. Garðurinn er sérstaklega hannaður fyrir börn og fatlaða. Störtebeker-garðurinn er nefndur eftir Klaus Störtebeker (um 1360-1401), frægasta sjóræningja Þýskalands.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Wilhelmshaven“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 277.