Location via proxy:   [ UP ]  
[Report a bug]   [Manage cookies]                
Fara í innihald

Búlgaría

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðveldið Búlgaría
Република България
Republika Bălgarija
Fáni Búlgaríu Skjaldarmerki Búlgaríu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Mila Rodino
Staðsetning Búlgaríu
Höfuðborg Sófía
Opinbert tungumál búlgarska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Rumen Radev (Румен Радев)
Forsætisráðherra Dimitar Glavchev (Димитър Главчев)
Evrópusambandsaðild 2007
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
102. sæti
110.994 km²
2,16
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
106. sæti
6,447,710
66/km²
VLF (KMJ) áætl. 2023
 • Samtals 174 millj. dala (73. sæti)
 • Á mann 25.471 dalir (55. sæti)
VÞL (2019) 0,816 (56. sæti)
Gjaldmiðill Búlgarskt lef (BGN)
Tímabelti UTC+2 (UTC+3 á sumrin)
Þjóðarlén .bg
Landsnúmer ++359

Búlgaría (búlgarska: България Bălgarija), formlega Lýðveldið Búlgaría (Република България Republika Bălgarija) er land í Suðaustur-Evrópu við strönd Svartahafs. Búlgaría nær yfir megnið af austurhluta Balkanskaga og á landamæri að Rúmeníu í norðri, Serbíu og Norður-Makedóníu í vestri, og Grikklandi og Tyrklandi í suðri. Búlgaría er rúmlega 110 þúsund km2 að stærð og er 16. stærsta Evrópulandið. Höfuðborg Búlgaríu og stærsta borgin heitir Sófía, en aðrar helstu borgir eru Plovdiv, Varna og Burgas.

Skipuleg samfélög þróuðust í Búlgaríu á Nýsteinöld. Þrakverjar og síðan Grikkir og Rómverjar ríktu yfir landinu í fornöld. Búlgarir réðust yfir Dóná árið 670 og stofnuðu Fyrsta búlgarska ríkið árið 681. Búlgarir tóku þá upp slavneskt mál íbúa landsins sem þeir lögðu undir sig og á 9. öld varð kristni að ríkistrú. Austrómverska ríkið lagði þetta ríki undir sig árið 1018. Annað búlgarska ríkið var stofnað 1185 en Tyrkjaveldi lagði það undir sig árið 1393. Tyrkir féllust á stofnun sérstaks furstadæmis í kjölfar Krímstríðsins árið 1878. Furstadæmið lýsti yfir stofnun sjálfstæðs ríkis árið 1908. Í Fyrri heimsstyrjöld var Búlgaría í liði með Miðveldunum og í Síðari heimsstyrjöld með Öxulveldunum. Sovétmenn gerðu innrás í landið 1944 og settu þar upp leppstjórn kommúnista. Eftir stríð varð Búlgaría því hluti af Austurblokkinni. Eftir hrun Járntjaldsins 1989 var flokksræði afnumið og ný stjórnarskrá samþykkt árið 1991. Eftir 2001 hefur efnahagslíf landsins blómstrað. Það gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu árið 2004 og Evrópusambandinu árið 2007.

Á Sovéttímanum var Búlgaría iðnvædd með áherslu á þungaiðnað og efnahagslíf landsins byggist enn á þungaiðnaði, raforkuframleiðslu, námavinnslu og vélsmíði. Landbúnaður og ferðaþjónusta eru líka mikilvægar atvinnugreinar. Levið er fest við evruna en Búlgaría er ekki hluti af evrusvæðinu og hefur hætt við fyrirætlanir um upptöku evrunnar. Þrátt fyrir vöxt undanfarin ár eru laun í Búlgaríu með því lægsta sem gerist í Evrópu og Búlgaría er í 56. sæti vísitölu um þróun lífsgæða. Spilling er stórt vandamál í landinu sem var talið spilltasta Evrópusambandslandið árið 2018.[1] Landið glímir auk þess við vandamál tengd fólksfækkun. Íbúar þar eru nú tæpar 7 milljónir en voru 9 milljónir árið 1988. Búlgaría er stofnaðili að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og hefur þrisvar setið í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Nafnið Búlgaría er dregið af heiti tyrkískrar þjóðar sem nefnist Forn-Búlgarar (til aðgreiningar frá núverandi íbúum Búlgaríu). Forn-Búlgarar stofnuðu Fyrsta búlgarska ríkið. Merking heitisins er óljós og er erfitt að rekja aftar en til 4. aldar,[2] en hugsanlega er það dregið af frumtyrkíska orðinu bulģha („blanda“, „hrista“, „hræra“) og afleidda orðinu bulgak („uppreisn“, „óreiða“).[3] Merkingin getur þannig vísað til uppreisnarmanna eða friðarspilla.[4][5][6] Svipuð nöfn hafa verið notuð um aðra ættbálka í Innri-Asíu, eins og Buluoji sem voru einn af fimm hópum barbara sem var lýst á 4. öld sem bæði „blönduðum“ og „friðarspillum“.[7]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Búlgaría skiptist frá 1999 í 27 héruð og eitt höfuðborgarhérað (Sófía-Grad). Öll héruðin draga nafn af höfuðstað sínum. Héruðin skiptast í 265 sveitarfélög. Yfir sveitarfélögum er borgarstjóri sem kosinn er til fjögurra ára, auk kjörinnar sveitarstjórnar.

Landafræði og náttúrufar

[breyta | breyta frumkóða]
Landfræðikort.

Búlgaría á landamæri með fram DónáRúmeníu í norðri, Tyrklandi og Grikklandi í suðri og Makedóníu og Serbíu í vestri. Svartahaf er í austri. Landið er 110.879 ferkílómetrar að flatarmáli.

Nokkrir fjallgarðar eru í Búlgaríu: Balkan-fjöll liggja í gegnum mitt landið og í suðri eru Ríla-fjöll, Pírín-fjöll og Ródópe-fjöll. Musala-fjall í Pírín-fjöllum er hæsta fjall landsins og Balkanskagans; 2925 metrar. Um 35% landsvæðis er skógi vaxið, aðallega blandaðir skógar með lauf- og barrtrjám. Um 100 spendýrategundir lifa í óbyggðum landsins þar á meðal: Brúnbjörn, gaupa, úlfur og hjartardýr.

Í Búlgaríu eru 3 þjóðgarðar, 11 náttúrugarðar og 54 náttúruverndarsvæði.

Dolno-vatn.
Population graph
Íbúaþróun frá 1960.

Samkvæmt manntali frá 2021 bjuggu þá um 6.875.000 manns í Búlgaríu og hefur íbúum fækkað síðasta áratuginn. Meirihluti íbúa, eða 72,5%, búa í þéttbýli.[8] Árið 2019 var Sófía stærsta þéttbýlissvæðið með 1.241.675 íbúa, en þar á eftir koma Plovdiv (346.893), Varna (336.505), Burgas (202.434) og Ruse (142.902).[9] 84,8% íbúa eru Búlgarar, en Tyrkir og Rómafólk eru 8,8% og 4,9% íbúa. Um 40 smærri þjóðarbrot eru 0,7% og 0,8% töldu sig ekki til neinna upprunahópa.[10][11] Fyrrum forstjóri Tölfræðistofnunar Búlgaríu, Reneta Indzhova, hefur sagt að raunverulegur íbúafjöldi gæti hafa verið minni en tölurnar úr manntalinu gáfu til kynna.[12][13] Rómafólk er oft vanmetið í manntölum og gæti verið allt að 11% íbúa.[14][15] Íbúar eru 65 á ferkílómetra, sem er um helmingur meðaltals Evrópusambandsríkja.[16]

Árið 2018 var heildarfrjósemishlutfall í Búlgaríu 1,56 börn á konu,[17] sem er undir viðhaldshlutfallinu 2,1 og mun lægra en hápunkturinn sem var 5,83 börn á konu árið 1905.[18] Búlgaría er með einn hæsta meðalaldur heims, eða 43 ár.[19]

Búlgaría glímir við fólksfjöldakreppu.[20][21] Íbúum hefur fækkað jafnt og þétt frá því snemma á 10. áratugnum, þegar efnahagshrun setti af stað langvarandi fólksflótta.[22] Milli 937.000 og 1.200.000 manns - aðallega ungt fólk - höfðu flust frá landinu árið 2005.[22][23] Meirihluti barna fæðist utan hjónabands.[24] Þriðjungur allra heimila eru einstaklingsheimili og 75,5% fjölskyldna eru ekki með börn undir 16 ára aldri.[21] Fæðingartíðni er með því lægsta sem gerist í heiminum[25][26] og dánartíðni er með því hæsta sem gerist.[27]

Jafnrétti er mikið í Búlgaríu, sem var í 18. sæti í skýrslunni Global Gender Gap Report árið 2018.[28] Kosningaréttur kvenna var lögleiddur tiltölulega seint, eða 1937, en í daga njóta konur sömu pólitísku réttinda og karlar og taka virkan þátt í atvinnulífinu þar sem lög tryggja sömu laun fyrir sömu vinnu.[28] Árið 2021 mat markaðsrannsóknafyrirtækið Reboot Online Búlgaríu sem besta Evrópulandið fyrir konur að vinna í.[29] Í Búlgaríu er hæsta hlutfall kvenna að störfum í upplýsingatækni innan Evrópusambandsins,[30] og hæsta hlutfall kvenna í tæknigeiranum, eða 44,6%. Þessi mikla atvinnuþátttaka kvenna í Búlgaríu er arfur frá tímum kommúnistastjórnarinnar.[31]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Corruption Perceptions Index 2018 Executive Summary“ (PDF). Transparency International. bls. 12. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 9 október 2022. Sótt 10. febrúar 2019.
  2. Golden 1992, bls. 103–104.
  3. Bowersock, Glen W. (1999). Late Antiquity: a Guide to the Postclassical World. Harvard University Press. bls. 354. ISBN 978-0674511736.
  4. Chen 2012, bls. 97.
  5. Petersen, Leif Inge Ree (2013). Siege Warfare and Military Organization in the Successor States (400–800 AD): Byzantium, the West and Islam. Brill. bls. 369. ISBN 978-9004254466.
  6. Golden 1992, bls. 104.
  7. Chen 2012, bls. 92–95, 97.
  8. NSI Census data 2011, bls. 3.
  9. NSI Census data 2017.
  10. NSI Census data 2011, bls. 4.
  11. „Census results: population by residence, ethnic group and age“. National Statistical Institute of Bulgaria. 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júní 2012. Sótt 20. júlí 2018.
  12. НСИ: Преброяването от 2011 г. е сгрешено, нужно е ново [NSI: The 2011 census is incorrect, a new one needed] (búlgarska). Vesti. 25. mars 2014. Sótt 22. júlí 2018.
  13. Dimitrova, Eliana (25. mars 2014). Скандални твърдения за неточности в преброяването през 2011 г. [Scandalous claims of inaccuracies in the 2011 census] (búlgarska). Bulgarian National Television. Sótt 22. júlí 2018.
  14. „Bulgarians unfazed by anti-Roma hate speech from deputy prime minister“. Deutsche Welle. 31. október 2017.
  15. „Field listing: Ethnic Groups“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 21 nóvember 2020. Sótt 15. desember 2019.
  16. „Population density (people per sq. km of land area)“. The World Bank. 2018. Sótt 12. september 2018.
  17. „Population and Demographic Processes in 2018“. Nsi.bg. Afrit af upprunalegu geymt þann 15 júlí 2020. Sótt 19. maí 2020.
  18. Max Roser (2014), „Total Fertility Rate around the world over the last centuries“, Our World In Data, Gapminder Foundation
  19. „World Factbook EUROPE : BULGARIA“, The World Factbook, 12. júlí 2018
  20. „World Bank: The demographic crisis is Bulgaria's most serious problem“. Klassa. 15. nóvember 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. maí 2016. Sótt 8. apríl 2013.
  21. 21,0 21,1 „Demographic crisis in Bulgaria deepening“. Bulgarian National Radio. 12. mars 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. nóvember 2013. Sótt 8. apríl 2013.
  22. 22,0 22,1 „Will EU Entry Shrink Bulgaria's Population Even More?“. Deutsche Welle. 26. desember 2006. Sótt 11. apríl 2016.
  23. Roth, Klaus; Lauth Bacas, Jutta (2004). Migration In, From, and to Southeastern Europe. The British Library. bls. 188. ISBN 978-3643108968.
  24. „Eurostat – Tables, Graphs and Maps Interface (TGM) table“. Eurostat. 17. október 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. október 2014. Sótt 25. febrúar 2014.
  25. „Country Comparison: Population growth rate“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. mars 2012. Sótt 20. desember 2011.
  26. „Country Comparison: Birth rate“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 15 júní 2013. Sótt 8. apríl 2013.
  27. „Country Comparison: Death rate“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 15 júní 2013. Sótt 8. apríl 2013.
  28. 28,0 28,1 The Global Gender Gap Report (PDF). World Economic Forum. 2018. bls. 10, 45, 46. ISBN 978-2-940631-00-1. Sótt 26. febrúar 2019.
  29. „The best countries in Europe for women to work“. Yahoo! Finance. Sótt 10. mars 2021.
  30. „Girls and women under-represented in ICT“. Eurostat. 25. apríl 2018. Sótt 15. júlí 2018.
  31. Hope, Kerin (9. mars 2018). „Bulgaria builds on legacy of female engineering elite“. The Financial Times. Sótt 15. júlí 2018.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.